Á framboðslista fyrir forsetakosningarnar í Rússlandi árið 2018 er skráð að Vladimír Pútín eigi 77 fermetra íbúð og henni fylgi 18 fermetra bílskúr. Þar við bætast samkvæmt upplýsingum frá Kreml 18 milljóna króna árslaun forsetans.

Á framboðslista fyrir forsetakosningarnar í Rússlandi árið 2018 er skráð að Vladimír Pútín eigi 77 fermetra íbúð og henni fylgi 18 fermetra bílskúr. Þar við bætast samkvæmt upplýsingum frá Kreml 18 milljóna króna árslaun forsetans.

Þetta er það sem skráð er opinberlega. Þeir eru þó til sem telja að þessar upplýsingar gefi mjög takmarkaða mynd af auðæfum Pútíns. Bill Browder, sem fór illa út úr viðskiptum í Rússlandi á sínum tíma og hefur gagnrýnt Pútín harkalega, meðal annars í viðtali við Morgunblaðið þegar hann kom hingað til lands árið 2015, metur eigur Rússlandsforseta á 25 billjónir króna (það eru 25 þúsund milljarðar króna). Yrði hann þar með einn ríkasti maður heims.

Eignir Pútíns mun ekki vera hægt að finna með því að opna reikninga og skrár. Í úttekt í þýska tímaritinu Der Spiegel , sem hér er byggt á, segir að Pútín noti her óligarka sem leppa til að fela peningaslóð sína. Sérstaklega eftir að hann náði endurkjöri árið 2012 hafi Pútín notað kerfi byggt á spillingu og milligöngumönnum til að sópa til sín fé. Hópur trúnaðarvina, sem hann þekki flesta frá tíma sínum í KGB, hafi þjónað honum sem nokkurs konar gangandi peningaveski.

Nokkuð hefur verið gert úr gríðarstórri höll, sem stendur á 70 hektara landi við Svartahaf. Stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní, sem reynt var að eitra fyrir og nú situr í fangelsi í Rússlandi, gerði langt myndskeið um „Höll Pútíns“. Höllin er metin á 180 milljarða króna og er búin sundlaug, íshokkívelli og spilavíti.

Rússnesk stjórnvöld þvertaka fyrir að Pútín eigi höllina og hefur óligarkinn Arkadí Rotenberg lýst yfir því að hún sé sín eign og hyggist hann hafa þar hótel. Hefur vakið furðu að rússneska leyniþjónustan, FSB, skuli vakta hið svokallaða hótel og allt flug yfir því skuli bannað.

Meira hefur verið tínt til. Einkaflugvél Pútíns heitir „Kreml fljúgandi“ og er metin á um 64 milljarða króna. Nokkrum dögum fyrir innrás Pútíns í Úkraínu lagði 82 metra löng snekkja, sem nefnist „Graceful“, úr höfninni í Hamborg og hélt til Kaliníngrad. Snekkjan er skráð á fyrirtæki, sem heitir Argument. Ofursnekkjur þriggja annarra rússneskra auðmanna sátu hins vegar eftir í höfninni og hafa nú verið kyrrsettar. Í Der Spiegel segir að áhöfnin á Graceful hafi í það minnsta verið betur upplýst um hernaðaráætlanir Pútíns, en eigendur hinna snekkjanna.

Mikill auður hefur safnast á fáar hendur í Rússlandi frá því Sovétríkin leystust upp. Pútín hefur í valdatíð sinni tekist á við marga þeirra auðjöfra, sem fyrstir komu að kjötkötlunum og urðu margir vellauðugir á vafasömum forsendum. Fyrir Pútín vakti einkum að gæta þess að féð væri í „réttum“ höndum, frekar en að hann væri að gæta hagsmuna almennings.

Rússneskir óligarkar hafa komið gríðarlegum auðæfum fyrir með ýmsum hætti utan Rússlands. Má nefna að höfuðborg Bretlands hefur hlotið viðurnefnið Londongrad vegna mikilla umsvifa rússneskra auðmanna þar. Þeim var lýst í fréttaskýringu í Viðskiptamogganum 9. mars.

Í London er ein helsta fjármálamiðstöð heimsins og þeir, sem vilja fela peninga sína og þvo, hafa getað notað hana og hið samtvinnaða aflandseyjakerfi óspart. Peningaþvotturinn hefur haldið áfram linnulítið þrátt fyrir uppljóstranir og birtingu skjala, sem kennd eru við Tortólu, Panama og önnur skjól, og yfirlýsingar yfirvalda um að nú verði gripið í taumana. Til marks um máttleysið er að Ísland var sett á gráan lista út af einhverjum ambögum í reglum á meðan allt var talið í himnalagi í fjármálamiðstöðinni í London af því að þar voru reglurnar til fyrirmyndar. Það var bara ekki farið eftir þeim.

Margir hafa látið glepjast af rússnesku gulli og þeir eru ekki bara í London. Bankar á Norðurlöndum hafa tekið þátt í stórtækum peningaþvotti og það má nefna Sviss, Lúxemborg og Kýpur. Og það er ekki bara rússneskt fé sem er þvegið. Eiturlyfjabarónar og þrælasalar nútímans nota fjármálakerfið til að fela peninga sína og koma þeim í umferð. Það sama á við um einræðisherra og harðstjóra. Einhvern tímann var sagt að bara vextirnir af aflandsreikningum afrískra valdamanna myndu duga til að standa í skilum á afborgunum af öllum opinberum lánum álfunnar.

Þátttakan í þessari spillingu er blettur á fjármálakerfi heimsins. Frysting á eigum rússneskra auðmanna hefur vakið vonir um að loks verði farið að stemma stigu við þvotti á peningum fyrir alvöru. Það væri gott en verður ekki trúað fyrr en taka má á því.