Kænugarður Loftárás var gerð á íbúðablokk í norðurhluta Kænugarðs snemma í gærmorgun samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum borgarinnar sem sögðu að einnig hefði verið skotið á skóla og barnaleikvöll.
Kænugarður Loftárás var gerð á íbúðablokk í norðurhluta Kænugarðs snemma í gærmorgun samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum borgarinnar sem sögðu að einnig hefði verið skotið á skóla og barnaleikvöll. — AFP/FADEL SENNA
Stríðið í Úkraínu hefur staðið í 24 daga og ekkert lát virðist ætla að verða á árásunum. Í gær var gerð loftárás á byggingu fyrir utan flugvöll í Lviv, sem er í 70 km fjarlægð frá pólsku landamærunum.

Stríðið í Úkraínu hefur staðið í 24 daga og ekkert lát virðist ætla að verða á árásunum. Í gær var gerð loftárás á byggingu fyrir utan flugvöll í Lviv, sem er í 70 km fjarlægð frá pólsku landamærunum. Það er önnur árásin nálægt borginni, en Rússar réðust á æfingasvæði fyrir norðan hana aðfaranótt 13. mars, þar sem 35 létust og yfir 130 særðust. Borgin hefur hingað til verið skjól flóttamanna á leið til Póllands.

Í Maríupol blasir við mannlegur harmleikur ef ekki tekst að koma vistum og ná í fólk frá borginni. Hvorki er rafmagn né hiti og skortur á vatni, mat og lyfjum er orðinn lífshættulegur að sögn talsmanns Sameinuðu þjóðanna. Verið er að reyna að tryggja flóttaleiðir frá borginni, en það hefur ekki tekist. Þó hefur 30 þúsund borgurum tekist að flýja á einkabílum, en eftir sprengjuárásina á leikhús borgarinnar greip um sig mikil hræðsla. 130 manns hefur verið bjargað úr rústum leikhússins, björgunarstarf heldur áfram því talið er að meira en 1.000 manns hafi leitað þar vars.

Loftárás á íbúðablokk

Í Karkív héldu loftárásir áfram í gær og mikill eldur kom upp í fjölmennasta vinnustað borgarinnar, Barabashova-markaðinum, sem er stærsti markaður heims og að hluta til útimarkaður. Milljón íbúa hefur lagt á flótta og yfirgefið borgina og aðeins eru 500 þúsund íbúar eftir. Loftárás var gerð á íbúðablokk í Kænugarði í gærmorgun og talið að einn hafi látist. Yfirvöld borgarinnar sögðu einnig hafa verið skotið á skóla og barnaleikvöll. Varnarmálaráðuneyti Rússlands segist nú hafa náð að „frelsa meira en 90% lýðveldisins Luhansk“, en Rússar viðurkenndu sjálfstæði bæði Luhansk og Dónetsk, héraða aðskilnaðarsinna, þremur dögum fyrir innrásina undir því yfirskini að héruðin væru á valdi úkraínskra nasista. Samkvæmt tölum frá SÞ er fjöldi flóttamanna í Úkraínu kominn í 3,2 milljónir og fara flestir yfir til Póllands og dreifast þaðan um álfuna. Í Úkraínu sjálfri er talið að 13 milljónir þarfnist bráðrar aðstoðar varðandi vatn, mat og lyf og þörfin eykst dag frá degi.

Vladimír Pútín hélt upp á átta ára afmæli yfirtöku Krímskagans í Moskvu í gær með tíu þúsund manns. Andi þjóðernishyggju sveif yfir, rússneski fáninn alls staðar og margir merktir Z-merki stuðningsmanna. doraosk@mbl.is