Rússneska ríkið hefur innt af hendi greiðslu til JPMorgan að fjárhæð 117 milljónir dollara.
Rússneska ríkið hefur innt af hendi greiðslu til JPMorgan að fjárhæð 117 milljónir dollara. Á hún að standa undir afborgun af vöxtum af skuldabréfum sem ríkið gaf út en um helgina lét fjármálaráðherra Rússlands í veðri vaka að ríkissjóður landsins myndi inna greiðsluna af hendi í rúblum en ekki dollurum eins og lánaskilmálar kveða á um. Byggðist hótunin á því að stærstu hagkerfi heims hefðu gert Rússlandi ómögulegt að inna greiðsluna af hendi í dollurum vegna þeirra frystinga sem gjaldeyrisforði og aðrar eignir rússneska ríkisins sæta víða um heim. Samkvæmt heimildum Financial Times fékk JPMorgan heimild frá bandaríska fjármálaráðuneytinu til að flytja fjármunina sem um ræðir af reikningum í eigu Rússlands yfir á reikninga bankans utan Rússlands.Vildi bankinn ganga úr skugga um að fjármagnsflutningarnir brytu ekki í bága við þær hömlur sem lagðar hafa verið á viðskipti Rússa í kjölfar innrásar þeirra í Úkraínu.