París. AFP. | Utan á stórri blokk í París blasir við gríðarhá blá og gul veggmynd. Henni er ætlað að minna á mannslífin, sem átökin í Úkraínu kosta, segir listamaðurinn, sem gengur undir nafninu C215.
En hún ber einnig vitni listfengi manns, sem með hæfileikum sínum varð einn af fremstu götulistamönnum Frakklands þrátt fyrir áföll í æsku, varð um tíma samstarfsmaður Banksys og hefur taggað veggi um allan heim.
Rétt nafn hans er Christian Guemy og hann er 49 ára gamall. Í liðinni viku var nýja verkið hans, mynd af úkraínskri stúlku, afhjúpað í 13. hverfi í París.
Fyrir neðan myndina er setning, sem Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði við starfslið sitt þegar hann var kosinn 2019: „Ég vil ekki að mynd af mér hangi í skrifstofunum ykkar vegna þess að ég er hvorki guð né helgimynd, heldur þjónn þjóðarinnar. Hengið frekar upp myndir af börnunum ykkar og horfið á þær alltaf þegar þið ætlið að taka ákvörðun.“
„Þetta er allsherjarstuðningsyfirlýsing,“ sagði Guemy í viðtali við AFP á vinnustofu sinni. „Hún knýr okkur til að hugsa um mannúðarharmleikinn í Úkraínu og ábyrgð stjórnmálamanna að gera eitthvað. Ég get ekki horft fram hjá inngripi stórkarlastjórnmála inn í daglegt líf fólks.“
Fórnarlömb og hetjur
Myndir Guemys eru oft af venjulegu fólki. Má þar nefna börn, sem hafa verið fórnarlömb átaka allt frá Sýrlandi og Kosovo til Rúanda.Hann gerir einnig sögulegar myndir. Þar má nefna hetjur úr frönsku andspyrnuhreyfingunni gegn nasistum og blaðamenn af ritstjórn Charlie Hebdo sem voru myrtir árið 2015.
Á vinnustofunni standa stenslar af Nelson Mandela og Jean-Michel Basquiat upp við vegg.
„Kannski eru sumar þeirra of einfeldningslegar fyrir elíturnar, en þær eru nógu skýrar til að ná til stórs áhorfendahóps, þar á meðal í verkamannahverfum,“ sagði hann. „Ég vil að verk mín séu mikilvægari en ég, að þau sameini fólk í samfélagi þar sem allt veldur sundrungu.“
Guemy fæddist árið 1973 í Bondy, útborg á jaðri Parísar þar sem harkan ræður ríkjum. Hann hafði gaman af að teikna á unga aldri, en átti ekki von á að neitt yrði úr því.
„Þetta var staður úr öllum tengslum við menningu,“ sagði hann. „Ég hólst upp í heimi næturinnar: ofbeldi, eiturlyf, áfengi.“
Móðir hans var 13 ára þegar hún eignaðist hann og amma hans og afi ólu hann upp eins og þau væru foreldrar hans og hún systir hans.
Fimm árum síðar svipti móðir hans sig lífi. Hann segist nú loks hafa yfirstigið þann harmleik.
Of franskur, of harmrænn
Guemy er fljótur að læra og á auðvelt með tungumál og náði sér í starf við útflutning á lúxushúsgögnum. Eftir erfið sambandsslit hætti hann í vinnunni og fór að mála á veggi á götum úti án þess að renna í grun hvílík velgengni væri í vændum.„Ég byrjaði á að nota stensil til að gera mynd af dóttur minni heima hjá henni til að gefa til kynna að ég væri á staðnum og fá útrás fyrir þunglyndið,“ sagði hann.
Hann þróaði einfalda aðferð, skar andlit út í pappa án þess að teikna neinar útlínur og notaði síðan úðabrúsann til að mála.
Síðan fór hann að gera myndir af öðru fólki, „yfirleitt fólki sem hefur gert aðeins meira en lífið gaf tilefni til að búast við af því“.
Skömmu eftir að hann byrjaði vakti hann athygli hjá útsendurum Banksys og leiddi það til samstarfs við breska listamanninn. Kom hann fram í heimildarmyndinni um hann frá 2008, Exit Through the Gift Shop .
Honum fannst hann vera „of franskur, of harmrænn“ til að halda samstarfinu áfram, en það hafði opnað honum dyr og allt í einu var hann farinn að ferðast um heiminn, setja saman sýningar, gefa út bækur og hjálpa til við að hanna tölvuleiki.
Stoltastur er hann hins vegar af verkum sínum í fangelsum. Þau eru orðin 24 og fleiri í vændum.
„Það eru þau verk sem ég vil að fólk muni eftir. Eftir því sem ég verð eldri átta ég mig betur á því að við eigum ávallt að einbeita okkur að því að hugsa um þá sem eru veikastir fyrir og viðkvæmastir.“