Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
„Það búa níu flóttamenn frá Úkraínu heima hjá okkur hjónum og í tveimur sumarbústöðum sem við eigum stutt frá borginni,“ segir Orri Wilberg, eigandi byggingafyrirtækisins Wilbergs í borginni Kaunas í Litháen. Hann hefur búið þar og starfað í um 20 ár og rekur þrjár verksmiðjur í timburiðnaði undir merkjum Wilbergs.
Starfsmenn eru um 250 talsins og verksmiðjuhúsnæðið samtals um 20.000 fermetrar. Fyrirtækið framleiðir gæðaparket, baðherbergiseiningar og fjölbreytt einingarhús. Fjölmörg hús frá Wilbergs, af öllum stærðum og gerðum, hafa verið reist á Íslandi og í Skandinavíu. Fyrirtækið er til dæmis með tíu starfsmenn í Noregi. Verslunin Parki selur vörur frá Wilbergs hér á landi.
Flóttamenn streyma til Litháen
Orri segir að töluverður straumur úkraínskra kvenna og barna sé til Litháens, þótt úkraínskir flóttamenn séu langflestir í Póllandi. Flóttamennirnir koma með rútum til Litháens en þeir eru líka sóttir á einkabílum.„Audra, konan mín, bauð fram aðstoð á netinu og fólk hefur haft beint samband við okkur. Við höfum farið í tvær ferðir til Varsjár í Póllandi til að ná í flóttafólk. Um daginn náðum við í úkraínska konu og barnið hennar. Hún hringdi oft og spurði hvort við næðum ekki örugglega í þau,“ segir Orri. Hann hefur átt í viðskiptum við Úkraínu og keypt mikið af timbri þaðan. Enginn vöruskortur er í Litháen en verðlag hefur hækkað, að sögn Orra.
„Nú er búið að loka á öll viðskipti við Rússland en við keyptum mikið af timbri þaðan. Timburverð hefur hækkað mikið í kjölfarið,“ segir Orri.
Mikil óvissa vegna stríðsins
„Hér er undirliggjandi hræðsla við að vera svona nálægt Rússunum, þótt það sé ekki nein paník. Litháar voru undir Rússum í 50 ár. Maður hefur heyrt af Litháum sem voru t.d. á Spáni þegar stríðið byrjaði. Karlinn kom heim en konan og börnin urðu eftir þar til staðan skýrist betur. Fólk sem ætlaði að kaupa af mér parket ákvað að bíða aðeins með það. Óvissan er svo mikil,“ segir Orri. Litháen er eitt Eystrasaltsríkjanna og á landamæri að Lettlandi í norðri, Hvíta-Rússlandi í austri og Póllandi og Kalíníngrad (Rússlandi) í suðri. Eystrasalt er í vestri.Hann segir að Íslendingar átti sig ekki á því hvernig það er að búa jafn nálægt Rússlandi og Litháar gera. Íslendingar segi „við erum í NATO og alveg öruggir“. Litháar séu líka í NATO en óttist samt að Rússar geti ráðist inn í land þeirra. Um 5-6% íbúa Litháen eru af rússnesku bergi brotin. Orri veit ekki til þess að þeir hafi orðið fyrir ónæði vegna ætternisins. Hann er með rússneska Litháa í vinnu og því fylgja ekki nein vandamál. Margir Litháar tala rússnesku, einkum þeir eldri. Úkraínumennirnir tala líka flestir rússnesku og geta því gert sig skiljanlega í Litháen. Fáir þeirra tala ensku, nema þá helst krakkarnir. Úkraínska flóttafólkið fær landvistar- og atvinnuleyfi í Litháen í þrjú ár. Orri er nýbúinn að ráða til starfa tvær úkraínskar konur sem báðu um vinnu.
Allir vilja hjálpa til
„Litháar sýna Úkraínumönnum gríðarmikla samstöðu og eru almennt mjög hjálpsamir. Hjálparsamtök hér eru að safna mat, fötum og peningum til að hjálpa Úkraínu. Allir vilja hjálpa til. Litháen er vinaþjóð Úkraínu. Víða er flaggað úkraínskum fánum og það eru úkraínskir fánar á ljósaskiltum meðfram hraðbrautunum,“ segir Orri.Eitt barnið sem dvelur hjá Orra og Audru konu hans er þegar byrjað í bekk með dóttur þeirra. Orri á von á því að hluti Úkraínumannanna muni dvelja áfram í Litháen, jafnvel þótt stríðinu ljúki.