Ólafur Aðalsteinn Gíslason fæddist 29. júní 1944. Hann lést 17. febrúar 2022.

Útför Ólafs fór fram 28. febrúar 2022.

Ólafur bróðir er fallinn. Fyrir aldur fram segja sumir, einn nefndi áfall. Óli var að vísu kominn á efri ár en ekkert gamalmenni, eða svo fannst flestum sem þekktu þennan starfsglaða og haga handverksmann.

Það varð honum áfall að greinast með hægfara krabbamein.

Hann orðaði það svo: „Löngum hefi ég göslast áfram án áhyggju af heilsufari.“ Síðustu orð hans við mig: „Hvort er betra að veslast upp úr hægfara krabbameini, eða snöggdrepast úr hjartabilun? Spyr sá sem ekki veit.“

Eftir árangurslausar tilraunir til að gera út af við krabbameinið var honum boðin áhættusöm aðferð sem sumum höfðu dugað, en ekki öllum. Hann valdi áhættuna.

Hún fór með hann. Feigum verður ekki forðað. Tími hans var kominn.

Ég var tæpum sex árum eldri og var ábyggilega oft með einhvern stórabróðurhroka við hann, en hann var orðheppinn, frakkur og kjaftfor og ég gekk ekki alltaf feitur frá orðaskiptum.

Ég var kominn á fullorðinsár og allmikla ábyrgð í búrekstri foreldra okkar, en ekki tilbúinn að setjast alveg að. Fór að heiman og var lengur burtu en upphaflega var ætlað. Taldi þá yngri bróður og fósturbróður, tvo menn, ekki of góða til að vera máttarstólpa lengur en upphaflega var áætlað. En allt þótti ómögulegt ef mig vantaði. „Ég stefndi ekkert að frama í búskap,“ sagði Óli seinna.

Hann fór í trésmíðina, einn af þessum högu Látrurum og eins og hann sagði: „Það var Ólafur Teitsson í Sviðnum sem flutti hagleikann inn í ættina. Hans er ekki getið fyrr en með honum.“

Trésmíðina nam hann í Stykkishólmi og síðan var hann fljótt hjá verktökum stórra verkefna löngum verkstjóri.

„Besti verkstjóri sem ég þekki, alltaf rólegur,“ heyrði ég starfsbróður hans segja.

Óli varð verktaki sjálfur með eigið verkstæði syðra. Nóg verkefni.

Byggði tvisvar yfir mig og fjölskyldu mína í búskapnum. Fyrst í Flatey, síðan í Skáleyjum. Og hann rak smiðshöggið á viðgerð Flateyjarkirkju meðan ég var þar í forsvari.

Bát fjölskyldunnar Kára tók hann suður og gerði upp frá a til ö. Þrír smiðir voru riðnir við uppruna og viðhald Kára í 60 ár. Þegar Óli reif byrðinginn feðraði hann hvern nagla og stórjók þekkingu sína á vinnubrögðum ættarsmiðanna.

Honum þótti vænt um sína bernskubyggð. Vann án launa að framantöldum verkefnum þar. Kallaði það sitt framlag til æskustöðvanna.

Með smiðsferlinum fór hann að gera út á handfæri. Var mest í því síðustu árin og sagði það skemmtilegasta starfið. Eignaðist 3 báta hvern eftir annan. Þeir fengu nöfnin Sigurborg, Sigurborg II og Sigurborg Ólafs.

Kæra Henný mín! Guð blessi þig og afkomendur ykkar alla. Gæfan fylgi ykkur.

Jóhannes Geir Gíslason.