Marta Guðjónsdóttir
Marta Guðjónsdóttir
Eftir Mörtu Guðjónsdóttur: "Ég býð fram krafta mína og reynslu til þess að stefna Sjálfstæðisflokksins verði aftur leiðandi stjórnmálaafl í Reykjavík."

Í dag er seinni prófkjörsdagur okkar þar sem við veljum okkur fulltrúa á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Ég bið um stuðning ykkar í 2. sætið á listanum. Ég hef verið borgarfulltrúi frá 2017, hef setið í borgarráði, sit í skipulagsráði og er varaforseti borgarstjórnar. Ég býð fram krafta mína og reynslu til þess að stefna Sjálfstæðisflokksins verði aftur leiðandi stjórnmálaafl í Reykjavík. Oft var þörf. Nú er nauðsyn!

Meginpólitísk markmið mín eru eftirfarandi

1. Ég vil aðhald í rekstri borgarinnar og virðingu fyrir framlagi skattborgara. Snúa verður frá óheyrilegri skuldasöfnun, sem er að sliga rekstur borgarinnar, og sem kemur m.a. fram í vanrækslu á viðhaldi skóla og leikskóla, skertri þjónustu og hærri sköttum og gjöldum.

2. Ég vil heildstæða samgöngustefnu fyrir alla ferðamáta. Góðar samgöngur auka lífsgæði allra, stytta ferðatíma, auðvelda verslun og þjónustu, stytta viðbragðstíma neyðarþjónustu, og eru mikilvægur öryggisþáttur ef náttúruvá ber að höndum. Núverandi samgöngustefna hefur þann ásetning að hægja á umferð, auka mengun og draga úr umferðaröryggi. Snúum af þeirri braut með nýjustu tækni í ljósastýringum, mislægum gatnamótum og Sundabraut í forgang.

3. Ég vil raunhæfar lausnir í almenningssamgöngum. Hægt er að stórbæta þær á höfuðborgarsvæðinu með heildstæðum skipulagsbreytingum á Strætó fyrir brot af þeim kostnaði sem Borgarlína mun kosta. Almenningssamgöngur eiga að auka skilvirkni í umferð, ekki hægja á öðrum samgöngukostum. Núverandi hugmyndir um Borgarlínu eru afar óljósar og umdeildar og það eru margir aðrir, nærtækari kostir sem koma til álita. Borgarlína verður afar kostnaðarsöm og hún er í raun tímaskekkja í þeirri samgöngubyltingu sem nú er í deiglunni.

4. Ég vil skipulagsstefnu í sátt við borgarbúa. Borgarskipulag á að sinna óskum borgarbúa. Þéttingu í eldri hverfum þarf að vinna í góðri sátt við íbúa í stað þess að kveikja ófriðarbál um alla borg.

5. Reykjavíkurflugvöllur er ein meginstoð í samgöngukerfi landsins og gegnir veigamiklu öryggishlutverki.

Ég vil að hann verði látinn í friði enda er ekkert annað flugvallarstæði svo mikið sem í augsýn og ekkert fé tiltækt til flugvallargerðar.

6. Ég mun standa vörð um opin græn svæði, ósnortnar fjörur og náttúruperlur innan borgarinnar. Opin græn svæði eru lungu þéttbýlis.

7. Ég vil nægt framboð lóða á hagkvæmu verði. Reykjavíkurborg hefur ekki mætt þörfum markaðarins í þeim efnum. Þetta endurspeglast í háu fasteigna- og leiguverði og hækkun fasteignaskatta. Tryggja þarf nægt framboð byggingalóða í nýjum hverfum á hagkvæmu verði fyrir fjölbreytta íbúðabyggð og stöðva þannig flótta fólks og fyrirtækja úr borginni.

8. Ég vil nútímamenntastefnu. Leikskólar án biðlista eru lífskjara- og jafnréttismál og því forgangsverkefni. Sinna þarf sómasamlegu viðhaldi skólabygginga og brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla þannig að öllum börnum, 12 mánaða og eldri, verði tryggð leikskólavist. Enn fremur þurfum við að auka sveigjanleika í skólastarfi og stuðla að sjálfstæði skóla.

9. Ég vil afnema sívaxandi fasteignaskatt sem lagður er á eldri borgara og gerum fólki kleift að búa sem lengst þar sem það hefur komið sér upp heimili. Þjónusta við eldri borgara þarf að sinna einstaklingsmiðuðum þörfum og uppfylla nútímakröfur um öryggi og lífsgæði.

Tryggjum samhentan lista sjálfstæðisstefnunnar í vor.

Fram til sigurs!

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Mörtu Guðjónsdóttur