Guðrún Gunnarsdóttir fæddist í Hafnarfirði 2. april 1937. Hún lést á hjúkrunarheimili Hrafnistu í Hafnarfirði, 5. mars 2022.

Foreldrar hennar voru Gunnar Jónsson, f. 7.6. 1894, d. 8.3. 1978, sjómaður í 38 ár og síðar starfsmaður við emeleringu heimilistækja hjá Rafha í Hafnarfirði til 83 ára aldurs, og Guðmundína Þorleifsdóttir, f. 14.12. 1901, d. 3.4. 1978, húsfreyja og verkakona.

Föðurforeldrar voru Jón Erlendsson, f. 24.9. 1850, d. 20.2. 1929, og Guðrún Gunnarsdóttir, f. 24.4. 1860, d. 19.10. 1952. Þau bjuggu í Hlíðarkoti í Garðahverfi, þar til þau fluttu til Hafnarfjarðar, aldamótaárið, og áttu þar heima upp frá því.

Móðurforeldrar voru Þorleifur Kláus Guðmundsson, f. 7.6. 1864, d. 31.1. 1933, og Hólmfríður Helgadóttir, f. 15.8. 1867, d. 23 2. 1938. Þau bjuggu fyrst í Garðbæ í Garði en fluttust til Hafnarfjarðar árið 1919.

Guðrún átti fjóra bræður, sem allir eru nú látnir. Þeir voru: Þorleifur Hólm, stýrimaður og um skeið starfsmaður í álverinu í Straumsvík, Jón Erlendur, listmálari og offsetprentari, Helgi, véltæknifræðingur og kennari við Tækniskóla Íslands, og Baldur, sem lést aðeins sex mánaða gamall, árið 1939.

Guðrún eignaðist tvö börn: a) Jón Sigurðsson, f. 19.3. 1960, faðir Sigurður Jónsson, eiginmaður Guðrúnar. Þau skildu.

Börn Jóns: 1) Alexandra Guðrún, f. 19.11. 1989, móðir Jóhanna Erlingsdóttir. 2) Gunnar Örn, f. 9.12. 1997, móðir Jakobína Birna Kristjánsdóttir.

Guðrún giftist 13.2. 1965 Gunnari Þór Hólmsteinssyni, viðskiptafræðingi, f. 6.3. 1936. Þau eiga eina dóttur, b) Lilju G. Gunnarsdóttur, f. 23.9. 1967. Hún er gift Hilmari H. Eiríkssyni og eiga þau saman tvö börn: 1) Guðrún Lilja f. 10.10. 1995, og 2) Gunnar Þór, f. 3.8. 2000. Hilmar á fyrir þrjú börn.

Guðrún fór snemma að vinna. Fyrir fermingu var hún farin að sækjast eftir vinnu við að breiða og taka saman saltfisk á reit hjá Bæjarútgerðinni. Það var reyndar stopul vinna, fór eftir veðri. Unglingar voru kallaðir til vinnu með því að draga vimpil á stöng.

Um tíma vann hún á dagheimili fyrir börn. Hún vann við afgreiðslu hjá Kaupfélagi Hafnarfjarðar, bæði í útibúinu við Hellisgötu og löngu síðar á Miðvangi eftir að þar var byggt. Frá árinu 1960 og fram yfir 1970 starfaði hún á skrifstofu Bæjarútgerðarinnar við launaútreikning og fleiri störf. Síðustu 13 ár starfsferils síns vann hún á hjúkrunarheimili Hrafnistu í Hafnarfirði við umönnun. Á milli þeirra starfa, sem hér hafa verið nefnd, vann hún við fiskvinnslu hjá Bæjarútgerðinni og Norðurstjörnunni.

Guðrún naut þess að taka þátt í félagsstarfi, einkum kórastarfi og spilum. Hún söng í Víðistaðkórnum frá upphafi hans og næstu 14 ár, síðan eftir nokkurt hlé í Gaflarakórnum, kór eldri borgara í Hafnarfirði.

Útför Guðrúnar fór fram frá 15. mars 2022.

Margs er að minnast og margt er að þakka, elsku mamma mín. Samtölin, samveran, stuðningurinn, gleðistundirnar og væntumþykjan, sem ég naut, hefur verið mitt veganesti í lífinu. Barnabörnin þín nutu þess sama í ríkum mæli og ylja sér nú við góðar minningar.

Það er ekki hægt að minnast mömmu öðruvísi en að brosa. Hún átti svo auðvelt með að sjá gamansemina í aðstæðum og kom oft með hnyttin tilsvör sem ekki var hægt annað en að brosa að. Hún var samt að mörgu leyti ólík konum á hennar aldri. Hún hafði gaman af öllu sem hræddi hana, það var hún sem dró mig í rússíbana en ekki öfugt.

Framandi heimar, dulspeki og líf eftir dauðann í allri sinni mynd var henni hugleikið, sem endurspeglaðist vel í vali á kvikmyndum, bókmenntum og ferðalögum. Glæpasögur og hryllingsmyndir var hennar val. Hún flokkaði gæði kvikmynda eftir því hversu marga fingur hún þurfti að kíkja í gegnum, tíu fingur gáfu jafn margar stjörnur.

Hún elskaði að ferðast, bæði innanlands og erlendis. Að liggja á sólarbekk var neðst á hennar óskalista. Kína, Suður-Ameríka, Rússland, katakompur Rómar og Egyptaland heillaði mun meira. Ferð hennar til Egyptalands, á slóðir múmía og faraóa, stóð alltaf upp úr og var hún ákveðin í að endurtaka þá ferð síðar, sem varð þó aldrei af. Elsku mamma, ég á eftir að fara og þá kemur þú með mér, a.m.k í hjarta mér.

Mamma hafði mjög gaman af söng og söng í kórum í fjöldamörg ár. Fyrst í Víðistaðakór og síðar í Gaflarakórnum. Hún kunni ógrynni af lagatextum. Það dugði henni að lesa yfir ljóð eða söngtexta einu sinni til að kunna textann alla tíð. Þrátt fyrir þverrandi minni sl. ár voru lagatextar enn þá nær óskertir í hennar minni og kallaðir fram þegar tónlist var spiluð.

Hún hafði líka mjög gaman af að spila á spil. Hún gat spilað endalaust. Barnabörnin voru því ekki gömul þegar búið var að kenna og þjálfa þau upp í að kunna Kana. Þannig var hægt að skipta út nýjum og ferskum spilurum, í staðinn fyrir þá sem höfðu misst einbeitinguna. Það breytti engu þótt spilahöndin hafi oft verið léleg, það dró ekkert úr ánægjunni. Elsku mamma, við höldum áfram að spila, þó að þitt sæti verði ekki fyllt, en við tölum gjarnan um að hafa lent í ömmusæti þegar spilin eru léleg.

Mamma var mikill dýravinur. Hún sá til þess að fugla og ketti í næsta nágrenni skorti ekki fæði eða atlæti. Það mátti ekki hrafn fljúga yfir öðruvísi en að hún færi út með eitthvað í gogginn fyrir hann. Hún sá alltaf hungur í augum dýra. Það er snúið að gefa bæði fuglum og köttum í sama garðinum en með lagni tókst henni það. Umhyggjan fyrir þeim sem minna máttu sín birtist einnig í því, að mamma og pabbi áttu í fjöldamörg ár uppeldisbörn erlendis, í gegnum hjálparstarf. Þar eru nokkrir fullorðnir einstaklingar sem vonandi hafa eignast betra líf með þeirra aðstoð.

Þú ert gull og gersemi

góða besta mamma mín.

Dyggðir þínar dásami

eilíflega dóttir þín.

Vandvirkni og vinnusemi

væntumþykja úr augum skín.

Hugrekki og hugulsemi

og huggun þegar hún var brýn.

(Anna Þóra)

Lilja G. Gunnarsdóttir.