Ísbjörn Svandís Dóra Einarsdóttir flytur barnaverkið Forspil að framtíð sem er í senn sögustund og leikverk. Þar blandast saman fjórar þjóðsögur.
Ísbjörn Svandís Dóra Einarsdóttir flytur barnaverkið Forspil að framtíð sem er í senn sögustund og leikverk. Þar blandast saman fjórar þjóðsögur. — Ljósmynd/Owen Fiene
Ragnheiður Birgisdóttir ragnheidurb@mbl.

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

„Við erum að tengja saman arfleifð Norðurlandanna og setjum í nýstárlegan búning sem í raun máir út landamæri,“ segir Kjartan Ólafsson tónskáld um barnaverkið Forspil að framtíð sem þeir Ævar Þór Benediktsson standa fyrir. Það verður frumsýnt í Norræna húsinu í dag klukkan 15.

Verkið er blanda af sögustund og leiksýningu þar sem fjögur ævintýri af Norðurlöndunum eru sett á svið. Ævintýrin koma frá Íslandi, Danmörku, Grænlandi og Noregi, en Ævar hefur þó laumað öllum Norðurlöndunum inn í sýninguna. „Þetta er tenging við arfleifð þessara þjóða og við ákváðum að gera það á mjög súrrealískan hátt. Við treystum börnunum algjörlega til þess að meðtaka þetta sem við erum að setja fram. Þau eru algjörlega fordómalaus og fyrir þeim verður þetta ekkert súrrealískt. Þau geta vonandi útskýrt þetta fyrir foreldrum sínum eftir á. Það er ein saga sem er svolítið ógnvekjandi en við treystum því að börnin haldi í hönd foreldra sinna og gæti þess að foreldrarnir verði ekki of skelkaðir.“

Ævar Þór Benediktsson, leikari og rithöfundur, hefur mikla reynslu af því að vinna að menningarefni fyrir börn. Bókasería hans, „Þín eigin...“, hefur slegið í gegn, en hann hefur einnig unnið að leikverkum, sjónvarps- og útvarpsþáttum, tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands og staðið að lestrarátökum.

Ísbirnir og norðurljósin óma

Hljóðmyndina hefur Kjartan unnið með aðstoð gervigreindarinnar CALMUS sem hann hefur þróað frá árinu 1988.

„Við notum þjóðlög frá Norðurlöndunum og ég nota gervigreindina í tvennt. Annars vegar set ég brot af þessum þjóðlögum inn í kerfið og það semur tónlist úr þessu, útsetur og býr til ferska útgáfu. Hins vegar er gervigreindin þannig að hún tengir saman ólík hljóð og raðar þessu öllu saman eftir mjög greindarlegri aðferðafræði. Með þessu getum við búið til nýja og ferska útgáfu af þessu gamla efni, þessum tónlistararfi. Hún tengir þetta allt saman og við getum síðan notað gervigreindina til þess að stýra þessu öllu í rauntíma.“

CALMUS gerir gestum sýningarinnar kleift að heyra ýmislegt óvenjulegt en hljóðheimurinn er unninn upp úr tónum og umhverfi landanna sem sögurnar koma frá.

„Hefurðu til dæmis einhvern tímann velt því fyrir þér hvernig ísbjarnakór myndi hljóma? Hefurðu heyrt norðurljósin óma? Hvernig gengur að spila á finnskt kantele á bólakafi í Lagarfljóti á meðan ormur reynir að éta mann?“ eins og segir í kynningartexta um sýninguna.

„Við nýtum þessa tækni á mjög nýstárlegan hátt til þess að tengja saman ólíka þætti og búa til nýja varíanta með þessum þjóðararfi,“ segir Kjartan.

„Hér er frábært listafólk sem kemur saman. Þetta er það sem allir eru að tala um, þetta þverfaglega samstarf á sviði lista og birtingarmyndin er einna best eða skýrust þegar listirnar koma saman í svona leikhúsverki.“

Leikkonan Svandís Dóra Einarsdóttir sér um að flytja verkið. Tanja Huld Levý Guðmundsdóttir og Jökull Jónsson hanna leikmynd og búninga verksins og Kjartan Darri Kristjánsson hannar lýsingu. Leikmyndin er sögð mikilvægur þáttur frásagnarinnar en hún umbreytist í sýningunni og þannig birtist meðal annars risastórt tröll, ísbjörn og töfradúkur.

Ragnheiður Maísól Sturludóttir og MurMur Productions framleiða verkið og er það unnið í samstarfi við Norræna húsið.

Forspil að framtíð er sýning fyrir alla fjölskylduna og þá helst þá sem eru á bilinu 4-8 ára. Sýningin er sem áður segir sýnd í Norræna húsinu og einungis verða tvær sýningarhelgar, 19. & 20. mars og 26. & 27. mars.