90 ára Sigurður Björnsson er níræður í dag. Eiginkona hans, Sieglinde Kahmann, varð 90 ára 28. nóvember síðastliðinn. Sigurður fæddist 19. mars 1932 í Hafnarfirði og ólst þar upp.
90 ára Sigurður Björnsson er níræður í dag. Eiginkona hans, Sieglinde Kahmann, varð 90 ára 28. nóvember síðastliðinn.

Sigurður fæddist 19. mars 1932 í Hafnarfirði og ólst þar upp. Hann lauk fyrstur söngnema burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 1956. Hann hóf síðan nám við Tónlistarskólann í München og var ráðinn óperusöngvari við Ríkisóperuna í Stuttgart 1962. Þar kynntist hann Sieglinde sem var óperusöngkona þar. Hún fæddist 28. nóvember 1931 í Dardesheim í Saxen-Anhalt í Þýskalandi. Eftir seinni heimsstyrjöldina lenti heimabær hennar fyrir austan járntjaldið, í Austur-Þýskalandi, en hún flúði þaðan og hóf söngnám í Stuttgart.

Sigurður og Sieglinde störfuðu síðan við óperuhúsið í Kassel, við óperuna Graz í Austurríki og svo við Gärtnerplatz í München. Sigurður og Sieglinde fluttu til Íslands árið 1977 þegar Sigurður tók við stöðu framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hann gegndi þeirri stöðu til 1990. Sieglinde hóf strax kennslu við Söngskólann og síðar Tónlistarskólann í Reykjavík. Þau tóku þátt í óperusýningum við Þjóðleikhúsið og Íslensku óperuna og komu fram á tónleikum við ýmis tækifæri. Þau fóru til dæmis sem einsöngvarar með Karlakór Reykjavíkur til Kína árið 1979 og voru þá annar vestræni hópurinn sem fékk að koma inn í Kína næst á eftir Fílharmóníusveitinni í Berlín. Þau ákváðu bæði að hætta að syngja eftir síðustu sýningu á Kátu ekkjunni hér heima árið 1997. Sigurður sat í stjórn Listahátíðar í Reykjavík og var formaður hennar um tíma.

Sigurður og Sieglinde eiga tvö börn og þrjú barnabörn.