Steingerð höfuðkúpa af basilosaurusi, sem synti um höfin fyrir 36 milljónum ára, er nú til sýnis í Perú.
Steingerð höfuðkúpa af basilosaurusi, sem synti um höfin fyrir 36 milljónum ára, er nú til sýnis í Perú. — AFP/Ernesto Benavides
Fornleifafræðingar lyftu á fimmtudag hulunni af steingerðum leifum hvals, sem synti um höfin fyrir 36 milljónum ára og fundust í eyðimörk í Perú á liðnu ári.

Fornleifafræðingar lyftu á fimmtudag hulunni af steingerðum leifum hvals, sem synti um höfin fyrir 36 milljónum ára og fundust í eyðimörk í Perú á liðnu ári.

„Við höfum kynnt hér hinn nýja perúska basilosaurus, þetta er heil höfuðkúpa forns hvals, sem lifði fyrir 36 milljónum ára,“ sagði Mario Urbina, fornleifafræðingur og leiðtogi hópsins, sem fann beinagrind hvalsins.

Leifarnar fundust í lok árs í fyrra í Ocucaje-eyðimörkinni um 350 km suður af Lima, höfuðborg Perú. Á þessum stað var grunnsævi fyrir milljónum ára og í sandhólum eyðimerkurinnar hafa fundist sláandi leifar ýmissa frumstæðra sjávarspendýra.

Fornhvalurinn hefur verið um 17 metrar á lengd og hefur notað stóra skoltana og sterklegar tennurnar til að borða túnfisk, hákarl og innbyrða torfur af sardínum.

„Þessi fundur er mjög mikilvægur vegna þess að engir sambærilegir steingervingar hafa fundist annars staðar í heiminum,“ sagði Urbina, sem vinnur við rannsóknir við San Marcos-þjóðarháskólann í Lima.

Fundurinn er líka sagður sérstakur vegna þess hve heillegir steingervingarnir eru og mun nýtast til að átta sig á sögu Perúhafs.