Eldgos Ár er liðið frá því að eldgosið í Geldingadölum hófst hinn 19. mars 2021. Gosið stóð yfir í hálft ár og var mikið aðdráttarafl fyrir innlenda jafnt sem erlenda ferðamenn.
Eldgos Ár er liðið frá því að eldgosið í Geldingadölum hófst hinn 19. mars 2021. Gosið stóð yfir í hálft ár og var mikið aðdráttarafl fyrir innlenda jafnt sem erlenda ferðamenn. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hólmfríður María Ragnhildardóttir hmr@mbl.is Eitt ár er í dag liðið frá því að Reykjanesskaginn vaknaði til lífsins og dyngjugos hófst í Geldingadölum hinn 19. mars 2021 þegar klukkuna vantaði korter í níu að kvöldi til.

Hólmfríður María Ragnhildardóttir

hmr@mbl.is

Eitt ár er í dag liðið frá því að Reykjanesskaginn vaknaði til lífsins og dyngjugos hófst í Geldingadölum hinn 19. mars 2021 þegar klukkuna vantaði korter í níu að kvöldi til.

Um 800 ár voru þá liðin frá því að eldsumbrot urðu síðast á Reykjanesskaganum og enn lengra síðan gaus í Fagradalsfjalli, eða um sex þúsund ár. Ekki er vitað hvort eldgosið þar muni hefjast aftur en blikur eru á lofti um að það hafi markað upphafið að nýju eldsumbrotatímabili á Reykjanesskaga, sem gæti varað í nokkur hundruð ár.

Ólíklegt að eldgosið hefjist á ný

„Það getur gosið á næsta ári, það getur líka gosið eftir 10 ár og líka eftir 100 ár,“ segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur í samtali við Morgunblaðið.

Hann segir allt benda til þess að Fagradalsfjall sé virkt eldgosakerfi á Reykjanesskaganum, og sé ekki statt milli kerfa, eins og hefur verið í umræðunni. Hann segir þó minnkandi líkur á að virknin þar taki sig upp aftur nema það komi til stór skjálfti sem myndi opna gosrásina á ný. Gætu því verið meiri líkur á gosi á öðrum svæðum á Reykjanesinu sem gæti reynst erfiðara viðureignar þar sem það gæti sett innviði í hættu. Til að mynda ef það gysi nálægt Svartsengi.

„Landslagið afmarkaði útbreiðsluna á hrauninu sem skapaði litla hættu fyrir innviði, þéttbýli og þar fram eftir götum. En ef þetta hefði verið flatara land hefði hraunið sennilega farið miklu víðar og þakið stærri flöt. Svo var þetta náttúrlega afllítið gos og því auðvelt að komast nálægt því og kynnast því.“

Að því leytinu til segir Þorvaldur að eldgosið í Fagradalsfjalli hafi verið varfærin viðvörun og góð æfing fyrir bæði íbúa svæðisins og viðbragðsaðila.

Kjósa gos í stað skjálfta

Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkurbæjar tekur í sama streng. Hann segir staðsetningu eldgossins hafa verið afar heppilega og íbúarnir hafi nánast tekið því fagnandi í skiptum fyrir þá tíðu jarðskjálfta sem voru í aðdraganda eldsumbrotanna, en þeir ollu miklum óþægindum fyrir bæjarbúa.

„Þá er ég auðvitað að meina vegna þess að þetta eldgos var á svo góðum stað og var svo meinlítið að það hafði lítil sem engin bein áhrif á okkur. Hins vegar vakti það mikla athygli á bænum þannig að það var allt fullt af ferðafólki, bæði íslensku og erlendu, sem kom til okkar. Það var mjög líflegt í bænum og við rækilega komin á kortið.“

Þá segir hann einstakt að gos verði svo nálægt byggð fyrir utan að sjálfsögðu eldgosið í Heimaey árið 1973.

„Þannig að þetta var afskaplega sérkennilegur tími og það er ekkert sveitarfélag, eða íbúar neins sveitarfélags á landinu, sem hafa síðustu tvö ár búið við annað eins og við hérna í Grindavík.“

Aðspurður segir hann samheldni íbúanna og vilja til þess að halda hinu daglega lífi í sem eðlilegustu horfi standa upp úr þegar hann horfir til baka síðastliðið ár. Þá ríki enn mikil bjartsýni og sóknarhugur meðal íbúa þrátt fyrir tíðindi þess efnis að Reykjanesið sé mögulega að vakna til lífsins með tilheyrandi eldgosatíð.

Mikill lærdómur

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruváreftirlits Veðurstofu Íslands, segir mikinn lærdóm hægt að draga af eldgosinu í Geldingadölum. Um leið og ljóst varð að hraunkvika væri að gera sér leið í gegnum jarðskorpuna hafi Veðurstofan styrkt eftirlitskerfi sitt á svæðinu til muna. Fyrir vikið búum við meðal annars yfir meiri þekkingu á gasmælingum og hraunflæðilíkönum.

Þá nefnir hún einnig dýrmæta þekkingu sem hefur fengist með tilraunum með leiðigarða sem var komið upp til að beina hraunflæði frá svæðum með viðkvæma innviði. „Það er auðvitað mjög mikilvæg reynsla að vita: Hvernig byggjum við svona leiðigarða, hvað er það sem virkar, hversu fljót erum við að því, hvað kostar það, og svo framvegis.“

Hún segir þetta mikilvæga reynslu, ekki síður í ljósi þess að við gætum verið að fara inn í tímabil þar sem búast má við fleiri gosum á Reykjanesinu. „Það var innskotsvirkni síðast í desember. Það reyndist vera helmingi minna en það sem var í febrúar-mars í fyrra. Það er nokkuð sem við megum búast við, að það komi fleiri innskot, meiri skjálftavirkni og að fleiri innskot gerði orðið að eldgosum.“