Gunnþórunn Björnsdóttir fæddist 14. nóvember 1919. Hún lést 8. mars 2022.
Útför Gunnþórunnar fór fram 18. mars 2022.
Hefðarfrúin Gunnþórunn hefur fengið hvíldina, hún var farin að tala um það hvers vegna hún væri látin lifa svona lengi, allir kunningjarnir væru farnir.
Ég undirrituð, lítil sveitastelpa úr Súgandafirði, var 11 ára í skóla á Ísafirði hjá frænku minni, sem flutti svo á Akranes. Vinafólk þeirra, Gunnþórunn og Bjarni, buðu mér þá að vera hjá sér næsta skólaár sem ég þáði. Ég var í bekk með Birni syni þeirra og þau vissu að mig langaði að vera áfram á Ísafirði með vinahópnum. Meðgangan að yngri syni þeirra varð svo til þess að Gunnþórunn vissi ekki hvort ráðlegt væri að vera með aukabarn annað ár, en hún talaði um það oft að hún hefði átt að halda mér.
Það var mér gott og lærdómsríkt að vera hjá þeim hjónum, Gunnþórunni að norðan og þar með marga siði sem ég þekkti ekki, t.d. laufabrauðsgerð. Hún var mikil hannyrðakona og myndarleg til húss og handa.
Alltaf var tekið á móti mér opnum örmum, og síðar meir allri minni fjölskyldu, bæði á Ísafirði og í Reykjavík. Ég minnist þess er ég var á ferð frá Siglufirði til Súgandafjarðar með mánaðargamla dóttur okkar með strandferðaskipinu Esju, mjög vont var í sjóinn og komið til Ísafjarðar. Þá komu þau hjón í skip og tóku okkur heim um nóttina og skiluðu okkur í skip næsta morgun þegar hægt var að sigla áfram. Var ég þeim ævarandi þakklát fyrir þetta, því sjóveik var ég.
Það var þeim harmur sár að sjá á eftir Þórdísi Mjöll dóttur sinni í blóma lífsins og einnig voru þung veikindaár Bjarna og andlát.
Eftir lát hans varð ég enn duglegri að heimsækja hana og ekki þótti henni slæmt ef Baldurskleinur fylgdu með, eða smákökur eftir að hún hætti að baka.
En ótrúlegt er það að 102 ára kona fær fyrst pláss á hjúkrunarheimili, því hún gat of vel séð um sig og eldað sinn mat, þótt sjón hennar væri orðin slæm, og sem mikilli handavinnukonu var henni það mjög erfitt, og eins þegar hún varð að hætta að aka bíl.
Gunnþórunn hafði stálminni og fylgdist vel með öllu í þjóðfélaginu, sem hélst þar til fyrsta áfallið reið yfir, stuttu eftir að hún flutti á Sléttuna síðastliðið sumar. Við náðum að heimsækja hana áður en við skruppum úr landi og þá var séð að hverju stefndi, hún dó svo daginn sem við komum til baka.
Við eigum margar góðar minningar um þessa góðu konu, sem ég kallaði stundum mömmu, fóstru eða vinkonu, hún fylgdist alltaf vel með allri okkar fjölskyldu. Í 90 ára afmælisveislunni sinni bauð hún svo til 100 ára afmælisveislunnar og stóð við það með sóma, eins og hennar var vandi.
Við Baldur sendum innilegar samúðarkveðjur til allra hennar afkomenda.
Kristín Friðbertsdóttir.
Faðir minn sagði mér að fyrsta minning sín hefði verið þegar hann var tveggja ára heima á Kópaskeri, systir hans Dúdúa var reið af því að hún fékk ekki bókina Dvergurinn Rauðgrani. Hún vissi hvað hún vildi.
Ég var svo heppin að að fá að dvelja hjá þeim Bjarna að sumri til þegar þau bjuggu á Ísafirði, það var skemmtilegur tími.
Dúdúa var kvenskörungur, glæsileg, eldklár og sem ættmóðir fylgdist hún vel með stórfjölskyldunni. Hún frænka mín var ótrúlega minnug og setti mann oft á gat þegar hún spurði frétta. Eftir að hún missti Bjarna, þann einstaka öðling, bjó hún ein í íbúð sinni á Sléttuvegi. Síðustu árin var hún farin að sjá illa svo hún átti erfitt með að aka. Hún missti því ökuskírteinið sitt og fannst það sárt.
Það var alltaf gaman að heimsækja hana á Sléttuveg. Heimilið var glæsilegt og alltaf fallega skreytt um jól og páska. Eitt sinn þegar við Tryggvi komum og heimsóttum hana og hún var búin að rekja úr okkur garnirnar um fjölskylduna þá spyr Tryggvi hvort hún fái ekki sendan mat. Hún játti því en sagði svo „mér fannst hann bara svo vondur að ég elda sjálf“.
Minnisstætt er þegar hún hélt upp á 100 ára afmælið sitt og ættingjar og vinir fjölmenntu. Meðal annars komu systur hennar tvær að norðan. Synir hennar glöddu hana svo með því að fá Helga Björnsson til að syngja. Þá var fjör.
Við Tryggvi heimsóttum hana á hjúkrunarheimilið rétt fyrir jól og þá var hún furðu hress.
Ég mun sakna frænku minnar. Hún var eftirminnileg kona, glæsileg, klár og dugleg.
Rannveig Gunnarsdóttir.
Amma Dúdúa eins og Gagga kallaði ömmu sína var kletturinn í lífi vinkonu okkar, þær voru einstaklega nánar og áttu svo fallegt samband.
Gunnþórunn var engum lík, algjörlega mögnuð kona með glæsilegt yfirbragð, hlýja og fallega nærveru og mikla persónutöfra. Hún var glettin, með mikinn húmor og auðvelt að hrífast með henni en á sama tíma var hún með mikla lífsreynslu í farteskinu og við duttum oft í djúpar og innihaldsríkar samræður um lífið og tilveruna.
Gunnþórunn hafði lifað tímana tvenna. Hún fæðist rétt eftir fyrri heimsstyrjöldina og upplifir þá seinni komin til vits og ára. Þvílíkt lífshlaup hjá þessari einstöku og sterku konu sem var okkur svo mikil fyrirmynd.
Gunnþórunn var stálminnug og einstaklega áhugasöm um hvað væri í gangi í lífi okkar vinkvennanna, maka okkar og barna. Hún var forvitin á svo fallegan og kærleiksríkan hátt og okkur vinkonunum hlýnaði um hjartarætur þegar hún sýndi okkur einlægan áhuga og vildi heyra sögur um líf okkar. Hún hafði einnig brennandi áhuga á málefnum líðandi stundar og var vel inni í öllum þjóðfélagsmálum.
Síðastliðið sumar, í aðdraganda kosninga, þegar Gunnþórunn nálgaðist sitt 102. aldursár, var hún dugleg að minna á það góða fólk sem stóð í baráttu fyrir Framsóknarflokkinn, enda Bjarni eiginmaður hennar þingmaður fyrir þann flokk þegar þau bjuggu fyrir vestan og þar sló hennar pólitíska hjarta. En manngæskuhjarta Gunnþórunnar sló fyrir eitthvað miklu stærra sem svo margir fengu að njóta góðs af.
Það var gaman að heimsækja Gunnþórunni á Sléttuveginn þar sem Gagga hélt gjarnan saumaklúbbana hjá ömmu sinni eftir að hún flutti til Danmerkur. Heimili hennar var einstaklega fallegt, þar sem hennar handbragð fékk að njóta sín, enda annáluð hannyrðakona. Þá dró Gunnþórunn fram mávastellið, lagði fallega á borð og passaði nú vel upp á það að nafna hennar, Gunnþórunn yngri, gerði allt með sóma fyrir okkur vinkonurnar.
Við áttum dásamlega samveru með Gunnþórunni á 100 ára afmæli hennar. Hún sló upp heljarinnar veislu og að sjálfsögðu vildi hún fá Helga Björns til þess að halda uppi fjörinu. Hún var hrókur alls fagnaðar og geislaði af lífsgleði 100 ára gömul.
Við vinkonurnar erum nú á miðjum aldri og höfum upplifað ýmislegt á lífsins leið. En þegar horft er á formóður eins og Gunnþórunni stýra fyrirmyndarfleyinu af þvílíku öryggi í kærleika, þá vaknar von um slíkt hið sama fyrir okkur. Við erum þakklátar í hjarta okkar fyrir að þessi einstaka, hjartahlýja og sterka kona kom inn í líf okkar fyrir meira en 30 árum. Hún snerti líf okkar allra á einstakan hátt.
Við biðjum allt það góða í heimi hér að umvefja, styðja og styrkja ykkur fjölskyldu og ástvini Gunnþórunnar með kærleika sínum og sendum okkar innilegustu samúðarkveðju.
Minningin um yndislega konu lifir.
Borghildur, Erla, Guðbjörg, Kristín, Margrét og Vigdís.