Guðný Stefanía Karlsdóttir (Gauja) var fædd 30. apríl 1945 á Húsavík. Hún andaðist á hjúkrunarheimilinu Hraunbúðum í Vestmannaeyjum 8. mars 2022.

Foreldrar hennar voru Kristján Karl Stefánsson, f. 11. maí 1897, d. 4. júní 1967, og Sigfríður Jónsdóttir, f. 10. júlí 1904, d. 21. september 1998.

Auk Guðnýjar eignuðust þau fjögur börn, þau eru í aldursröð: Margrét Karlsdóttir, f. 8. janúar 1930, Aðalsteinn Karlsson, f. 22. febrúar 1933, d. 19. mars 1977, Stefán Karlsson, f. 8. júní 1936, d. 3. október 1942.

Guðný Stefanía (Gauja) giftist Inga Steini Ólafssyni 30. apríl 1965 í Vestmannaeyjum. Börn Guðnýjar og Inga Steins eru: Sigfríður Björg Ingadóttir, f. 24. desember 1967, hún er gift Ómari Stefánssyni, f. 24.janúar 1961. Börn þeirra eru: Guðný Ósk Ómarsdóttir, Linda Björg Ómarsdóttir og Erika Ýr Ómarsdóttir, þau eru búsett í Vestmannaeyjum. Næstur er Árni Karl Ingason, búsettur í Vestmannaeyjum, og yngstur barna þeirra hjóna er Friðþór Vestmann Ingason, f. 13. janúar 1979, og er kvæntur Ragnheiði Jónsdóttur, börn þeirra eru: Fríða Rún Vestmann Friðþórsdóttir og Ingi Steinn Friðþórsson.

Barnabarnabörn eru fjögur: Emilía Eir Eiðsdóttir, Ómar Dagur Eiðsson, Eiður Gauti Theódórsson og Elísabet Dögun Theódórsdóttir.

Guðný Stefanía fluttist til Vestmannaeyja árið 1961 og hefur alla sína tíð búið þar, fyrir utan árið 1973 þegar Heimaeyjargosið var.

Guðný ásamt eiginmanni sínum Inga Steini fluttu þá til Húsavíkur í eitt ár eftir að gosið hófst, en eyjarnar kölluðu alltaf og fluttu þau árið 1974 til baka til Vestmannaeyja.

Útför Gauju fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 19. mars 2022, klukkan 13.

Hlekkur á streymi:

https://www.mbl.is/andlat

Elsku hjartans Gauja mín, takk fyrir allt og allt. Takk fyrir samfylgdina hjartað mitt til 65 ára. Margt gott og ljúft að minnast á, margt sem var gert, sagt og er það lífsins gangur.

Hjartans þakkir fyrir börnin okkar sem ég mun hugsa til og aðstoða þegar þarf, styðja og styrkja líkt og við höfum gert saman árin okkar öll.

Sendi þér orðin mín sem þú átt alltaf í mínu hjarta og ég las fyrir þig og lýsir þér vel:

Guðný góða björt og hlý,

fyrir alla vinnur,

öllum færir englaský,

enda mannsins hlynur

Öllum gerði gott í dag

það er hennar draumur

gæfa og göfgi í hennar hag

er litla mannsins gaumur

Alltaf mætir hress og kát

og móti öllum tekur

huggar alla daga grát

og góðar bænir vekur

(Ingi Steinn Ólafsson)

Hjartans þakkir fyrir samfylgd okkar elsku Gauja mín.

Ingi Steinn Ólafsson.

Ekki koma of seint...

Elsku mamma mín, ég lofaði því og ég stóð við loforðið. Það er einkennilegt að hugsa til þess að hafa þig ekki, sjá þig ekki, eða heyra ekki í þér. Eitt af mörgu sem kemur upp í hugann minn ert tillitssemin sem þú barst alltaf, þessi kærleikur sem þú gafst mér og öllum sem hittu þig. Nú þegar ég hugsa til baka hefur þú ábyggilega fundið fimm dögum áður en þú fékkst hvíldina að ég væri að fara sýna Maron okkar sem þér fannst svo fallegur, og ég skrapp aftur til Reykjavíkur og kom strax eftir hundasýninguna.

Þú hefur hugsað... elsku Friðþór minn, klára þú að sýna fallega Maron ykkar og svo klárum við lokasprettinn saman. Ég veit ekki um það, en hef þá trú, þannig varst þú, vildir aldrei vera fyrir neinum.

Ég veit elsku hjartans mamma að þú vildir enga lofræðu, það stóð alla vega í bréfinu sem þú stílaðir á okkur börnin þín, hvernig þú vildir hafa þetta, þegar þinn tími kæmi. Akkúrat þú, enginn átti að hafa fyrir þér.

En það er nú samt þannig að þegar slíkur tími kemur, eins og nú, koma upp minningar, fallegar og ljúfar og allur þessi kærleikur sem þú varst.

Þegar ég horfi nú til baka, þá er það þessi ómælda ást, vinátta, kærleikur og góðvild til allra.

Blóminn þín fallegu í garðinum heima á Brekastígnum og síðar á pallinum í Lundaholunni sem þið pabbi kölluðuð, já, göngutúrinn í Kinninni í Vestmannaeyjum, AA-fundir og ferðalögin okkar saman meðan þú hafðir heilsu og getu til, þess naustu vel, og er ég mikið þakklátur fyrir það.

Það er ekkert leyndarmál að stundum voru erfiðir tímar og þú vissir það, og við búinn að vinna það öll saman og úr því fyrir margt löngu. Já, Bakkus sá leiðindatrúður gerði stundum málin snúin og erfið.

En þrátt fyrir það var alltaf þessi ást og kærleikur. Ég verð alltaf þakklátur AA-samtökunum, þar sem þú áttir mörg kvöldin og fundina með félögum þínum meðan þú varst hress, já ég er stoltur af því hvað þú vannst vel og gerðir vel, nú eru liðin sirka 30 ár síðan tappinn fór á flöskuna eins og sagt er, og lífið var þér og ykkur pabba mun betra, já og okkur öllum.

Ekki má nú gleyma bænastundunum þínum á kvöldin, það voru engar fimm mínútur sem bænastundirnar fóru fram, það gat alveg farið upp í klukkustund á góðum kvöldum. Já, þú baðst fyrir svo mörgu og mörgum, og hafðir svo fallega og trygga trú.

Ég er og verð alltaf sami mömmudrengurinn þinn, og mun passa að pabba og Árna bróður og okkur öllum líði sem best.

Lífið er vatn sem vætlar undir brú, og enginn veit hvert leiðin liggur sú, enn þegar líkur jarðlífsgöngunni, aftur hittumst við í blómabrekkunni. Þó að skilji leiðir aðeins um sinn, þá fylgir alltaf vinarhugur minn, ég þakka fyrir hverja góða stund, við munum aftur eiga endurfund.

Ég hlakka til þess tíma og að fá mömmuknús. Á meðan ætla ég að njóta alls sem best er og gera það besta fyrir þá sem verða og eru mér samferða í lífinu. Gefa öðrum þann kærleik sem þú kenndir mér og þá ómældu ást sem þú hafðir á öllu. Takk fyrir alla þessar gjafir sem þú gafst hjarta mínu og hjörtum annarra.

Hvíldu í friði elsku mamma.

Friðþór Vestmann Ingason.

Þá er sá dagur runni upp sem ég vonaðist til að við þyrftum ekki að upplifa strax, en í dag kveðjum við elsku Gauju tengdamömmu. Tengdamamma var ein af þeim konum sem máttu ekkert aumt sjá og var ávallt tilbúin að aðstoða ef þeir sem minna máttu sín þurftu á að halda. Ég man þegar ég kynntist Friðþóri þínum þá passaðir þú upp á að vel væri hugsað um litla strákinn þinn í Reykjavíkinni. Þú varst með ákveðnar skoðanir á því hvernig ætti að gera hlutina og vorum við ekki alltaf alveg sammála, en fyrir vikið varð samband okkar enn nánara og þótti mér svo ótrúlega gott að koma til eyja og fá hlýtt og þétt faðmlag frá þér.

Þú hafði svo ósköp gaman af því að fá barnabörnin og barnabarnabörnin í heimsókn til þín og þótti þeim svo óendanlega vænt um ömmu sína. Fríða Rún og Ingi Steinn vissu fátt skemmtilegra en að leika á pallinum í litlu Lundaholunni og rifja þau oft upp minningar sínar frá því þau voru í heimsókn hjá ömmu og afa.

Þegar ég rifja upp vegferð okkar saman standa einna helst upp úr ferðalögin sem við fórum saman norður í land og til Tenerife. Þú hafðir ótrúlega gaman af því að heimsækja Húsavík heimabæ þinn og sýna okkur og segja okkur sögu þína. Á Tenerife naust þú þín í botn í sólinni innan um öll fallegu bleiku blómin sem voru í uppáhaldi hjá þér.

Ég get ekki annað en minnst á sumarbústaðarferðirnar okkar á Þingvelli. Í einni ferðinni þurftum við að fara á Selfoss í búðina og ákváðum við að skipta liði og við stelpurnar fórum saman á bíl og strákarnir á öðrum bíl. Þegar við vorum búnar að versla var ferðinni heitið aftur upp á Þingvelli og eltum við strákana heim á leið, en einhverra hluta vegna virtist þú sjá strákana alls staðar og sagðir mér að fara eina þrjá hringi í hringtorginu á Selfossi þangað til að ég ákvað nú bara að halda áfram út úr bænum þar sem ég sá að þeir voru komnir áleiðis yfir brúna. Það vildi ekki betur til en að lögreglan stoppaði mig fyrir of hraðan akstur þegar ég var að reyna að ná strákunum og þú áttir nú ekki til orð yfir þessari ósvífni í lögreglunni. Á meðan ég hoppaði yfir í bílinn til lögreglunnar settist þú á brettið á bílnum og kveiktir þér í sígarettu og hristir hausinn svo mikið framan í lögregluna að ég var spurð hvort þú værir nokkuð með tourette. Strákarnir biðu úti í kanti skellihlæjandi að þessari uppákomu okkar.

Árin líða og við höldum að við höfum endalausan tíma með ástvinum okkar en því miður kemur að þeim degi sem við þurfum að kveðja þá sem við elskum og við erum aldrei tilbúin. Ég er svo óendanlega þakklát fyrir að hafa fengið að kveðja þig áður en kallið kom, hlýja þín og væntumþykja skein í gegn þrátt fyrir að líkami og sál hafi verið orðin þreytt.

Elsku tengdamamma, takk fyrr allt, ég vona að þú sért flogin á vit ævintýranna laus við veikindi og þjáningar.

Við lofum að hugsa vel um tengdapabba þangað til þið hittist að nýju.

Þangað til næst.

Ragnheiður Jónsdóttir.

Elsku amma mín, ég elska þig og mun alltaf elska og sakna. Ég veit að þú verður alltaf hjá mér og alltaf í mínu hjarta.

Ég á svo margar skemmtilegar minningar úti í Eyjum hjá þér á sumrin og minnist ég litlu Lundaholunnar (húsið ykkar í Foldahrauni 39). Já, Lundaholan var hún kölluð því lítil og falleg var hún. Upp rifjast skemmtilega rólan sem afi hafði sett upp og gat ég rólað lengi. Þú sast á fallega pallinum ykkar sem var alltaf fullur af fallegum blómum, já ekki má nú gleyma því, elsku amma, að þú sast þar með þína sígó, æ þér fannst það svo gott, en ég ætla nú samt ekki að taka það upp hjá mér og veit ég að þú yrðir glöð með það.

Já, baksturinn þegar ég var í Eyjum hjá ykkur, steikti fiskurinn sem er sá allra besti og segi ég alltaf við pabba, það getur enginn búið til jafn góðan steiktan fisk og amma Gauja.

Ísrúntur og alla þá ást sem þú gafst mér mun ég geyma. Ég gleymi aldrei bænunum sem þú fórst alltaf með með mér og það kom alltaf allt svo fallegt frá þér. Faðmurinn þinn, mjúku hendurnar og spjallið sem er svo dýrmætt að eiga. Þú varst svo stolt af mér, enda eini prinsinn þá af barnabörnunum og finnst mér nú gaman að stríða stelpunum á að ég hafi verið prinsinn hjá ömmu og afa.

Ég mun passa Inga afa vel og við öll. Ég læt hér fylgja bæn með til minningar um þig sem gaf mér mikið.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni.

Sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sigurður Jónsson frá Prestshólum)

Þinn

Ingi Steinn.

Elsku amma, ég hélt að þessi dagur kæmi ekki, ég hélt að þessi dagur væri svo langt frá okkur og að allt lífið væri fram undan ,en svo var ekki, kallið kom mun fyrr en ég átti von á. Orð geta ekki lýst því hvað mér þykir vænt um þig og hvað ég á eftir að sakna þín mikið.

Ég man þegar ég var lítil stelpa og þið afi komuð til Reykjavíkur til okkar og gistuð hjá okkur, ég man hvað mér fannst það alltaf gaman þegar við fórum i allar búðirnar og settum á okkur bleika varalitinn þinn áður en við fórum inn, mér fannst ég alltaf svo sæt með bleika varalitinn.

Þegar ég kom til Eyja til ykkar Inga afa og fékk að setja á mig ilmvatnið þitt og kremið þitt góða gleymi ég aldrei, þú manst mér fannst alltaf svo gaman að kíkja í skápinn þinn og skoða dótið þitt með þér og skoða alla skartgripina þína. Ég man hvað við gátum setið lengi saman og skoðað og þú sagt mér frá hlutunum. Ég man líka hvað við hlógum oft að nöfnunum tveimur, Inga afa og Inga Steini bróður, nautaatið fræga og afi datt og gleraugun urðu öll skökk, ógleymanlegt, ég gleymi aldrei hlátrinum þínum og hvað við hlógum mikið að þeim og gerðum grín.

Ég elskaði að sitja í rauðu stólunum með þér í lundaholunni með uppáhaldsþættinum þínum, já þættinum Glæstar vonir og njóta með ristað brauð og kakó sem þú gerðir fyrir mig. Besta ristaða brauðið var hjá ömmu og afa í lundaholunni.

Við eigum svo mikið af góðum stundum og vildi ég óska þess að ég gæti átt eina stund í viðbót með þér amma mín og sagt þér hvað ég er heppin að hafa átt þig sem ömmu.

Elska þig og mun alltaf elska,

Friða Rún Vestmann

Friðþórsdóttir.

HINSTA KVEÐJA
Elsku hjartans mamma mín, takk fyrir allt, takk fyrir hlýjuna þína, hjálpina og alla þína góðvild. Ég mun gæta vel að gamla okkar. Far þú í friði, far þú í gleði, góða hvíld elsku mamma.
Margt þú hefur misjafnt reynt,
mörg þín dulið sárin.
Þú hefur alltaf getað greint,
gleði bak við tárin.

Þinn sonur
Árni Karl Ingason.