Sigga, Beta og Elín eru afar nánar systur. Þær vita fátt skemmtilegra en að vinna saman að tónlist.
Sigga, Beta og Elín eru afar nánar systur. Þær vita fátt skemmtilegra en að vinna saman að tónlist. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Systurnar Sigga, Beta og Elín komu, sáu og sigruðu í Söngvakeppninni 2022 og eru á leið til Ítalíu. Þær eru fullar þakklætis og lofa að verða þjóðinni til sóma. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

Þær tínast inn ein af annarri á kaffihúsið, systurnar þrjár, Sigríður, Elísabet og Elín Eyþórsdætur, eða eins og þær kalla sig: Sigga, Beta og Elín. Þær eru frjálslegar í fasi og brosmildar og það er systrasvipur með þeim þótt þær séu ekki beint líkar. Allar eru þær með villt og hrokkið hár; Sigga ljóshærð, Beta rauðhærð og Elín dökkhærð. Við setjumst niður með kaffi og smá kruðerí og komum okkur vel fyrir innan um erlenda ferðamenn og aðra kaffiþyrsta gesti þennan miðvikudagsmorgun. Um síðustu helgi var ljóst að systurnar stóðu upp sem sigurvegarar í Söngvakeppninni með laginu Með hækkandi sól. Þær svífa enn um á bleiku skýi.

Blaðamaður byrjar að sjálfsögðu á hamingjuóskum. Reykjavíkurdætrum hafði verið spáð sigri en þjóðin kaus og sigurinn var afgerandi.

„Ég held fólk hafi vanmetið landsbyggðina. Við áttum ekki von á þessu,“ segir Sigga.

„Við þurfum svolítið að venjast því að hafa unnið og okkur líður alls konar. Það er skrítið að keppa í tónlist. En við erum að meina það þegar við segjum að öll atriðin áttu skilið að vinna. En við lögðum mikla vinnu í þetta og áttum þetta líka skilið. Við erum stoltar af þessu frábæra lagi hennar Lovísu og fáránlega spenntar fyrir þessu,“ segir Elín og hinar tvær taka undir það.

Sannkölluð tónlistarfjölskylda

Sigga er elsta systirin og sú sem talar mest, að eigin sögn. Beta er miðsystirin og er Elín yngst, en fjögur og fimm ár eru á milli elstu og miðsysturinnar og því níu ár á milli elstu og yngstu.

„Það eru fimm ár á milli okkar Betu. Við vorum engar geggjaðar vinkonur fyrst, hún eyðilagði einkabarnslífið mitt. Þú krotaðir út allan hausinn á uppáhaldsdúkkunni minni, ég er varla enn búin að fyrirgefa þér,“ segir Sigga og beinir orðum til Betu og hlær.

„En í það heila erum við búnar að vera mjög góðar vinkonur og nánar,“ segir Sigga og hinar taka undir. Þær segjast hafa orðið sífellt nánari með árunum, en einnig er afar kært með þeim systrum og Eyþóri litla bróður þeirra sem spilar á trommur í atriði systranna. Foreldrar systkininna eru ástsæla tónlistarfólkið Ellen Kristjánsdóttir og Eyþór Gunnarsson.

Hvernig var að alast upp með foreldra sem voru þekkt tónlistarfólk?

„Mér fannst það alltaf rosalega gaman og ég fór mikið með mömmu og pabba á æfingar. Mér fannst voða ósanngjarnt ef ég mátti ekki koma með,“ segir Beta.

„Ég þekkti ekkert annað. Það var gaman að fara með þeim á æfingar. En svo man ég líka að þegar maður fór með mömmu eitthvað þá talaði hún við alla sem urðu á hennar vegi; hún gefur öllum tíma. Og pabbi er alltaf til í að gefa sinn tíma þegar kemur að tónlistinni. Þau eru bæði ótrúlega óeigingjarnar manneskjur,“ segir Elín.

Systurnar voru snemma komnar í tónlist og bæði Sigga og Beta lærðu á píanó.

„Mig skorti allan aga til að æfa mig. Ég held ég hafi haldið að af því að mamma og pabbi væru tónlistarmenn, og mér var iðulega sagt hvað ég væri klár, að ég þyrfti ekkert að æfa mig. En svo fóru bara hinir fram úr mér. Ég er með athyglisbrest og vildi bara spila það sem mér fannst skemmtilegt,“ segir Sigga.

„Ég lærði ekki á neitt en er sjálflærð,“ segir Elín.

„Ég lærði á píanó en hætti af því ég nennti því ekki, en sé eftir því núna. En það er erfitt að pína unglinga til að æfa,“ segir Beta.

„Ég er sjálf með athyglisbrest en fór ekki fyrr en 27 ára í kennaradeildina í FÍH í tónlistarnám,“ segir Beta.

„Þegar ég var lítil var bara kennt klassískt nám og ekki möguleiki á að læra ryþmískt,“ segir Sigga.

Ég tala stanslaust

Nú eruð þið tvær búnar að nefna að þið eruð með athyglisbrest, en þú Elín?

„Já, ég er líka með mjög mikinn athyglisbrest,“ segir Elín og Sigga bætir við að þær séu allar þrjár greindar með ADHD.

„Bróðir okkar greindist miklu yngri en af því stelpur eru oft með öðruvísi einkenni þá uppgötvaðist það ekki strax,“ segir Sigga og segir þær hafa fengið greiningu á fullorðinsárum.

Hvernig brýst það út hjá ykkur?

„Ég tala stanslaust. Í dag kann ég að lesa í félagslegar aðstæður og veit frekar hvenær ég á að þegja. Svo var ég ótrúlega forvitin og hvatvís og kunni engin mörk um hvað ég mætti segja eða spyrja. Ég fór kannski í heimsókn til fólks og lét engan vita, algjörlega ómeðvituð um allt og allir að leita að mér,“ segir Sigga og segir að í dag viti allir að hún sé með ADHD.

„Ég er mjög róleg en er oft í mínum eigin heimi. Ég gleymi öllu og er utan við mig. Mér er ekki treystandi að fara með poka út úr húsi án þess að skilja hann einhvers staðar eftir,“ segir Elín.

„Já, hún kemur aldrei heim til mín án þess að gleyma einhverju hjá mér,“ segir Sigga og þær segjast allar kannast við að vera haldnar frestunaráráttu.

„Hjá mér er það þannig að ég þarf oft nákvæmar leiðbeiningar um það sem er ætlast til af mér í skóla,“ segir Sigga.

„Það var svo mikilvægt að fá greiningu því þá upplifði ég ekki lengur að ég væri löt; það var ástæða fyrir þessu og ég get unnið með þessu. Það er líka margt gott við ADHD,“ segir Beta.

„Ég lærði oft eitthvað en missti svo fljótt áhugann og skildi ekki af hverju,“ sagði Elín.

„Ég fann mig loksins í námi í FÍH því ég fékk að spila svo mikið og semja og fannst svo frábært hvað það var mikið verklegt,“ segir Beta.

Fékk knús frá hverju barni

Hvaða leiðir fóruð þið í lífinu og við hvað starfið þið þegar þið eruð ekki í tónlist?

„Ég fór í MH og hætti eftir tvo mánuði. Ég er búin að vera í skóla lífsins síðan og er ekkert lærð nema ég tók miðstigið í tónfræði. Á mínum yngri árum var ég að ferðast; bjó í New York sem var mikið ævintýri en ég lifði þá hálfgerðu bóhemlífi og sé ekkert eftir því í dag. Svo eignaðist ég strák fyrir þremur árum og færðist úr bóhemlífinu. Ég hef fyrst og fremst verið mamma síðustu ár, auk þess að vinna hjá velferðarsviði þar sem ég vinn nú á sjálfstæðri búsetu með frábæru fólki,“ segir Elín og segir það sérstakt að þær systur séu nú áberandi í fjölmiðlum.

„Ég sem er svo mikið introvert, en það stuðar mig ekki þannig. Þetta fylgir þessu, en við urðum eiginlegar frægar yfir nótt,“ segir Elín.

Sigga er gift Bandaríkjamanni og á fjögur börn, það yngsta er þriggja ára stúlka sem hún á með eiginmanninum en fyrir átti hún þrjá drengi sem eru nú stálpaðir.

„Ég fór ekki í menntaskóla fyrr en eftir að ég eignaðist fyrsta barnið mitt. Ég fór út eins og Elín, að ferðast og vann sem au-pair. Svo fór ég í menntaskóla og tók líka sjúkraliðann, en ég elska að vinna með börnum með sérþarfir. Skemmtilegasta vinna sem ég veit; það er draumavinna. Ég ætlaði alltaf í hjúkrun eða tónlist og fór þá í Listaháskólann og kláraði tónsmíðar þar. Eftir það tók ég einkaþjálfarann og nú er ég líka að læra hjúkrun. Ég er svolítið úti um allt og veit ekki hvað ég vil verða þegar ég er orðin stór,“ segir Sigga sem segist nú þurfa að taka sér hlé frá hjúkrunarnáminu til að taka þátt í Eurovision.

„Ég elska að vinna með fólki og finna að ég get hjálpað, en tónlist er líka svo heilandi,“ segir Sigga.

Beta kláraði ekki menntaskóla en hún fór út átján ára sem au-pair.

„Ég eignaðist svo strákinn minn 21 árs og var í skóla lífsins en þegar ég var 27 fór ég í kennaradeildina eins og ég nefndi, en mitt aðalstarf er að kenna börnum tónlist í Hjallastefnunni,“ segir Beta og segist gjarnan vilja þakka mentorum sínum og fyrirmyndum, þeim Þórdísi Heiðu Kristjánsdóttur og Hildi Guðnýju Þórhallsdóttur.

„Það er þeim að þakka að ég er í þessu dásamlega starfi sem tónlistarkennari. Ég væri ekki í þessu án þeirra. Það er besta vinna í heimi! Ég mætti á mánudaginn í vinnuna og öll börnin og allir kennarar tóku á móti mér með blóm, syngjandi lagið. Ég fékk knús frá hverjum einasta nemanda og kennara og fór bara að hágráta. En nú þarf ég að taka mér frí og það er svo mikill skilningur og stuðningur,“ segir Beta.

„Beta er svo mikið „sweetheart“; það elska hana allir nemendur. Hún hefur alltaf verið svona. Börnin okkar elska Betu mest,“ segir Sigga.

Beta segist einnig hafa mikinn áhuga á kvikmyndatónlist.

„Ég fór á þriggja mánaða fjarnámskeið í Berkeley til að læra að semja kvikmynda- og auglýsingatónlist. Það heillar mig mikið núna og langar að fara meira út í það.“

Lovísa er fjórða systirin

Systurnar hafa verið saman í hljómsveitinni Sísí Ey síðan 2011, ásamt Friðfinni „Oculus“ Sigurðssyni.

„Við vorum uppgötvaðar á Sónar Reykjavík og spiluðum svo á Sónar Barcelona. Það fór einhver bolti að rúlla í kringum 2012,“ segir Elín.

„Við spiluðum á Glastonbury og nokkrum sinnum í Noregi. Við elskum Noreg,“ segir Sigga og segir þær semja elektróníska danstónlist.

„Carmen Jóhannsdóttir var líka með okkur og á fullt af lögum,“ segir Beta og segir bandið ekki hafa verið mjög virkt undanfarið.

„Við Sigga erum báðar með þriggja ára börn; það hefur ekki gefist tími,“ segir Elín.

„En nú er minn tími kominn eins og Jóhanna sagði, orðin fertug,“ segir Sigga og segir drengina sína vera á leið að feta í fótspor hennar.

„Strákarnir okkar eru í tónlist og miklir móðurbetrungar,“ segir Sigga og Beta tekur undir það.

Hvernig kom það til að tókuð þátt í Söngvakeppninni með lagið hennar Lay Low?

„Hún sendi okkur hópskilaboð og prufu af laginu og spurði hvort við værum til í að syngja það,“ segir Elín.

„Það er mjög mikið að gera í vinnunni en ég sagði stelpunum að við ættum að gera þetta, það yrði svo gaman. Við vissum ekki að við myndum ná svona langt en langaði aftur að tengjast tónlistinni og koma okkur saman. Þarna kom tækifærið,“ segir Beta og þær segjast stundum hafa hitt Lovísu í gegnum tíðina en ekki þekkt hana vel.

„Hún er svo yndisleg. Ég gerði kántríplötuna Galdur árið 2008 með fyrrverandi manni mínum þegar við vorum í hljómsveitinni Pikknikk og þá hittumst við stundum. En núna er hún bara fjórða systirin!“ segir Sigga.

„Hún er dásamleg og hefur ótrúlega fallega nærveru; það er ekki annað hægt en að elska hana,“ segir Elín.

Systurnar segjast hafa strax heillast af laginu.

„Við erum með kántríundirtón, en mamma er fædd og uppalin í Ameríku. Við eigum ameríska ættingja og ég hef heillast mikið af kantrítónlist,“ segir Elín.

„Eitt sem við sameinuðumst mikið í sem litlar stelpur, sérstaklega ég og Beta, var að radda og við vorum mjög ungar þegar við gátum það. Við systurnar vorum oft að syngja í bílnum,“ segir Sigga.

„Þær, mér var ekki gefin þessi röddunargjöf,“ segir Elín en hinar eru ekki sammála því.

„Þær eru snillingarnir í því, en ég tek „basic“ röddina,“ segir Elín, en Beta er með hæstu röddina og Sigga lægstu.

Aldrei stressaðar á sama tíma

Hvernig hefur undirbúningurinn verið fyrir keppnina, var þetta mikil vinna?

„Já, þetta var brjáluð vinna en það skemmtilegasta sem ég hef gert í lífinu! Við vissum ekkert hvað við vorum að fara út í en höfum kynnst svo skemmtilegu fólki. Við eigum nú nýja vini og vonandi fyrir lífstíð,“ segir Sigga og hinar taka sannarlega undir þessi orð.

Þær hrósa framleiðendum og öllum sem komu að undirbúningi keppninnar í hástert.

„Ragnhildur Steinunn er þvílíkur snillingur að pródúsera og leikstýra. Hún er ótrúleg og miklu meira en kynnir í flottum kjól,“ segir Sigga.

„Hún er með svo flotta útgeislun og með svo mikinn metnað,“ segir Beta.

„Við berum allar mikla virðingu fyrir henni. Hún passar upp á að allir fái að njóta sín, og allir aðrir sem komu að þessu,“ bætir Elín.

„Allir starfsmenn hjá Rúv og í kringum þessa keppni eru dásamlegt fólk. Salóme er snilldar pródúsent og leikstjórinn Unnur Elísabet dáleiddi okkur með sínu einstaka jafnaðargeði og endalausu jákvæðni,“ segir Elín.

Voru þið stressaðar?

„Ég var sú stressaða; ég er með sviðsskrekk. Þá fer ég að skjálfa, en í miðju laginu er ég orðin góð. Það er líka nýtt að standa uppi á sviði þar sem fólk er ekki bara komið til að horfa, heldur líka til að dæma mann. Ætli maður óttist ekki að valda vonbrigðum,“ segir Sigga en hinar systurnar segja það misjafnt hversu stressaðar þær séu.

„Ég er ekkert óbærilega stresssuð, en ég fer eiginlega bara í blakkát á sviðinu,“ segir Elín.

„Við erum aldrei stressaðar á sama tíma; þar liggur styrkurinn,“ segir Beta og segir þær alltaf geta gefið hver annarri uppörvandi augnaráð ef þær sjá að einhver er að stressast upp.

Nú horfa tæpar 200 milljónir á Eurovision, hvernig leggst það í ykkur?

„Það skiptir minna máli fólkið sem er að horfa heima; ég geri mér enga grein fyrir þeim fjölda. Ég er meira stressuð að standa fyrir framan áhorfendur og sjá þeirra viðbrögð,“ segir Sigga.

Þær viðurkenna að það sé auðvitað stressandi að vera í beinni útsendingu og segja að það örli á kvíða yfir að gera mistök, en að þær ætli ekki að einblína á það.

„Það er svo mikil fegurð í mistökunum líka,“ segir Sigga.

„Já, ef eitthvað fer úrskeiðis þá er það bara svo, við erum mannlegar,“ segir Elín.

„Ég vil kenna börnum að það er allt í lagi að gera mistök. Það er enginn fullkomin,“ segir Beta.

„Við erum ekki á neinum stalli, við erum bara manneskjur,“ segir Sigga.

Að sýna Úkraínu stuðning

Talið víkur að komandi Eurovision-keppni sem fer fram í Torínó á Ítalíu dagana 10.-14. maí. Systurnar segja atriðið verði eitthvað breytt fyrir stóra sviðið þar.

„Við verðum með álfa, ég elska álfa,“ segir Sigga í gríni.

„Ætlarðu að vera með álfa Sigga mín?“ spyr Elín og hlær.

„Við ætlum að breyta einhverju og erum með geggjaðan stílista,“ segir Beta og segja þær einvalalið vera í kringum þær sem er nú í óða önn að skipuleggja atriðið og útlit.

„Að fara út með öllu þessu frábæra fólki er svo geggjað,“ segir Sigga.

Eru þið búnar að hlusta á öll lög hinna keppendanna?

„Já, alla vega lögin sem verða með okkur á kvöldi. Mér finnst portúgalska lagið alveg geggjað,“ segir Sigga og Elín nefnir að norska lagið sé gott.

Systurnar segjast hafa fylgst með Eurovision frá barnsaldri, þótt þær geti ekki kallast Eurovision-nördar.

„Við höfum aldrei sleppt að horfa á Eurovision og þegar við vorum litlar var alltaf stórt Eurovison-partý heima hjá Kristjáni frænda og þar mættu allir og við gáfum stig,“ segir Elín.

„Mamma tók líka þátt í Söngvakeppninni,“ segir hún.

Hvað finnst ykkur um það að Úkraína vinni ef til vill vegna stríðsins?

„Okkur finnst það fínt, við erum ótrúlega litlar keppnismanneskjur,“ segir Sigga.

„Það er frábært ef þessi vettvangur er notaður til að sýna Úkraínu stuðning,“ segir Elín.

„Það sást aðeins í úkraínska fánann á hendinni á Elínu þegar við fórum í viðtal við 60 Minutes,“ segir Sigga og bætir við að þær séu femínistar, styðji minnihlutahópa og fagni fjölbreytileikanum.

Hafið þið einhverja hugmynd um í hvaða sæti þið lendið?

„Nei, ég er bara föst í núinu. Það er svo mikið í gangi núna og ég hef raunverulega ekki hugsað út í þetta,“ segir Elín.

„Auðvitað langar okkur að komast á úrslitakvöldið til að fá að taka þátt í ævintýrinu alla leið. En ég get bara lofað því að við gerum okkar besta og höldum afram að vera við sjálfar. Þá mun okkur ganga eins vel og hægt er,“ segir Sigga.

Viljið þið nota Eurovision sem stökkpall fyrir frægð og frama?

„Þetta er ótrúlega gott tækifæri sem við viljum auðvitað nýta okkur til að koma áfram okkar tónlist,“ segir Beta.

„Kannski getur þetta gefið okkur svigrúm til að skapa, án þess að þurfa að hugsa um að borga reikninga,“ segir Elín.

„Tónlistin þarf nefnilega stundum að mæta afgangi þegar þarf að borga þá,“ segir Sigga.

Mikil einlægni í kántrí

Systurnar segja allar að draumurinn sé að vera í fullu starfi við að vera í hljómsveit og fá að spila úti um allan heim.

„Alveg absólút,“ segir Beta.

„Við erum líka bandarískir ríkisborgarar og það væri gaman að fá að taka þátt í þeirri senu líka,“ segir Elín en þær segjast vera mikið inni á kantrílínunni og því hafi lag Lovísu hentað þeim afar vel.

„Ég hef verið núna síðasta ár að taka upp sóló kántríplötu. Við höfum allar verið í kántrí og erum að fara að gefa út nýtt efni núna á næstunni með Lovísu,“ segir Elín.

„Við fundum það í keppninni að samstarfið við Lovísu var bara upphafið,“ segir Beta.

„Mörgum finnst kántrí eitthvað hallærislegt en það er mjög stór hluti fólks í Bandaríkjunum sem hlustar á það. Það er stór heimur þarna úti,“ segir Beta.

„Það er svo mikil einlægni í kántrí og svo fallegar sögur,“ segir Sigga.

Systurnar koma undir nafninu Systur þegar út verður komið, en lagið verður flutt á íslensku. Þær fara út 30. apríl og verða á Ítalíu í tvær vikur.

Hvernig mun ykkur ganga að vera saman í tvær vikur dag og nótt?

„Það verður geggjað!“ segir Beta.

„Við erum sko alltaf saman. Við munum rífast svona tvisvar, en það fer eftir því hvar við erum í tíðahringnum,“ segir Sigga og þær skellihlæja.

„Já, það er sko hræðilegt! Því þær eru samtaka í tíðahringnum og þá er ég ein á móti tveimur,“ segir Beta.

„Takk fyrir að segja alþjóð hvenær við erum á túr,“ segir Sigga og hlær.

„En að öllu gamni slepptu rífumst við sjaldan en ef það gerist leysum við fljótt allan ágreining sem kemur upp. Við erum svo rosalega nánar að við erum í raun hluti af hver annarri.“

Heima með barnabörnum

Yngri bróðir systranna, Eyþór, fer með þeim til Torínó, en hann á von á barni á hverri stundu.

„Mamma og pabbi ætla ekki út því þau ætla að hjálpa til með barnið,“ segir Sigga.

„Okkur finnst gott að vita af þeim heima með börnunum,“ segir Elín og ber mikið lof á litla bróður, sem er reyndar 24 ára.

„Hann er tónlistarséní. Hann spilar á allt og er að fara að gefa út sjálfur sitt efni,“ segir Elín.

„Úti á Ítalíu verðum við í vinnunni en foreldrar okkar eru svo yndisleg að vera heima á meðan að hugsa um barnabörnin,“ segir Beta.

„Ég fyllist oft miklu stolti að geta verið að vinna með systkinum mínum og eiga foreldra sem styðja svona vel við bakið á okkur. Við tökum því ekki sem sjálfsögðum hlut,“ segir Beta og hinar taka undir það hvað fjölskyldan sé mikilvæg.

„Mér fannst svo fallegt þegar sonur minn sagði mér hvað hann væri stoltur af mér og hvað við værum að setja gott fordæmi. Við getum allt, alveg sama hvað,“ segir Sigga.

Ætlið þið ekki að njóta ykkar í Torínó?

„Jú, heldur betur, þetta verður svo gaman,“ segir Beta.

„Ég er að fara í ferðalag með systrum og bróður til Ítalíu!“ segir Sigga og segist afar spennt.

Sigga, þú kannski leyfir stelpunum eitthvað að komast að?

Systurnar hlæja, enda segja þær oft gert góðlátlegt grín að þessu.

„Trúðu mér, það er mjög gott að hafa Siggu, ég á það til að fara bara í „flatline“ þegar ég er í sjónvarpsviðtali og þegi kannski í góðar tuttugu sekúndur,“ segir Elín og brosir.

„Við vorum í viðtali um daginn og vorum ægilega ánægðar af því okkur Elínu tókst að tala,“ segir Beta og hlær.

„Við erum bara mjög spenntar fyrir þessu!“ segir Sigga hinar taka undir. Við látum þetta gott heita og höldum út í veturinn að taka nokkrar myndir. Lítil stúlka stendur fyrir utan með móður sinni og horfir agndofa á systurnar þrjár þar sem þær stilla sér upp fyrir myndatöku. Móðirin spyr varfærnislega hvort hún megi nokkuð fá eina mynd af dóttur sinni með þeim. Það héldu þær nú. Það var glöð lítil stúlka sem kvaddi nýjustu Eurovision-farana okkar sem eflaust munu standa sig með sóma.