Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Staða foreldra og viðhorf þeirra til menntunar ráða miklu um gengi barna þeirra í framhalsskólum, það er hvort þau ljúki þar námi eða hverfi frá því. Efnaleg staða fjölskyldu nemanda hefur einnig talsverð áhrif um námsgengið, en félagslega staðan vegur þyngra. Þetta segir Kolbeinn Hólmar Stefánsson, dósent við félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands.
Þriðjungur einungis lokið grunnskólanámi
Nýlega kynntu Kolbeinn Hólmar og Helgi Eiríkur Eyjólfsson rannsókn og skýrslu um ástæðu þess hvers vegna ungt fólk hverfur frá námi, sem almennt er litið svo á að sé vandamál samfélagsins alls.
Rannsóknin byggir á gögnum viðvíkjandi fólk fætt 1995 og 1996, alls um 9.000 manns. Niðurstaða er sú að aðeins þriðjungur fólks 20-24 ára á Íslandi hafði einungis lokið grunnskólanámi árið 2019, sem var annað hæsta hlutfallið í Evrópu. Aðeins Tyrkland stóð þarna hærra. Sama ár höfðu 23% fólks horfið frá námi fjórum árum frá upphafi þess. Á aldrinum 25-34 ára hafa 20,6% engu framhaldsnámi lokið, sem er sjöunda hæsta hlutfall í Evrópu.
Niðurstaða rannsóknar þessarar var rædd á málþingi sem Velferðarvakin stóð fyrir í síðustu viku. Þar benti Kolbeinn á að ýmsir fleiri þættir en fyrr eru nefndir geti breytt stöðu. Innflytjendur t.d. verið í erfiðri stöðu. Einnig börn langveikra og fólks með örorku.
Bág kjör hafa áhrif
Ein möguleg skýring á miklu brottfalli er hugsanlega að framhaldsskólakerfið hér sé of sveigjanlegt. Á Íslandi eiga nemendur alltaf afturkvæmt í nám. Geta skipt á milli námsleiða. Fyrir vikið er ekki alltaf mikið í húfi að ljúka námi í einni atrennu, segir Kolbeinn. „Á Íslandi skilar allur þorri nemenda sér í framhaldsskóla beint eftir grunnskólanám. Þá leiddi rannsóknin í ljós, að fyrir vikið væri námsval að loknum grunnskóla ekki lykilatriði á Íslandi; heldur að nemendur sem búa við bág kjör séu líklegri en betur settir nemendur til að hætta.“
Kolbeinn segir að áhrif menntunar foreldra á nám barna þeirra komi ekki á óvart. Þarna geti skortur á fyrirmyndum og takmörkuð geta foreldra til að styðja við nám barna sinna líka verið áhrifaþáttur . Menntun hafi sömuleiðis áhrif á vinnu fólks. Foreldrar með litla menntun séu líklegri til að vera í andlega og líkamlega slítandi störfum. „Þau þurfa að vinna meira til að láta enda ná saman, sem kemur niður á tíma og orku sem þau hafa til að styðja börn sín í námi. Þá má ætla að sumir foreldrar með litla menntun eigi bitra reynslu af menntakerfinu sem valdi því að þau leggja minni áherslu á skólagöngu barna sinna. En svo eru ýmsir námserfiðleikar sem hafa ekkert með félagslega stöðu að gera, til dæmis raskanir sem nemendur geta verið með.“
Byrja þarf strax í grunnskóla að skima fyrir nemendum í brottfallshættu og fylgja þeim vel eftir með stuðningi, segir Kolbeinn. Þar þurfi mennta- og velferðarkerfi að vinna saman. Ekki sé endilega lausn að fjölda námskosta, nema hvað gefa þurfi verknáminu sérstakan gaum og koma þar betur til móts við nemendur eftir getu þeirra og stöðu.
Samkvæmt nýlegum tölum Eurostat , hagstofu Evrópusambandins, höfðu tæp 32% 20 til 24 ára fólks aðeins lokið grunnskólanámi á Íslandi sem var annað hæsta hlutfallið í Evrópu. Á aldursbilinu 25-34 ára var hlutfallið 20,6%, hið sjöunda hæsta í Evrópu. Kostnaður af brotthvarfi frá námi er mikill, borinn af bæði samfélaginu og þeim sem hætta í skóla. Slíkt fólk fær gjarnan verri störf en aðrir, lægri laun, minna atvinnuöryggi og býr gjarnan við verri heilsu en aðrir, eins og Kolbeinn bendir á.
Menntun lengi lífið
Tölur Hagstofu Íslands benda líka til þess að vænt ævilengd þeirra sem hafa aðeins lokið grunnskólanámi við 30 ára aldurinn sé 1,7 árum styttri en þeirra sem hafa lokið framhaldsskólanum. Sé svo hálfu fjórða ári skemmri en þeirra sem tóku háskóla. Menntun lengir lífið, er sem sagt niðurstaðan.
„Fyrir um áratug var kostnaður af dæmigerðu brotthvarfi árgangs um 16 milljarðar króna framreiknað til núvirðis. Því er ljóst að mikill hagur felst í því að draga úr brotthvarfinu. Allir peningar sem í slíkt færu munu skila sér fljótt aftur til samfélagsins,“ segir Kolbeinn Hólmar.