Það er mikið á sig lagt til að flytja heiminum fréttir af því sem er að gerast í stríðinu í Úkraínu – líf og limir eru bókstaflega undir.

Það er góð spurning; ég hef einmitt verið að ræða þetta við eiginkonu mína,“ svaraði breski blaðamaðurinn Tim Judah, þegar ég spurði hann á föstudaginn fyrir viku hvað hann ætlaði sér að vera lengi í Kænugarði, þaðan sem hann hafði skrifað frá upphafi innrásar Rússa.

„Staðreyndin er sú að þetta er stærsta fréttin í heiminum í dag; þannig að það er ekki auðvelt að láta sig hverfa núna. En til að svara spurningunni þá skulum við orða þetta svona: Ég fer um leið og mér finnst ég ekki vera öruggur lengur. Það er heldur ekki eins og ég sé eini blaðamaðurinn hérna; við erum fjölmörg. Að því sögðu þá er dauður blaðamaður auðvitað gagnslaus. Þannig að þetta þarf að vega og meta frá degi til dags,“ bætti hann við og strauk hendinni yfir þreytulegt andlitið á hótelherbergi sínu í Kænugarði. Mætt hafði á honum.

Daginn eftir að viðtalið birtist á fréttavef Morgunblaðsins varð mér hugsað til Tims en þá barst frétt þess efnis að bandarískur blaðamaður, Brent Renaud, hefði verið skotinn til bana í bænum Irpin, rétt hjá Kænugarði, þar sem Tim hafði verið að afla efnis skömmu áður. Annar særðist. Fleiri kollegar hafa fallið síðan. Ég heyrði síðast í Tim á fimmtudaginn. Þá var hann enn í Kænugarði og leið sem fyrr eins og hann væri öruggur. Sókn Rússa hefði tafist; þeir hefðu hvorki komist lönd né strönd.

Það er mikið á sig lagt til að flytja heiminum fréttir af því sem er að gerast í stríðinu í Úkraínu – líf og limir eru bókstaflega undir. Hugrekki, segja sumir. Fífldirfska, segja aðrir. Gildir svo sem einu enda kjarni málsins sá að við fáum vonandi gleggri mynd af gangi mála á vígstöðvunum og í grennd við þær en ef upplýsingamiðlun væri bara á hendi rússneskra og úkraínskra yfirvalda. Blaðamennirnir sem þarna eru staddir eiga mikið lof skilið.

Hugsið ykkur stöðuna í Rússlandi, eins og hún blasir við okkur. Árið 2022 fá landsmenn bara þær upplýsingar sem stjórnvöldum eru þóknanlegar og þau telja óhætt að miðla. Búið er að banna vestræna fréttamiðla og allt að 15 ára fangelsi bíður þeirra sem ekki nota „rétt“ orð um stríðið.

Í þessu ljósi kemur ekki á óvart að Marína Ovsjanníkova hafi heillað heimsbyggðina með framgöngu sinni þegar hún mótmælti stríðinu í beinni útsendingu rússneskrar ríkisstöðvar og baðst afsökunar á að hafa borið út lygar. Sá gjörningur hlýtur að hafa vakið einhverja landa hennar til umhugsunar. Hvort það skilar sér í auknum mótmælum mun tíminn leiða í ljós.