Einar Örn „Þar sem ég er sögumaðurinn þá eru þetta sjálfsmyndir.“
Einar Örn „Þar sem ég er sögumaðurinn þá eru þetta sjálfsmyndir.“ — Morgunblaðið/Einar Falur
„Alveg eins og ekkert hlé hafi verið dettur mér í hug að hafa sýningu á verkum unninn síðustu tvö ár. Ég kalla sýninguna „afsakið ekkert hlé“ og leyfi ég mér að gægjast út úr helli mínum og deila því sem á daga mína hefur drifið.

„Alveg eins og ekkert hlé hafi verið dettur mér í hug að hafa sýningu á verkum unninn síðustu tvö ár. Ég kalla sýninguna „afsakið ekkert hlé“ og leyfi ég mér að gægjast út úr helli mínum og deila því sem á daga mína hefur drifið.“

Þannig kynnti Einar Örn Benediktsson, listamaðurin fjölhæfi, sýninguna á um 60 nýjum myndverkum sem hann opnar í Gallerí Listamönnum á Skúlagötu 32 í dag, laugardag. Hann hefur haldið ótrauður áfram að vinna í myndum sínum, eins og faraldur hafi aldrei brostið á.

„Ég hef unnið að þessum myndum síðan 2019,“ segir Einar. Upphafið liggur í samstarfi við Damon Albarn og Íslandstónverkið sem hann flutti í Hörpu á dögunum en þar kom Einar einnig fram og vann með myndrænan þátt verksins. Viðfangsefnið þar var veður og „whether people“, eða hvort-er fólk.

„Ég hélt svo áfram með þær myndir. Það var ekkert hlé hjá mér þótt við dyttum inn í kóvíd. Ég kemst stundum að þeirri niðurstöðu að við séum komin inn í hellinn og ég er nútímafrummaður sem geri þessar hellaristur hér. Það er eins og ég sé könnuður og hér eru einhverjar ókennilegar myndir sem reyna að segja sögur. Það eru titlar á þeim öllum myndunum, þær hafa allar sögur í sér. Ég er alltaf að segja sögur og þar sem ég er sögumaðurinn þá eru þetta sjálfsmyndir.“

Einar Örn nam á sínum tíma fjölmiðlafræði og hefur starfað í tónlist ártugum saman. Eftir að hafa verið farinn að vinna í myndlist og sýna reglulega þá skellti hann sér í meistaranám í myndlist. Hverju breytti það?

„Núna er ég í sjónlist frekar en tónlist eða tónlitun. Námið gerði mér kleift að staldra við og hugsa um sjálfan mig og hvað ég væri að gera. Ég var þá að gera teikningar og fékk í byrjun þá krítík að ég væri of öruggur, of „safe“, og þá fór ég að taka teikningarnar sundur og byggja þær upp aftur. Samt hafa þær áfram þann grunnþátt að ég er alltaf að segja sögu.“

Myndsköpunin er alltaf viss axjón hjá Einari. „Ég byrja að teikna en kem svo aftur að myndunum seinna og þá koma frekari smáatriði inn í þær. Eins og þessi,“ – hann bendir á eina myndina: „Hún gæti verið einföld línuteikning en svo er ég búinn að bæta inn smáatriðum eins og hjarta á hvolfi. En myndin heitir „Tindilfættur trítla ég“.

Það er alltaf leikur í þessum myndum, og axjón, þótt mér finnst líka vera ákveðin kyrrð í þeim. Það færist yfir mig kyrrð þegar ég hef klárað myndirnar.

Einu sinni kom kona á sýningu hjá mér og sagði um mynd: Þetta er eins og hjúkrunarkona.

En myndin heitir úti að hjóla, sagði ég.

Þá er þetta hjúkrnarkona úti að hjóla, svaraði hún þá. Það getur allt gerst hér.“ efi@mbl.is