„Á sama tíma og ráðherra vill – réttilega – að Ísland verði til fyrirmyndar í loftslagsaðgerðum þarf líka aðgerðir til að tryggja að íslensk börn séu ekki áfram í neðstu sætum Evrópu í námi – og færni í félagslífi,“ segir Ólafur Grétar Gunnarsson.
„Á sama tíma og ráðherra vill – réttilega – að Ísland verði til fyrirmyndar í loftslagsaðgerðum þarf líka aðgerðir til að tryggja að íslensk börn séu ekki áfram í neðstu sætum Evrópu í námi – og færni í félagslífi,“ segir Ólafur Grétar Gunnarsson. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þótt við séum á réttri leið þá vantar enn upp á að umönnunarbyrði foreldra sé jöfn. Þess vegna hyggst Ólafur Grétar Gunnarsson fjölskyldu- og hjónaráðgjafi hleypa af stokkunum verkefninu „Allt er hægt með réttum aðferðum“.

Þótt við séum á réttri leið þá vantar enn upp á að umönnunarbyrði foreldra sé jöfn. Þess vegna hyggst Ólafur Grétar Gunnarsson fjölskyldu- og hjónaráðgjafi hleypa af stokkunum verkefninu „Allt er hægt með réttum aðferðum“. Það hefur það markmið að hámarka ávinninginn af tilkomu fæðingarorlofs fyrir feður, með fræðslu og aðstoð sem kallað hefur verið eftir í meira en 25 ár. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Jafnréttisbyltingin er okkur ótrúlega mikils virði, bæði konum og körlum. Hún hófst þegar konur tóku sér um síðir stöðu við háborðið, fyrst inni á heimilunum, síðan á almennum vinnustöðum, þá í stjórnmálum og loks eru þær farnar að láta að sér kveða í fjármálaheiminum. Nú síðast báru konur svo hitann og þungann af baráttunni við Covid-19, bæði innan og utan heimilis,“ segir Ólafur Grétar Gunnarsson, fjölskyldu- og hjónaráðgjafi og þátttakandi í tengslabyltingu karla undanfarinn aldarfjórðung eða svo.

Hann segir sigur kvenna mikinn en jafnréttisbylting þeirra hafi um leið reynst vera mikil gjöf fyrir karla, þvert á það sem þeir hefðu kannski búist við. „Ekkert var frá þeim tekið, nema valdhrokinn, en í staðinn hafa þeir öðlast dýpri tengsl við sjálfa sig og maka sína, jafnframt því að þeir geta nú fundið sig miklu betur í föðurhlutverkinu en áður,“ segir hann.

Ýmsa áfanga má greina í jafnréttisbyltingunni. „Það er óhætt að segja að Bríet Bjarnhéðinsdóttir hafi riðið á vaðið. Síðan fylgdi kosningaréttur kvenna í byrjun 20. aldar. Jafnréttislöggjöf í nokkrum skrefum. Sókn kvenna út á vinnumarkaðinn. Félagsbyltingin á sjöunda og áttunda áratugnum þegar konur uppgötvuðu vald sitt. Getnaðarvarnir og fæðingarorlof,“ rifjar Ólafur Grétar upp.

Í þessu sambandi nefnir hann líka tilkomu fæðingarorlofs feðra í upphafi þessarar aldar. Það hafi ekki bara veitt feðrum tækifæri til að dýpka sambandið við börnin sín, heldur líka leyst konur undan þeirri ábyrgð að bera næstum einar ábyrgðina á fyrstu mánuðum og misserum í ævi barnsins. „Sigurinn felst sum sé í því að karlar taka næsta stóra skrefið í átt að jafnri umönnunarábyrgð fjölskyldunnar. Þannig hjálpum við bæði konum og körlum og eyðum ójafnvæginu sem verið hefur við lýði og losum konur undan of mikilli ábyrgð. Karlar vilja stíga upp og ekki vera byrði.“

Fordæmi sjómanna

Það kemur kannski einhverjum á óvart en Ólafur Grétar segir að halda megi fram með gildum rökum að innblásturinn að þessum sigri sé sóttur til Slysavarnaskóla sjómanna.

„Lengi vel ríkti þegjandi samkomulag hér á landi um að óhjákvæmilegt væri að á hverju ári færust eða slösuðust alvarlega tugir sjómanna við Íslandsstrendur. Íslensk eða erlend skip fórust með manni og mús og allir urðu sorgmæddir svolitla stund en héldu svo áfram og hugsuðu sem svo að svona væri þetta bara. Hafið gaf og hafið tók.“

Svo varð hugarfarsbreyting. Slysavarnir þróuðust hröðum skrefum og bylting varð þegar Slysavarnaskóli sjómanna tók til starfa. Sjómenn höfðu nánast litið á það sem örlög að svo og svo margir hlytu að fara á hverju ári, en nú urðu engir ötulli talsmenn slysavarna en sjómennirnir sjálfir. „Enginn fer lengur á sjóinn nema hafa numið í Slysavarnaskólanum og reglulega sækja þeir ný námskeið til að halda við kunnáttunni. Sjómenn ganga nú á undan með góðu fordæmi og sjá um að öryggisreglum sé framfylgt um borð í skipum þeirra. Í stað þess að ábyrgðin sé bara hjá útgerðarmönnum, þá gæta þeir nú hver annars. Árangurinn er ótrúlegur – sjö ár í röð án þess að alvarleg slys hafi orðið á sjó. Þetta er fordæmi á heimsmælikvarða, enda frægt orðið.“

Ólafur Grétar spyr hvort ekki sé ástæða til að taka uppvaxandi kynslóðir í landinu jafn alvarlega og sjómenn:

„Ber ekki samfélaginu skylda til að veita þeim hliðstæða vernd og fullvöxnum sjómönnum? Hvar er gat í undirbúningi að farsælu æviskeiði barns? Jú, – feður verða oft sárlega utanveltu í því ferli að undirbúa og fylgja eftir fæðingu og fyrstu árum barns.“

Allt er hægt með réttum aðferðum

Enda þótt við séum á réttri leið segir Ólafur Grétar enn þá vanta upp á að umönnunarbyrði foreldranna sé jöfn. Þess vegna hyggst hann hleypa af stokkunum verkefninu „Allt er hægt með réttum aðferðum“. Áætlað er að verkefnið standi í 1.000 daga og Ólafur Grétar segir best að það hæfist sem allra fyrst. „Verkefnið, sem ég hef þróað með hjálp rannsókna færustu sérfræðinga, hefur það markmið að hámarka ávinninginn af tilkomu fæðingarorlofs fyrir feður, með fræðslu og aðstoð sem kallað hefur verið eftir allt frá árinu 1995.“

Til að gera betri grein fyrir manninum þá heldur hann úti Meðgöngufræðslu Ólafs Grétars á Facebook og Instagram og býður þar verðandi og nýjum foreldrum fræðslu sér að kostnaðarlausu. „Mæður fá ókeypis mæðravernd og í jafnréttisríki þurfa feður feðravernd.“

Með þessum námskeiðum sinnir hann 10-15% verðandi feðra sem „fyrsta stoppistöð“, eins og hann kallar það, sem gefur þeim aukinn fyrirsjáanleika og aukna vitund um eigin styrk- og veikleika. „Ef þörf er á frekari aðstoð og stuðningi bendi ég þeim á að leita sér hjálpar við fyrsta tækifæri, til dæmis hjá geðheilsuteymi HH fjölskylduvernd eða hjá sjálfstætt starfandi sérfræðingum.“

Fræðslan og aðstoðin eru sérstaklega hönnuð fyrir verðandi feður og feður í fæðingarorlofi ásamt mökum þeirra á landinu öllu. Í framhaldi af þátttöku í feðraverndinni, sem feður skrá sig í sjálfir, býðst fjölskylduvernd ásamt maka.

„Sérstök áhersla er lögð á þá sem eiga maka sem starfa í félags- eða heilbrigðisþjónustu ásamt þeim sem fást við kennslu eða löggæslu. Það er að segja störf sem útheimta bæði mikinn tíma og orku hjá þeim sem þeim gegna. Segja má að sökum vinnuálags verði þessar stéttir að eiga maka sem ber skilyrðislaust 50% umönnunarábyrð.“

Eitt skref í þessari fræðslu – sem Ólafur Grétar kallar feðravernd – er að styðja karlmenn til þess að mynda tengsl við barn og maka sem hjálpar þeim að takast á hendur að minnsta kosti hálfa umönnunarábyrgð. „Fræðslan er byggð á bestu þekkingu og þrautreyndum aðferðum sem erlendir og innlendir sérfræðingar hafa beitt.“

Málefnið brennur á Ólafi Grétari eins og kemur fram í greininni Fjölskylduvernd, feður og frumtengsl – reynsla af sjálfboða- og hugsjónastarfi í nýjasta tímariti Geðverndarfélags Íslands. Þar lýsir hann áhugaverðu ferðalagi, þar sem fjölskyldan er í fyrirrúmi. „Það rímar vel við áherslur Geðverndarfélags Íslands um aukna fræðslu fyrir foreldra og fagfólk með áherslu á að styrkja tengslamyndun ungbarna og barna við foreldra sína með það að markmiði að styrkja undirstöðu geðheilbrigðis fjölskyldna.“

Fræðslan algjört lykilatriði

Hann segir karlmenn bæði þurfa að vita og skynja hversu mikið konan þarf á umönnun og nærgætni þeirra að halda, að ekki sé minnst á barnið. Karlar standi sig oftast vel þegar þeir átti sig á viðfangsefninu og viti hvernig þeir eiga að takast á við það. Að veita þeim fræðslu gefi þeim möguleika á að læra um það sem hin verðandi móðir er að takast á við á meðgöngu. Það sé oft flóknara en feðurnir geri sér grein fyrir við fyrstu sýn.

Hann segir tengsl einnig vega þungt. „Til að geta myndað örugg tengsl við barnið sitt þurfa karlar að vera í góðum tengslum við sjálfa sig svo þeir hafi betri forsendur til að sýna móður og barni samkennd. Það þýðir að þeir þurfa að geta fundið hvernig þeim sjálfum líður, en einnig það getur verið flóknara en ætla mætti. Og þeir þurfa að temja sér að bregðast við líðan sinni á viðeigandi hátt hverju sinni, rétt eins og þeir þurfa að bregðast rétt við þörfum og tilfinningum barnsins.“

Með fræðslu skapast betri forsendur fyrir aukinni og nánari þátttöku feðra í umönnun barnsins fyrstu mánuðina og misserin, sem á endanum stuðlar að jafnri umönnunarábyrgð. „Verðandi feður þurfa að öðlast aukinn skilning á því hvað verðandi móðir er að ganga í gegnum og þeir þurfa að skilja þörf hennar fyrir stuðning og virðingu, sem er grundvöllur fyrir öryggi hennar. Lykilatriði er að feður séu öruggir í sambandinu og upplifi að verðandi barnsmóðir treysti þeim og óski þátttöku þeirra í þessum mikilvægasta kafla ævi þeirra beggja. Það að barnshafandi kona finni samkennd og vilja gagnvart þátttöku karlsins strax á meðgöngu gefur henni öryggi og vellíðan. Finni karlinn aftur á móti til máttleysis síns geta viðbrögðin orðið neikvæð, jafnvel ofbeldi.“

Aukin ábyrgð valdhafa

Ólafur Grétar bendir á, að við mannfólkið séum tegund sem þurfi hjálp og veiti hjálp. Það eigi svo sannarlega við um foreldrahlutverkið. Ekki hvarfli að nokkrum manni að setjast undir stýri án þess að hafa fengið fræðslu um það hvernig eigi að keyra bíl. „Barnauppeldi og -umönnun er þúsund sinnum flóknara fyrirbæri og auðvitað þurfa allir fræðslu um það hlutverk. Og auk fræðslu þurfa foreldrarnir líka aðstoð þannig að þeir hafi betri forsendur til að annast nýburann.“

Í umræðunni um foreldravald kallar Ólafur Grétar eftir aukinni ábyrgð valdhafa. Ábyrgð stjórnvalda og vinnumarkaðarins felist í því að tryggja foreldrum fræðslu og aðstoð þannig að þeir hafi betri forsendur til að rísa undir kröfum foreldrahlutverksins en líka til að njóta þess út í æsar, enda sé ekkert meira gefandi ef allt er í blóma.

Hann segir yfirvöld því miður ekki hlusta á ráð UN Women og félagsins Fyrstu fimm, þar sem hann er sjálfur stofnfélagi og situr í stjórn, heldur flytji vandann yfir á konur og kvennastéttir í stað þess að styrkja foreldra í sínu vandasama hlutverki með fræðslu og aðstoð. Fyrsta og mikilvægasta kennarann sem hafi úrslitaáhrif á líðan barna og námsárangur. Að félaginu Fyrstu fimm standa fjölskyldur og fagaðilar með sameiginlegan áhuga á velferð barna. „Á sama tíma og ráðherra vill – réttilega – að Ísland verði til fyrirmyndar í loftslagsaðgerðum þarf líka aðgerðir til að tryggja að íslensk börn séu ekki áfram í neðstu sætum Evrópu í námi – og færni í félagslífi.“

Ástæða þess að umönnun og uppeldi barna hafa vissulega lent meira á herðum kvenna, jafnvel nú á okkar upplýstu tímum, tengist, að dómi Ólafs Grétars, skorti á því að feður hafi sjálfir fyrirmyndir til að fylgja í föðurhlutverkinu. Þess vegna skipti öllu að þeir fái skipulega fræðslu og geðheilbrigðisþjónustu þegar þeir verða feður. Ábyrgð beggja verðandi foreldra þurfi að aukast og dugar ekki bara að huga að sambandi hvors foreldris um sig við barnið.

„Það eru vond skilaboð ef ekkert er haldið í höndina á feðrum þegar þeir eignast sitt fyrsta barn. Hvers vegna eiga þeir þá að trúa því að kerfið grípi þá einhvern tíma seinna? Það er mjög áríðandi að karlar treysti kerfinu, þegar veikindi knýja dyra og annað slíkt.“

Hugum að parasambandinu

Hann segir líka mikilvægt að huga að parasambandinu. Ráði parið ekki við umönnunarkröfurnar geti það haft slæm andleg og jafnvel líkamleg áhrif á börnin og í versta falli fært ábyrgðina af uppeldi þeirra yfir á uppeldis- og velferðarstéttir.

Konur hafa tekið mikinn þátt í þróun á vinnumarkaði auk þess að leggja sitt af mörkum við frumkvöðlastarf en því fylgja stóraukin lífsgæði. „Þar er allt á réttri leið, þrátt fyrir allt, en aðkallandi þörf er á að styrkja feður í tengslamyndun við börn sín til að jafna byrðina. Þannig má á endanum draga úr hinu fræga samviskubiti kvenna yfir því að þær sinni ekki börnum sínum nægilega vel ef þær eru ekki hjá þeim öllum stundum. Ef þær vita að feðurnir kunna og vilja uppfylla þarfir barnsins og séu í góðum tengslum við þá, þá dregur úr áhyggjum kvennanna og öllum líður betur,“ segir Ólafur Grétar.

En án fræðslu og aðstoðar hefur orðið til ójafnvægi með þeim afleiðingum að umönnunarbyrði hér á landi er mögulega sú þyngsta og dýrasta í Evrópu, að dómi Ólafs Grétars. Að viðbættri óviðunandi slæmri nýtingu á mannauði sem birtist til dæmis í miklu brottfalli í skólakerfinu. „Af þessum ástæðum verður að jafna umönnunarbyrðina.“

Góð kynslóðatengsl

Einn af styrkleikum velferðarkerfisins okkar, að áliti Ólafs Grétars, er sá að íslenskir feður taka nú sjálfstætt fæðingarorlof í sama mæli og feður í Svíþjóð eða um 30% af hinu sameiginlega orlofi foreldranna. Feður annars staðar á Norðurlöndunum taka aðeins 10-15%. „Mín skilaboð eru einföld: Verum sænskari!“

Hann rifjar upp hversu mikil áhrif sænski fjölskylduráðgjafinn Göran Wimmerström hafði á hann um miðjan tíunda áratuginn en hann gekk þá undir nafninu „ólétti pabbinn“. „Maður fæddist upp á nýtt við að hlusta á það sem hann hafði fram að færa. Það snýst meðal annars um að feður tengist börnum sínum í frumbernsku.“

Við fæðingu fyrsta barns þurfa nýir foreldrar á öllum sínum styrk og stoð samfélagsins að halda, það þarf jú þorp til að ala upp barn, eins og máltækið segir. „Einn af okkar styrkleikum sem samfélag er vissulega stóraukin þátttaka feðra í umönnun barna sinna nú þegar, en einnig nálægð fjölskyldna og góð kynslóðatengsl eins og rannsóknir dr. Sigrúnar Júlíusdóttur benda til. Þær leiða í ljós kosti þess að tvær kynslóðir hjálpist að í að vera fyrirmyndarforeldrar og svo afar og ömmur.“

Ólafur Grétar talar af reynslu. Sjálfur varð hann faðir fyrir 34 árum án þess að hafa forsendur til að átta sig á því hvað hann var í viðkvæmri stöðu.

„Þegar dóttir mín var tveggja ára skildum við æskuástin mín og veröld mín hrundi. Það að missa þær og að vera vakinn af dóttur minni alla morgna setti líf mitt á hliðina og það tók mig langan tíma að jafna mig með einstakri hjálp frá vinum, systkinum og góðum sérfræðingum. Það var ekki fyrr en í námi í sálfræðilegri ráðgjöf, þegar dóttir mín var orðin 10 ára, sem ég varð meðvitaðri um mína viðkvæmu stöðu með tilkomu foreldahlutverksins.“

Gera þarf betur

Af öllu þessu má ráða að ástandið gæti verið verra hér á landi; eigi að síður segir Ólafur Grétar að gera þurfi betur. Fréttir af ójafnvægi á heimilum í Covid-19 og fyrirsjáanleg eftirköst kalli á mikilvirkar aðgerðir af því tagi sem hér hefur verið lýst. „Kallað hefur verið eftir aðgerðum allan þann tíma sem Covid-19 hefur geisað en of lítið gerst.“

Feðra-, meðgöngu- og parafræðslan sem Ólafur Grétar býður upp á er viðbragð við aðkallandi þörf sem sveitarfélög, ríki og aðilar vinnumarkaðarins sinni ekki nægilega vel. „Hún hefur það markmið að ef barnshafandi pör og foreldrar barna allt að þriggja ára aldri huga að ákveðnum þáttum, andlegum, félagslegum og hvað snertir innbyrðis tengsl, þá eru mun minni líkur á því að fjölskyldan þurfi annars og þriðja stigs þjónustu og minnkar stórlega hættuna á að foreldrar skilji vegna álags.“

Það er því til mikils að vinna.

Erfið staða drengja

Dæmin sýna að drengir eru þyngra kynið í uppeldi og umönnun og Ólafur Grétar hefur mikið velt erfiðri stöðu drengja í skólakerfinu hér á landi fyrir sér. Þeir séu mjög illa settir og leita þurfi út fyrir Evrópu til að finna lakari stöðu samkvæmt svonefndri Hechinger-skýrslu. „Það að drengir njóti sín ekki í skólakerfinu eykur umönnunarbyrði sem stjórnvöld flytja eins og er yfir á konur. Atvinnulífið vill vernda frumkvöðlaauðinn sem í konum býr, þannig að því ætti að renna blóðið til skyldunnar.“

Hann hefur eftirfarandi til málanna að leggja: „Sinnum þroskaþörfum drengja í frumbernsku og það verður ekki þörf fyrir að hegna þeim fullorðnum.“

Ólafur Grétar bendir á, að það halli strax á drengi í móðurkviði en dánartíðni karlkyns fóstra mun vera marktækt hærri en kvenkyns fóstra. „Flestallt sem úrskeiðis getur farið í móðurkviði kemur oftar fram hjá karlkyns fóstrum. Barnalæknar sem sérhæfa sig í nýburum vita að meðal fyrirbura farnast stúlkum betur en drengjum við sambærilega meðgöngulengd. Sú staðreynd er minna þekkt að barnshafandi kona undir miklu álagi á frekar á hættu að missa fóstrið sé það karlkyns. Áberandi dæmi um viðkvæmni karlkynsins er að glími foreldri við þunglyndi bregst drengur fyrr við því og á sýnilegri hátt en ef um stúlku er að ræða. Slíkt foreldri er ekki jafn næmt á hegðun og þarfir barnsins og foreldri sem líður vel, sem aftur hefur áhrif á þroska barnsins síðar meir. Eirðarleysi er algengara meðal drengja en stúlkna. Það má að hluta til rekja til líffræðilegra ástæðna, en samfélagslegar hugmyndir um karlmennsku geta átt það til að ýta undir vandann. Karlkynið er veikara kynið.“

Leita síður aðstoðar

Afleiðingar þessarar menningarblindu eru að sögn Ólafs Grétars meðal annars að:

Þrisvar sinnum fleiri drengir en stúlkur greinast með hegðunarvanda í skólum.

Unglingspiltar og fullorðnir karlmenn leita sér síður aðstoðar þegar erfiðleikar steðja að, en átakanlegustu sönnunargögn þess er hærri sjálfsvígstíðni karla óháð aldri.

Þessari þróun segir Ólafur Grétar brýnt að snúa við – og byrja þurfi strax!

Þetta þurfa allir verðandi feður að vita

Ólafur Grétar segir brýnt að allir verðandi feður séu meðvitaðir um eftirfarandi:

Rannsóknir sýna að feður eru jafn mikilvægir geðheilsu barna og mæður.

Sem dæmi má nefna að þunglyndi og kvíði feðra strax eftir fæðingu barns hefur mikil áhrif á börnin.

Þau eru þá í meiri hættu varðandi það að þróa með sér tilfinninga- og hegðunarvanda síðar á ævinni.

Sýnt hefur verið fram á að geta föður til að vernda börn fyrir afleiðingum geðheilsubrests móður sé mikilvægur þáttur.

Til að auka getu föður til að vernda börn og styðja veika móður þarf hann fræðslu og aðstoð.