Hildur Björnsdóttir sækist nú eftir oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í prófkjöri sem fram fer um helgina.
Af því tilefni rennur mér blóðið til skyldunnar að mæla með Hildi við Reykvíkinga en við vorum samstarfsmenn um nokkurra ára skeið á íslenskri lögmannsstofu í London.
Eins og borgarbúar eru farnir að þekkja er Hildur rökföst en hún kemur sínum sjónarmiðum hins vegar ekki að með öfgum og hávaða, heldur lagni og kurteisi. Þetta nýttist henni vel við lögmannsstörf, og mun gera það sömuleiðis í störfum hennar fyrir Reykvíkinga.
Stjórnmál rétt eins og lögfræðin snúast nefnilega oft og tíðum um að ná fram hagstæðri niðurstöðu í sæmilegri sátt við viðsemjandann. Sjálfstæðisflokkurinn kemst ekki til áhrifa nema í samstarfi við aðra, og í ljósi reynslunnar treysti ég Hildi vel til þess verkefnis.
Það er ekki vænlegt til árangurs í stjórnmálum að elta dægurflugur og freista þess í sífellu að vera sammála síðasta ræðumanni. Stjórnmálamenn sem festast í því fari eru ekki heppilegir til samstarfs. Hildur hefur sem betur fer forðast að detta í þessa gryfju. Skynsemi og hófsemd í málflutningi er nefnilega farsælli til lengri tíma litið.
Ég treysti Hildi til að binda enda á eyðimerkurgöngu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, og hvet kjósendur í Reykjavík til að fylkja sér að baki þessari öflugu konu.
Höfundur er meðal eigenda BBA//Fjeldco lögmannsstofu og fer fyrir starfsemi stofunnar í London.