Þórður Gunnarsson
Þórður Gunnarsson
Eftir Þórð Gunnarsson: "Sjálfstæðismenn eiga að láta kosningarnar snúast um bætt þjónustustig, sem getur aðeins komið í kjölfar meira aðhalds í rekstri borgarinnar."

Eftir tæpa tvo mánuði munu Reykvíkingar ganga til kosninga og ákveða hverjir munu halda um stjórnartaumana í höfuðborginni næstu fjögur árin. Allir sjá að grunnþjónusta borgarinnar er farin að láta verulega á sjá, sem er vegna síaukinnar skuldabyrði borgarsjóðs. Sá meirihluti sem hefur verið við völd í einni eða annarri mynd síðastliðin 20 ár hefur misst sjónar á heildarmyndinni, misst tökin á fjármálum borgarinnar og misst marks við útfærslu eigin kosningaloforða.

Hart hefur verið tekist á um framtíðarskipan samgöngumála innan Sjálfstæðisflokksins á undanförnum árum og andstæðingar flokksins hafa nýtt sér það. Í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, sem undirritaður var árið 2019, segir efst á blaði að uppbyggingu allra samgöngumáta verði sinnt jafnt. Meirihlutinn í borginni hefur hins vegar ekki staðið við sitt í þeim efnum og lagt alla áherslu á einn samgöngumáta umfram annan.

Uppbygging allra samgöngumáta er nauðsynleg í Reykjavík. Bættar almenningssamgöngur, en líka tafarlaus lagning Sundabrautar, uppfærsla gatnamóta Bústaðavegar og Reykjanesbrautar og fleira.

Sjálfstæðismenn eiga að láta kosningarnar snúast um bætt þjónustustig, sem getur aðeins komið í kjölfar meira aðhalds í rekstri, og stöðvun útþenslu borgarkerfisins.

Mikilvægt er að flokksmenn gangi í takt í aðdraganda kosninga. Prófkjöri í Reykjavík lýkur í dag. Mikill fjöldi frambærilegra frambjóðenda gaf kost á sér. Leita þarf langt aftur í tímann, sennilega tæpa tvo áratugi, til að finna aðra eins stemningu og áhuga í kringum prófkjör flokksins í Reykjavík. Aðeins tveir mánuðir eru til kosninga og flokksstarfið mun þegar hafa náð kjörhitastigi að prófkjörinu loknu. Höldum áfram á sömu braut og fylkjum liði til sigurs í kosningunum 14. maí.

Höfundur er hagfræðingur og óskar eftir stuðningi í 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. gunnarsson@thordur.is

Höf.: Þórð Gunnarsson