Bjarni Ásgeirsson fæddist í Reykjavík 15. maí 1950. Hann lést á gjörgæslu Landspítalans 7. mars 2022.

Foreldrar hans voru Ásgeir Bjarnason frá Suður-Reykjum í Mosfellsbæ, f. 17. febrúar 1919, d. 2. júní 1982, og kona hans Titia Bjarnason, f. 14. febrúar 1923, d. 27. apríl 2013.

Systkini Bjarna eru: María, f. 1952, hennar maður er Einar Jónsson Bjarndal.

Dóttir Maríu er Ragnheiður Titia. Dætur Einars eru Hanna Björk og Eva Lillý; Diðrik, f. 1954, kona hans er Rannveig Björnsdóttir. Börn þeirra eru Lilja Dögg og Ásgeir Elí. Dóttir Rannveigar er Guðlaug Birna Kristmundsdóttir; Helgi f. 1957.

Bjarni kvæntist Eddu Andersdóttur 1980, þau skildu.

Árið 2006 kvæntist Bjarni Sigríði Skúladóttur, f. 1954. Börn hennar eru Skúli Þorsteinn, Axel Finnur og Rakel Dögg. Barnabörnin eru sex.

Bjarni ólst upp á Suður-Reykjum í Mosfellsbæ. Hann lauk námi frá Landbúnaðarskólanum á Hvanneyri og mestan hluta starfsævi sinnar vann hann við grænmetisræktun á Suður-Reykjum í samvinnu við föður sinn og bræður og nú síðustu árin með Helga bróður sínum.

Einnig vann hann um tíma hjá Húsasmiðjunni, Glertækni í Mosfellsbæ og hjá Gunnari Bjarnasyni húsasmíðameistara.

Árið 2020 greindist Bjarni með ólæknandi taugasjúkdóm sem lagði hann að velli að lokum.

Bjarni var kvaddur í kyrrþey að eigin ósk frá Lágafellskirkju 14. mars.

Kveðja frá eiginkonu

Það er dýrmætt í lífinu að eiga ást og vináttu, sem verður svo augljóst þegar ástvinurinn fellur frá.

Þá er að ylja sér við góðu minningarnar og góðu stundirnar sem við Bjarni minn áttum nóg af. Líf okkar byrjaði saman sumarið 2000 þegar við hittumst í gönguferð á Ítalíu og gengum fljótlega saman hlið við hlið og hönd í hönd. Nýr kafli var hafinn í lífi okkar beggja. Árin á eftir einkenndust af ferðalögum bæði innanlands og utan og hversdagslífinu eins og vera ber.

Bjarni var einstakt ljúfmenni og mátti ekkert aumt sjá, ákaflega greiðvikinn og margir sem nutu hjálpsemi hans. Hann greindist með erfiðan taugasjúkdóm í janúar 2020 sem lagði hann að velli að lokum. Bjarni sýndi ótrúlegt æðruleysi í veikindum sínum en var orðinn þreyttur í lokin og farinn að þrá hvíldina.

Ég kveð þig ástin mín með þökk fyrir samfylgdina, elsku þína og vináttu. Ég veit að þú hefur fengið góða heimkomu í Sumarlandið.

Blómin falla, fölskva slær

á flestan ljóma.

Aldrei hverfur

angan sumra blóma.

Þannig varstu vinur, mér

sem vorið bjarta,

Það sem gafstu

geymist mér í hjarta.

Ilma sprotar, anga lauf,

sem aldrei falla.

Drottinn launi

elsku þína alla.

(Sigurbjörn Einarsson)

Þín

Sigríður.

Nú hefur elskulegur bróðir okkar kvatt þetta líf, allt of snemma. Hann hafði glímt við erfiðan sjúkdóm undanfarin ár sem dró úr honum allan mátt og leið honum eins og fanga í eigin líkama og átti þá ósk að þetta tæki ekki langan tíma.

Eitt af því fyrsta sem kemur upp í hugann þegar við hugsum um Bjarna er hversu góð manneskja hann var. Bjarni var mikill mannvinur og dýravinur og mátti hann ekkert aumt sjá.

Bjarni var mjög handlaginn og hugmyndaríkur. Hans bestu stundir átti hann heima í skemmunni á Reykjum við smíðar, hvort heldur sem var á tré eða járn þar sem hann gerði við hluti, dyttaði að eða betrumbætti hluti. Það var honum því mikið áfall þegar hann gat ekki lengur komist í skemmuna og stundað sína iðju síðustu mánuðina.

Hæfileikar hans komu snemma í ljós og sem ungur drengur smíðaði hann bíla af mikilli nákvæmni, eftirlíkingar af vinsælum jeppum og vörubílum þar sem hugað var að hverju smáatriði, svo sem fjaðrabúnaði og fleiru. Einnig smíðaði hann kassabíla sem við krakkarnir lékum okkur með.

Nú hefur Bjarni fengið hvíldina sína en það er stórt skarð höggvið í systkinahópinn og kveðjum við ástkæran bróður með vísunni sem afi okkar og nafni hans, Bjarni Ásgeirsson, samdi:

Söngur sáðmannsins

Ef ég mætti yrkja,

yrkja vildi ég jörð.

Sveit er sáðmanns kirkja,

sáning bænargjörð.

Vorsins söngvaseiður

sálmalögin hans.

Blómgar akurbreiður

blessun skaparans.

Musterisins múra

marka reginfjöll.

Glitveg gróðurskúra

geislar skreyta höll.

Gólf hins græna vallar

grænu flosi prýtt.

Hvelfing glæstrar hallar

heiðið blátt og vítt.

Víg þig hér að verki

vorri gróðrarmold.

Hef þú hennar merki

hátt á móðurfold.

Hér er helgur staður

hér sem lífið grær.

Íslands æskumaður.

Íslands frjálsa mær.

María Titia, Diðrik Ásgeir og Helgi.

Það er sárt að kveðja frænda okkar Bjarna sem okkur þótti svo vænt um.

Bjarni var hæglátur og ljúfur maður, hann var góður og traustur og hafði einstaklega góða nærveru. Hann hafði sterkar skoðanir á ýmsum málum en hann hafði líka mikinn húmor, ekki síst fyrir sjálfum sér, og það var alltaf stutt í brosið.

Hann var hugulsamur og við fundum gagnkvæma föðurlega væntumþykju hans í garð okkar systkinabarnanna. Hann fylgdist með öllu sem við tókum okkur fyrir hendur með stolti og óskaði okkur velfarnaðar í lífinu.

Bjarni frændi mun alltaf eiga stóran hlut í hjarta okkar og minning hans mun lifa með okkur að eilífu.

Hvíl í friði elsku frændi.

Ragnheiður Titia,

Lilja Dögg og Ásgeir Elí.