Gestur Óli Guðmundsson fæddist í Reykjavík 3. júlí 1937. Hann lést á Landspítalanum Fossvogi 22. febrúar 2022.

Foreldrar hans voru Áslaug Sigurðardóttir, f. 1907, d. 1997, og Guðmundur Magnússon, f. 1904, d. 2003. Þau voru bæði ættuð frá Snæfellsnesi. Börn þeirra eru Eygló Fjóla, f. 1934, Erla Sæunn, f. 1935, Gestur Óli, f. 1937, Anna Maggý, f. 1938, Áslaug Gyða, f. 1940, d. 2022, Guðmundur Heiðar, f. 1941, d. 2020, Magnús, f. 1945, Hrönn, f. 1946, og Sigurður, f. 1947.

Hinn 27. september 1958 giftist Gestur Leu Þórarinsdóttur, f. í Reykjavík 29. ágúst 1939.

Foreldrar hennar voru þau Þórarinn Helgi Jónsson f. 1913 á Ytri-Rauðamel í Eyjahreppi, d. 1986, og Jenny Lea Svanhild Olsen frá Vestmanna í Færeyjum, f. 1910, d. 2006. Systur Leu eru: Emmy, f. 1941, d. 2009, Elna, f. 1943, og Þórunn, f. 1947, d. 2021. Hálfbróðir Leu sammæðra er Trausti Ólafsson, f. 1935, d 2016, og hálfsystir samfeðra er Jóna Guðrún Þórarinsdóttir, f. 1936.

Börn Gests og Leu eru: 1) Bryndís, f. 13. júní 1958. Eiginmaður hennar var Steinþór Björgvinsson, sem lést árið 2020, og börn þeirra eru þrjú: a) Gestur f. 1983, kona hans er Rósa Stefánsdóttir og börn þeirra eru Óskar, Viktor og Eva. b) Lea, f. 1985, maður hennar er Gunnar Már Steinarsson og börn þeirra eru Ingólfur Þór, Sunna Karen, Grétar Logi og Dalía Nótt. c) Björgvin, f. 1991, kona hans er Þórunn Björk Jónsdóttir og börn þeirra eru Matthildur Rósa og Hrafney Myrk. 2) Tómas Jennþór, f. 16. október 1960. Kona hans er Rósa Geirsdóttir og börn þeirra eru þrjú: a) Elísabet, f. 1984, maður hennar er Óskar Fannar Guðmundsson og börn þeirra eru Ísabella Rakel, Tómas Guðni, Rósa Jóna og Heiðdís Eva. b) Rakel, f. 1988, maður hennar er Matthías Vilhjálmsson og börn þeirra eru Vilhjálmur Atli og Andrea Rós. c) Geir, f. 1989, kona hans er Heiðrún Hlíðberg. 3) Agnar, f. 17. febrúar 1962. Kona hans er Jóhanna Bára Ásgeirsdóttir og börn þeirra eru tvö: a) Þórarinn Helgi, f. 1986, sonur hans er Jóhann Atli. b) Halla Dís, f. 1993, börn hennar eru Berglind Bára, Snædís Rós, Guðrún Elín og Gunnlaugur Gylfi. 4) Baldur, f. 21. október 1968. Börn hans og Helgu Björgvinsdóttur eru þrjú: a) Inga Dögg, f. 1995. b) Fríða Rún, f. 1998. c) Óðinn, f. 2005.

Gestur starfaði lengst af hjá Eimskip eða í tæp 40 ár.

Útförin hefur farið fram í kyrrþey.

Elskulegur afi okkar er fallinn frá. Við kveðjum hann með miklu þakklæti og rifjum upp allar góðu stundirnar sem við áttum með honum. Afi var barngóður, hjálpsamur og einstaklega ljúfur. Hann var alltaf mættur fyrstur til þess að hjálpa þegar þess þurfti, hvort sem það var að hjálpa okkur að flytja, klippa trjágróðurinn, mála eða bara hvað sem er.

Það hefur alltaf verið notalegt að koma í heimsókn til ömmu og afa í Sólheimana. Oftar en ekki tekur pönnukökulyktin á móti okkur og við munum svo sannarlega sakna þess að hitta afa sem stóð ávallt í dyragættinni með bros á vör og útbreiddan faðminn.

Það rifjast upp fyrir okkur allar ferðirnar í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn með ömmu og afa, bæði sem börn og núna í seinni tíð með börn okkar systkina. Við tókum allan daginn í að rölta um og spjalla, borða nesti og njóta samvista hvert við annað. Hann kippti sér ekkert upp við það þó börnin ætluðu 100 ferðir í allskyns tæki því þolinmæði hans var með eindæmum mikil.

Afi hafði gaman af því að fara á Snæfellsnesið og á Rauðaberg þar sem hann fann sér alltaf eitthvað til þess að dunda við. Hann sló fleiri hektara af grasi, málaði girðingar og bústaði og dyttaði að því sem þurfti því hann vildi hafa hlutina í lagi. Það var enn betra ef í þessu brasi kæmi einhver flott vél eða bifreið við sögu. Hann hafði einstaklega gaman af bílum og tækjum og var alltaf að segja okkur frá því nýjasta sem hann hafði skoðað. Við erum því alveg viss um það að afi er búinn að finna sér einhvern svakalegan kagga sem hann rúntar nú um á og fylgist með okkur.

Við munum sakna afa sárt en við munum ylja okkur við góðar minningar.

Takk fyrir tímann sem með þér áttum,

tímann sem veitti birtu og frið.

Ljós þitt mun loga og leiðbeina áfram,

lýsa upp veg okkar fram á við.

Gefi þér Guð og góðar vættir

góða tíð yfir kveðjuna hér,

þinn orðstír mun lifa um ókomna daga,

indælar minningar í hjarta okkar ber.

(P.Ó.T.)

Elísabet, Rakel og Geir.

Elsku afi. Það er svo skrítið að hugsa til þess að þú sért farinn. Eftir öll áföllin, veikindin og slysin sem þú lentir í og stóðst alltaf upp aftur, þá hélt ég að þú myndir jafna þig aftur núna. Enginn sem ég þekki hefur verið jafn mikill klettur, jafn harður af sér og þú. En á sama tíma hef ég aldrei kynnst öðru eins ljúfmenni. Alltaf rólegur, yfirvegaður og alltaf til í að spjalla og hlusta. Þú kenndir mér miklu meira í lífinu en okkur báða grunar. Þótt þú hafir verið hlédrægur þá var alltaf stutt í húmorinn; þennan fallega, sanna húmor sem gerði létt grín að aðstæðum án þess að særa aðra. Hann lærði ég af þér. Þegar ég var fimm ára varstu búinn að kenna mér allt um bíla og ég gat sagt allar bíltegundirnar sem keyrðu fram hjá okkur þegar við vorum í göngutúrunum okkar saman. Mér fannst það æðislega gaman því ég hef alltaf haft svo mikinn áhuga á bílum og þarna gleymdum við okkur oft saman. Til marks um húmor þá sáum við einu sinni Lödu fyrir utan Sólheimana og þú sagðir mér að þetta væri uppáhaldsbíllinn hennar ömmu. Svo þegar það kom í ljós að það var fjarri sannleikanum þá hlógum við öll saman að þessu. Þegar ég var yngri vissi ég ekkert betra en að gista hjá ömmu og afa. Við horfðum saman á bíómyndir og borðuðum eitthvað gott. Skemmtilegast fannst mér þegar þú varst að segja mér frá bíómyndunum sem þú fórst á í bíó; Roy Rogers, Dracula og fleiri myndum sem þú lýstir fyrir mér hvernig þú hefðir upplifað á sínum tíma og ég drakk í mig hvert einasta orð.

Engan þekki ég sem hefur verið jafn duglegur til vinnu og hjálpsemi. Þrátt fyrir tæpa heilsu síðustu árin varstu alltaf mættur út til að sópa eða moka planið. „Það gengur ekkert að hafa þetta öðruvísi,“ sagðirðu margoft og það var til vitnis um að þú vildir hafa hlutina í lagi í kringum þig. Sem tókst vel til því þú varst alltaf svo flottur. „Farðu vel með peningana þína og þá munu þeir fara vel með þig,“ sagðirðu við mig einu sinni meðan þú sléttaðir úr seðlum og settir aftur í veskið þitt. Það segir manni talsvert meira heldur en bara að hafa seðlana slétta. Við áttum sérstakt samband. Gestur og Gestur Óli. Við vorum saman í liði. Hvíldu þig nú afi minn, ég vona að þér líði vel. Ég elska þig og ég veit að þú heldur áfram að passa upp á mig.

Gestur Steinþórsson.