Tuttugu árum eftir að borin voru kennsl á höggmynd úr marmara í Bretlandi, og sérfræðingar staðfestu að þar væri komið löngu týnt meistaraverk eftir Canova, þá er verkið á leið á uppboð og getur þar mögulega selst fyrir þúsundfalda upphæðina sem þá var greitt fyrir það. Hjón sem keyptu verkið fyrir um 900 þúsund íslenskra króna, án þess að vitað væri hver höfundurinn var, geta búist við því að selja það nú fyrir átta milljónir punda, rúmlega 1,1 milljarð króna.
Höggmyndin Maddalena Giacente var ein sú síðasta sem Ítalinn Antonio Canova, einn dáðasti myndhöggvari sinnar samtíðar, lauk við fyrir andlát sitt fyrir 200 árum en hún sýnir sorgbitna Maríu Magdalenu. Verkið var pantað af Lord Liverpool, þáverandi forsætisráðherra Breta, sem var mikill listunnandi og stofnaði National Gallery í London. Eftir andlát hans erfðu afkomendur verkið og með tímanum hefur gleymst hver væri höfundur höggmyndarinnar, sem var lengi í garði við ættaróðalið. Verkið gekk nokrum sinnum kaupum og sölum en það var fyrir um tveimur áratugum sem núverandi eigendur tók að gruna að það væri löngu týnt meistaraverk Canova og fengu það staðfest frá sérfræðingum. Listfræðingar hafa leitað þess áratugum saman en eftirmynd úr gifsi er til á Ítalíu.