Aðalheiður Elísabet Helgadóttir fæddist á Króksbakka í Njarðvík í Borgarfjarðarhreppi eystra 10. nóvember 1924. Hún lést á Dvalarheimili Hrafnistu í Reykjavík 11. febrúar 2022.

Foreldrar hennar voru hjónin Helgi Björnsson, f. 4.2. 1877 í Njarðvík í Desjamýrarsókn, d. 8.5. 1936, og Hólmfríður Björnsdóttir, f. 20.3. 1887 í Staffelli í Fellum, d. 7.10. 1964. Systkini Aðalheiðar voru Elín Anna, f. 28.6. 1907, d. 20.3. 1960, Björn, f. 26.4. 1909, d. 14.7. 1909, Kristín Þuríður, f. 6.8. 1910, d. 11.5. 1935, Guðlaug Hulda, f. 5.2. 1912, d. 8.4. 1995, Björn, f. 12.12. 1913, d. 3.4. 1949, Vigfús Guðmundur, f. 3.5. 1915, d. 19.2. 1999, Þórunn, f. 8.10. 1916, d. 4.3. 1920, stúlka, f. og d. 27.3. 1919, Regína Magdalena, f. 8.5. 1921, d. 17.1. 1996, stúlka, f. og d. 14.7. 1926, Jón, f. 5.7. 1930, d. 1.11. 1992, og drengur f. 24.8. 1933, d. 30.12. 1933. Aðalheiður ólst upp á Króksbakka til 12 ára aldurs þar til faðir hennar lést. Hún flutti þá til frænku sinnar Sigurlaugar Helgadóttur og eiginmanns hennar Jóns Jóhannessonar búfræðings á Hjallhól í Borgarfirði eystra og dvaldi þar ásamt sonum þeirra hjóna Helga og Þórði og Birni bróður sínum til 17 ára aldurs. Árið 1941 flutti hún til Reykjavíkur, 1944 kynntist hún Birgi Sigurðssyni prentara, f. 11.1. 1927 að Sæbóli í Grindavík, d. 22.4. 2014. Þau giftu sig 1949 og skildu 1957. Foreldrar Birgis voru Sigurður Sigurðsson, kaupmaður í Þorsteinsbúð, f. 17.6. 1891 í Pálsbæ á Seltjarnarnesi, d. 12.6. 1951, og Magnea Ósk Tómasdóttir, f. 22.6. 1907 á Eyrarbakka, d. 9.9. 1995. Börn Aðalheiðar og Birgis eru: 1) Baldur Birgisson, f. 1.4. 1954, kvæntur Lovísu Jónsdóttur, f. 4.4. 1946. Sonur Lovísu og stjúpsonur Baldurs er Gylfi Gylfason, f. 1977, kvæntur Hlín Druzin Halldórsdóttur, f. 1978. Sonur Gylfa og Hlínar er Garpur Druzin, f. 2005. 2) Sigrún Linda Birgisdóttir, f. 17.1. 1956. Giftist Helga Jónssyni, f. 29.11. 1954, þau skildu. Börn Sigrúnar Lindu og Helga eru: a) Árni Friðberg, f. 1982, kvæntur Agnesi Ósk Valdimarsdóttur, f. 1985. Börn þeirra eru Clara Dagmar, f. 2016, og Aron Dagur, f. 2018. b) Andri Fannar, f. 1984. Dætur Andra og Eyrúnar Hauksdóttur, f. 1984, þau slitu samvistir, eru Ísabella Sól, f. 2008, og Dagbjört Lind, f. 2010. Dóttir Andra og Lilju Kristjánsdóttur, f. 1988, þau slitu samvistir, er Lísa María, f. 2017. c) Guðný Björg, f. 1991, í sambúð með Hafsteini Sæmundssyni, f. 1983. Sonur Guðnýjar og Hafsteins er Frosti, f. 2021. d) Sóley María, f. 1993, í sambúð með Víkingi Haukssyni, f. 1990. Dóttir Sóleyjar og Víkings er Vilma, f. 2020. Árið 1964 hóf Aðalheiður sambúð með Sigmari H. Sigurðssyni, leigubifreiðarstjóra í Reykjavík, f. 9.8. 1934 á Ísafirði, d. 16.8. 2016. Foreldrar hans voru Sigurður Kr. Ólafsson, f. 11.11. 1881, d. 15.5. 1958, og Jónína Sesselja Guðlaugsdóttir, f. 6.10. 1896, d. 17.12. 1964. Sonur Aðalheiðar og Sigmars er 3) Grétar Sigmarsson, f. 18.9. 1965. Dóttir Grétars og Kristu Glan, f. 10.10. 1968, þau slitu samvistir, er Fanney Aliisa Glan, f. 1994, í sambúð með Marinó Ingvarssyni, f. 1992. Sonur Fanneyjar og Marinós er Anton Leevi, f. 2020.

Útförin fór fram í kyrrþey.

Fyrstu minningar mínar úr þessu lífi eru þær að við mamma og Linda systir mín bjuggum hjá Önnu systur mömmu með börnum hennar Helgu og Nonna í Stigahlíð í Reykjavík 1958. Mamma var ein með okkur og naut hjálpar systra sinna Önnu og Huldu. Við fluttum síðar í nýja íbúð sem pabbi hafði fest kaup á og látið innrétta milli 1959 og 60. Við tóku erfið ár hjá mömmu þar sem hún sá ein fyrir fjölskyldunni. Mamma var hörkudugleg og Hulda systir hennar, yfirþerna á Gullfossi, stóð líka við bakið á okkur á þessum tímum. Mamma vann fyrst eftir komuna til Reykjavíkur í Kexverksmiðjunni Esju og síðar lengi vel við alls konar saumaskap fyrir ýmis fyrirtæki. Ég man hvað ég var stoltur þegar ég eignaðist Bítlajakka sem hún saumaði fyrir eitt af fyrirtækjunum þegar bylgja sem kallaðist „Beatlemania“ gekk yfir heiminn. Handavinna hennar sem var glæsileg birtist í útsaumuðum myndverkum og útskurði síðar meir. Auknar skyldur á mínar herðar var eitt af því sem fylgdi þessum tímum. Ég man að þegar ég var sex ára og orðinn of gamall til að vera á Tjarnarborg, fékk ég það hlutverk að taka strætó úr Laugarnesinu niður á Lækjatorg og ganga þaðan yfir ísilagða tjörnina að vetrarlagi og sækja Lindu, fjögurra ára litlu systur mína, á barnaheimilið og koma okkur sömu leið til baka heim. Ég dvaldi á sumrin á Borgarfirði eystra hjá Vigfúsi Helgasyni móðurbróður mínum og Kristínu Hallgrímsdóttur konu hans frá 6 til 12 ára aldurs. Allt þetta hjálpaði mömmu og sumurin á Borgarfirði voru líka yndislegur tími. Þegar ég var tíu ára og Linda átta, kynntist mamma Sigmari og flutti hann til okkar. Ári síðar fæddist Grétar bróðir okkar. Dásamlega fallegur. Við Linda fluttum ung að árum að heiman. Mamma, Sigmar og Grétar bjuggu saman, fyrst á Laugarnesveginum og síðast á Kleppsvegi 46. Þar bjuggu mamma og Sigmar alla tíð þar til heilsa mömmu fór að láta undan síga 2014. Sigmar annaðist hana lengi eins vel og hann var fær um. Mamma flutti svo á Hrafnistu 2016. Sigmar bjó einn í stuttan tíma þangað til hann var fluttur veikur á sjúkrahús þar sem hann lést þremur mánuðum síðar. Þau áttu gott líf í 52 ár. Mamma elskaði blóm og smáfuglarnir gátu alltaf treyst á hana. Þegar ég var ósjálfbjarga og óviti hugsaði mamma um mig og gætti mín og var í raun annar kletturinn í lífi mínu. Þegar heilsa hennar gaf sig fannst mér hún eiga það hjá mér að styðja hana í sínu mótlæti. Það fólst m.a. í eins mörgum samverustundum og mögulegt var ásamt hjálp í að muna það sem hún gat virkilega glaðst yfir. Við hlustuðum t.d. á Ragga Bjarna, Ellý Vilhjálms o.fl. meistara á Youtube. Að missa minnið að hluta til, heimilið, manninn sinn og sjónina er ekki lítill missir. Að upplifa það að vera elskaður er kannski eitthvað sem hægt er að lifa fyrir, þegar sumum finnst ekkert vera eftir. Að lokum er mér þakklæti í huga til systkina mömmu sem hjálpuðu henni á erfiðum tímum. Blessuð sé minning allra ástvina mömmu og velunnara. Guð blessi þig og geymi, elsku mamma mín. Takk fyrir allt.

Þinn sonur,

Baldur.

HINSTA KVEÐJA
Nú lýkur degi. Sól er sest.
Nú svefnfrið þráir jörðin mest.
Nú blóm og fuglar blunda rótt
og blærinn hvíslar: Góða nótt.

Guðs friður sigri foldarrann.
Guðs friður blessi sérhvern mann.
Kom, engill svefnsins, undurhljótt
og öllum bjóð þú góða nótt.

Hvíl, hjarta, rótt. Hvíl höndin
þreytt.
Þér himins styrk fær svefninn veitt.
Hann gefur lúnum þrek og þrótt.
Ó, þreytti maður, sof nú rótt.
(Valdemar V. Snævarr)

Þín tengdadóttir,



Lovísa.