— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Menntaskólinn í Reykjavík sigraði í Spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur, í tuttugasta og annað sinn í gær. MR hafði betur gegn Fjölbrautaskólanum í Garðabæ í úrslitaviðureigninni í gærkvöldi.

Menntaskólinn í Reykjavík sigraði í Spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur, í tuttugasta og annað sinn í gær. MR hafði betur gegn Fjölbrautaskólanum í Garðabæ í úrslitaviðureigninni í gærkvöldi. Sigurinn var sannfærandi en MR fékk 31 stig á móti 26 stigum FG.

Ingibjörg Steinunn Einarsdóttir, Katla Ólafsdóttir og Oddur Sigurðarson skipuðu sigurliðið í ár en MR sigraði síðast í keppninni árið 2020. „Ég hef bara aldrei fundið betri tilfinningu,“ sagði Ingibjörg við mbl.is eftir að hún veitti verðlaunagripnum viðtöku úr hendi Skarphéðins Guðmundssonar dagskrárstjóra ríkissjónvarpsins.

MR-ingar eru illviðráðanlegir komist þeir í úrslit á annað borð. Frá því keppninni var komið á árið 1986 hefur MR farið tuttugu og fjórum sinnum í úrslit og aðeins tvívegis tapað.

Dagmar Íris Hafsteinsdóttir, Kjartan Leifur Sigurðsson og Þráinn Gunnlaugsson skipuðu lið FG sem síðast fór í úrslit í keppninni árið 2018 og vann þá Kvennaskólann.