Kristján Kristjánsson var fæddist 18. apríl 1944. Hann lést 22. febrúar sl. Útförin fór fram 8. mars 2022.
Fallinn er frá mikill höfðingi. KK, eins og við félagarnir kölluðum hann, lést á dögunum eftir vonlausa baráttu við MND.
Við kynntumst fyrir 16 árum þegar við störfuðum saman hjá Capacent. Eins og fleiri í kringum okkur höfðum við báðir mikinn áhuga á golfi og fljótlega varð til hópur kylfinga sem síðan hefur farið í margar golfferðir víða um heim og leikið mörg golfaþon á Íslandi, en það er 72 holu golfkeppni, leikin á um 20 klukkustundum.
KK var tuttugu árum eldri en ég sem þó er með þeim elstu í hópnum. Hann gat því hæglega verið faðir flestra, en það breytti ekki því að hann var einn af strákunum. Enginn varð var við aldursmun, enda var KK ávallt í toppformi, líkamlega og andlega. Lífsgleði hans og jákvæðni gerðu að verkum að hann var sérlega vel liðinn félagi. Reyndar svo vel liðinn að einn úr hópnum vildi fá að ættleiða hann sem tengdaföður.
KK var glæsilegur á velli, hávaxinn maður með stórt hjarta, hlýja nærveru og geislandi bros. Það var gaman að etja kappi við hann, hann gaf ávallt sitt besta og kunni hvort tveggja, að vinna og tapa. Klikkaði sjaldan á pútti þegar það skipti máli. Hann var fyrirmynd okkar ungu guttanna í hópnum, höfum oft rætt í okkar ferðum að við óskuðum þess að verða eins og KK þegar við loks yrðum fullorðnir.
En nú hefur þessi mikli heiðursmaður farið í sína síðustu golfferð. Við kveðjum hann og munum halda minningu hans á lofti. Það verður skálað fyrir KK í golfferðum framtíðarinnar, þannig verður hann með okkur. Votta Dittu og fjölskyldunni mína samúð. KK verður sárt saknað, en minning hans mun lifa.
Hrannar Hólm.
Líttu sérhvert sólarlag
sem þitt hinsta væri það
því morgni eftir orðinn dag
enginn gengur vísum að.
(Bragi Valdimar Skúlason)
Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að KK, eins og hann var alltaf kallaður í okkar hópi, réð mig í vinnu strax að loknu háskólanámi og varð mér dýrmætur lærifaðir á nýju starfssviði. Hann hafði einkar gott lag á því að stýra fólki til góðra verka og fá það til fylgis við skynsamlegar hugmyndir. Hann bjó yfir ótrúlegri orku, jákvæðni og framkvæmdagleði og það var jafnan ákaflega gaman að vera með honum í starfi og leik. Ég sé hann ljóslifandi fyrir mér með ógleymanlega brosið sitt sem fékk mann til að hlýna um hjartaræturnar.
KK var ráðgjafi af guðs náð eins og starfs- og félagsmálaferill hans ber glöggt merki um. Það var á við nokkra áfanga í háskóla að takast á við ráðgjafarverkefni undir handleiðslu Kristjáns. Fyrir kom að lærlingurinn þóttist sjá betri leiðir til lausnar, setti sig jafnvel á háan hest og andmælti læriföðurnum, en það brást ekki að undraskjótt tókst KK að leiðrétta kúrsinn! Hann hvatti mig ávallt af miklum sannfæringakrafti til að takast óhikað á við ný og krefjandi verkefni. Þegar ég var síðan sjálfur kominn í þá stöðu að þurfa ráðgjöf í ákveðnum verkefnum þá var ósjaldan leitað í smiðju KK.
KK var ötull talsmaður og aðalhvatamaður þess að opnuð var ráðgjafarskrifstofa á Akureyri árið 1998. Það voru ekki allir sannfærðir um að það væri skynsamlegt en KK hafði fulla trú á þessu verkefni sem hann fól mér að vera í forsvari fyrir. Ég bý ávallt að þeirri hvatningu og ráðgjöf sem KK veitti mér.
Fagleg handleiðsla Kristjáns var mér afar mikils virði en ég er ekki síður þakklátur fyrir persónulegan vinskap okkar. Alla tíð sýndi hann mikinn áhuga á högum fjölskyldu minnar, barnanna og okkar Þórunnar. Nú síðustu daga hafa ótal margar góðar minningar yljað okkur og rifjast upp margar ógleymanlegar samverustundir okkar í fjallgöngum og á golfvöllum víða um land.
Ég hef oft sagt í gegnum tíðina að KK væri einstaklingur sem ég tæki mér til fyrirmyndar og því mun ég halda áfram. Af ómældri virðingu þakka ég allt það sem þessi kæri vinur og lærifaðir gerði fyrir mig alla tíð.
Elsku Kristín, börn og barnabörn, missir ykkar er mikill, minning um frábæran einstakling lifir. Guð blessi minningu Kristjáns Kristjánssonar, KK.
Jón Birgir Guðmundsson.