Grænmeti Tómatar og gúrkur eru vinsælustu tegundirnir á markaðnum.
Grænmeti Tómatar og gúrkur eru vinsælustu tegundirnir á markaðnum. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Innflutningur á gúrkum nánast hvarf á síðasta ári, miðað við árið á undan. Aðeins voru flutt inn rúm 30 tonn en innlenda framleiðslan jókst sem því nemur og vel það.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Innflutningur á gúrkum nánast hvarf á síðasta ári, miðað við árið á undan. Aðeins voru flutt inn rúm 30 tonn en innlenda framleiðslan jókst sem því nemur og vel það. Annars er innflutningur og innlend framleiðsla grænmetis í nokkru jafnvægi.

Neysla á tómötum minnkaði á milli ára því bæði minnkaði innlend framleiðsla og innflutningur, ef mark má taka á tölum Hagstofu Íslands í því efni. Samdrátturinn er nærri 300 tonn á milli áranna 2021 og 2020. Tölur um minni framleiðslu tómata koma Guðna Hólmari Kristinssyni, framkvæmdastjóra afurðasviðs Sölufélags garðyrkjumanna, mjög á óvart. Hann telur þær ekki geta staðist, miðað við þann hluta sölunnar sem fór um hendur starfsmanna Sölufélagsins. Þar var aukning enda jókst framleiðslan með stækkun Friðheima í Laugarási.

Uppskera á kartöflum minnkaði umtalsvert en það kom ekki fram í auknum innflutningi. Framleiðsla hér innanlands á spergilkáli nærri tvöfaldaðist á árinu 2021, samkvæmt tölum Hagstofnunnar, og framleiðsla á salati jókst verulega. Þessi mikla framleiðsla spergilkáls kemur Guðna einnig á óvart. Hann segir hins vegar að góð uppskera hafi verið í blómkáli og árið 2021 hafi verið stærsta árið í því káli.

Stór hluti framleiðslu grænmetis fer í gegn hjá Sölufélagi garðyrkjumanna en þó ekki allur. Guðni nefnir að fyrirtækið hafi lengi selt um sex þúsund tonn á ári en sé nú að nálgast sjö þúsund tonnin. Ekki er að hans sögn útlit fyrir miklar breytingar á framleiðslu í ár nema þá að jarðarberjaframleiðsla muni minnka mikið vegna þess að stórt gróðurhús eyðilagðist í óveðri í vetur.