[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fátt veit ég betra en skáldsögu sem lýsir flóknu innra lífi hjá breyskum manneskjum. Það hljómar eflaust skelfilega niðurdrepandi fyrir suma en fyrir manneskju sem hefur sálfræði í senn að áhugamáli og atvinnu þá er það dásemd.

Fátt veit ég betra en skáldsögu sem lýsir flóknu innra lífi hjá breyskum manneskjum. Það hljómar eflaust skelfilega niðurdrepandi fyrir suma en fyrir manneskju sem hefur sálfræði í senn að áhugamáli og atvinnu þá er það dásemd. Allra best er ef bókin fylgir sögupersónunum yfir langt tímabil og gerist í menningarheimi sem ég þekki lítið til. Bandaríski rithöfundurinn Jonathan Franzen skrifar svona bækur af stakri list og eru allar hans í uppáhaldi. Ég lauk nýlega við nýjustu bók hans Crossroads en hún fjallar um fjölskyldu í miðvesturríkjum Bandaríkjanna þar sem við fylgjum hverjum og einum úr fjölskyldunni þegar hann gengur í gegnum alls kyns flækjur og tilvistarspurningar. Þessari bók fylgir líka sá bónus að sögusviðið er að hluta verndarsvæði frumbyggja í Nýju-Mexíkó sem er heimur sem ég þekki afar lítið.

Ég setti mér þá óformlegu reglu fyrir nokkrum árum að um það bil önnur hver bók sem ég læsi yrði á ensku og hin á íslensku. Þessa reglu setti ég mér þegar ég áttaði mig á því að nánast allt sem ég las var á ensku og að máltilfinning mín fór versnandi. Þá vildi svo til að ég las Híbýli vindanna og Lífsins tré eftir Böðvar Guðmundsson og ást mín á íslenskunni varð samstundis endurvakin. Af nýlegum íslenskum bókum sem ég hef lesið þá nefni ég fyrst Tilfinningar eru fyrir aumingja . Það er saga sem virðist í fyrstu lítil og hversdagsleg, en eftir því sem ég hugsaði meira um innihaldið þá stækkaði hún og viðfangsefnið. Síðan las ég aftur Elín, ýmislegt í síðustu viku. Mér fannst eins og ég hefði bara alls ekki náð snilldinni sem fólk sér í bókinni þegar ég las hana í fyrsta sinn. Ég held ég hafi færst eilítið nær því að skilja allt það sem leynist undir niðri í texta þeirrar bókar við endurlesturinn.

Fræðibækur eru vitanlega aldrei langt undan. Sjálf er ég meðal höfunda tveggja bóka sem komið hafa út nýlega, önnur um þróun á íslenskum stjórnmálum í kjölfar efnahagshrunsins ( Electoral Politics in Crisis after the Great Recession ) sem var skrifuð með kollegum mínum við Háskóla Íslands. Hin bókin fjallar um samsæriskenningar á Norðurlöndum ( Conspiracy Theories in the Nordic Countries ) og var skrifuð með norrænum kollegum. Bókin Nudge, the Final Edition eftir þá Cass Sunstein og Richard Thaler, brautryðjendur á sviði hegðunarvísinda, er líklega sú fræðibók sem ég hef nýlega lesið sem ég myndi mæla með við sem flesta að lesa.