María Pétursdóttir fæddist á Siglufirði 3. júní 1926. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Hrafnistu á Laugarási 11. febrúar 2022.

Foreldrar Maríu voru Pétur Bóasson frá Reyðarfirði, f. 1.3. 1888, d. 30.4. 1947, og Kristín Jóhanna Pálsdóttir frá Siglufirði, f. 25.8. 1894, d. 8.5. 1932. Bræður Maríu voru Helgi Pétursson, f. 17.11. 1924, d. 16.2. 2017, og Páll Kröyer Pétursson, f. 22.12. 1927, d. 28.4. 1988. Eiginmaður Maríu frá 31.5. 1950 var Benedikt Ársæll Guðbjartsson, f. 1.1. 1924, d. 29.11. 2008. Börn þeirra eru: 1) Kristinn Pétur, f. 12.10. 1945, eiginkona Marissa Libres Benediktsson, f. 1.3. 1971. 2) Örn, f. 1.9. 1950. 3) Benedikt Helgi, f. 14.4. 1953, eiginkona Inga Hrönn Hjörleifsdóttir, f. 22.5. 1961. 4) Ásta Kristín, f. 25.8. 1967, eiginmaður Ægir Rúnar Sigurbjörnsson, f. 13.7. 1965. Barnabörnin eru 12 og barnabarnabörnin 15.

Útför Maríu hefur þegar farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

María Pétursdóttir, mágkona mín, er látin á 96. aldursári. Hún kveður þennan heim síðust þriggja systkina sem komust til fullorðinsára; Helgi minn lést fyrir fimm árum, en Páll bróðir þeirra lést árið 1988, aðeins sextugur að aldri. Systkinin þrjú höfðu snemma á lífsleiðinni fundið athvarf og styrk hvert hjá öðru eftir lát móður þeirra, Kristínar Jóhönnu Pálsdóttur, árið 1932 er María var tæpra sex ára.

„Nú ætla ég að kynna þig fyrir Maju systur,“ orð Helga hljóma enn í huga mínum – og síðan var skundað vestur í bæ heim til Maríu og Benedikts sem áttu fjögur börn, ýmist stálpuð eða uppkomin og flutt að heiman. Enginn tími til að kvíða því að hitta 25 árum eldri verðandi mágkonu í fyrsta sinn enda hefði þeim kvíða verið kastað á glæ, María tók mér strax vel. Frá henni streymdi áreynslulaus orka, hún var blátt áfram og glaðleg í fasi, ekkert vandræðalegt þar og ekkert heldur reynt að fela eða koma sér hjá að segja. Þar með var ísinn brotinn.

Ég varð þess fljótt áskynja hve sterkur strengur kærleiks og umhyggju lá milli þeirra systkina; þar þurfti ekki endilega tíð samskipti, þar þurfti ekki heldur orð, fortíðin og uppvaxtarár þeirra á Siglufirði endurómuðu í því ósagða. – Orðin komu seinna, smátt og smátt með árunum; þannig var María, að sínu leyti í senn bæði dul og opinská. Um þetta og margt fleira voru þau Helgi lík í sér.

Benedikt lést árið 2008 eftir erfið veikindi og undir það síðasta hjúkraði sjúkraliðinn María honum heima. Eftir lát Benedikts átti María nokkur ár við góða heilsu, hún naut þess að fylgjast með og taka þátt í lífi barna sinna og barnabarna, keyrði sinn bíl, fór í sund og göngur og ferðaðist til útlanda. Fyrir nokkrum árum tók að halla undan fæti hjá henni og kom þar aðallega til versnandi sjón og síðar einnig hrakandi skammtímaminni. Alltaf var hún samt góð heim að sækja þótt hin síðustu ár kæmi ég einsömul eða talaði við hana í síma, fékk fyrst helstu fréttir af nánustu afkomendum og síðan var þráðurinn tekinn upp þar sem þau systkin höfðu hætt í frásögnum af lífi foreldra sinna og bernskuárum á Siglufirði. María kom alltaf beint að hlutunum og árin eftir nírætt sagði hún stundum við mig að fólk ætti ekki að lifa svona lengi, þetta væri nú orðið gott; svo brosti hún þegar ég svaraði að þetta réðum við víst engu um. Síðasta árið bjó María á Hrafnistu á Laugarási þar sem vel fór um hana. Fyrst og fremst var María umvafin ást og umhyggju barna sinna fjögurra til hinstu stundar.

Ég þakka góða samfylgd með Maríu Pétursdóttur undanfarin 45 ár og hugsa til hennar í síðustu ferðinni. Börnum hennar og afkomendum öllum bið ég guðs blessunar.

Lækkar lífdaga sól.

Löng er orðin mín ferð.

Fauk í faranda skjól,

fegin hvíldinni verð.

Guð minn, gefðu þinn frið,

gleddu og blessaðu þá,

sem að lögðu mér lið.

Ljósið kveiktu mér hjá.

(Herdís Andrésdóttir)

Anna Sigríður Einarsdóttir.