Kjartan Magnússon
Kjartan Magnússon
Eftir Kjartan Magnússon: "Sem flestum verði gert kleift að eignast eigið húsnæði. Aukið lóðaframboð skapar skilyrði fyrir lækkun íbúðaverðs. Stöðva þarf skuldasöfnun borgarinnar, stórbæta rekstur með sparnaði og hagræðingu."

Í dag lýkur prófkjöri Sjálfstæðisflokksins vegna borgarstjórnarkosninga, sem fara fram eftir réttar átta vikur. Ég óska eftir 2. sæti í prófkjörinu.

Í prófkjörsbaráttunni hefur sjálfstæðisfólk rætt af hreinskilni og hispursleysi um borgarmál og hvað mætti betur fara. Komið hefur í ljós að meiri málefnaleg samstaða ríkir meðal frambjóðenda en ýmsir bjuggust fyrirfram við. Við getum því verið bjartsýn á að í prófkjörinu veljist samstilltur hópur, sem setji fram skýr stefnumál og fylgi þeim eftir af krafti.

Í komandi kosningabaráttu ætti Sjálfstæðisflokkurinn að setja fram fá en skýr loforð í helstu málaflokkum. Loforð, sem kjósendur gætu treyst að yrðu efnd ef flokkurinn kæmist í aðstöðu til þess.

Eftir tólf ára vinstri stjórn væri tilvalið að Sjálfstæðisflokkurinn gæfi Reykvíkingum eftirtalin kosningaloforð í sumargjöf. Hægt er að efna þau öll á næsta kjörtímabili.

Skattar

Ekki kemur til greina að þyngja skattbyrði Reykvíkinga frekar. Vinda þarf ofan af hömlulausum hækkunum á fasteignaskatti, sem Reykvíkingar hafa fengið yfir sig vegna mikilla hækkana á fasteignaverði. Hafna ber hugmyndum um nýjan skatt á borgarbúa til að fjármagna borgarlínu, verkefni upp á a.m.k. 100 milljarða kr.

Skipulagsmál

Horfið verði frá lóðaskortstefnu vinstri manna með stórfelldri aukningu lóðaframboðs í nýjum hverfum. Við þróun eldri hverfa verði áhersla lögð á sátt við íbúa.

Öruggar samgöngur

Ráðist verði í tímabærar samgönguframkvæmdir, t.d. bætta ljósastýringu og mislæg gatnamót, sem stórauka umferðaröryggi, draga úr mengun og greiða fyrir umferð. Ekki verði þrengt frekar að Reykjavíkurflugvelli á meðan ekki finnst annar góður flugvallarkostur á höfuðborgarsvæðinu og ríkið kýs að hafa þar miðstöð sjúkraflugs, björgunarflugs og innanlandsflugs.

Eign fyrir alla

Sem flestum verði gert kleift að eignast eigið húsnæði. Aukið lóðaframboð skapar skilyrði fyrir lækkun íbúðaverðs.

Sundabraut sem fyrst

Reykjavíkurborg standi við gerða samninga um Sundabraut og greiði fyrir lausn verkefnisins í stað þess að standa í vegi fyrir því eins og vinstri meirihlutinn gerir.

Fjármál

Stöðva þarf skuldasöfnun borgarinnar, stórbæta rekstur með sparnaði og hagræðingu og búa þannig í haginn fyrir skattalækkanir. Borgarstjórn beiti sér fyrir fækkun borgarfulltrúa úr 23 í 15.

Málefni eldri borgara

Auka þarf heimaþjónustu og gera eldri borgurum kleift að búa á eigin heimili. Samstarf verði aukið við byggingarfélög eldri borgara og þeim úthlutað lóðum eftir þörfum.

Betri skólar

Draga þarf úr miðstýringu og stuðla að nýsköpun og fjölbreytilegra rekstrarformi í skóla-, íþrótta- og frístundastarfi. Þróa þarf einkunnakerfi, sem nemendur og foreldrar skilja.

Umhirða og viðhald

Stórbæta þarf þrif og snjómokstur í borginni sem og viðhald húsa og lóða, einkum leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila.

Nánari upplýsingar um stefnumál mín eru á www.kjartan.is

Höfundur óskar eftir 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins 18.-19. mars.

Höf.: Kjartan Magnússon