Ekki voru allir kurteisir við bresku hermennina sem hér voru í stríðinu.
Ekki voru allir kurteisir við bresku hermennina sem hér voru í stríðinu. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
Gætinn og ráðsettur borgari leit við á ritstjórn Morgunblaðsins um miðjan mars 1942 með frásögn sem var þess verð að henni væri gaumur gefinn. Ungur enskur hermaður var sum sé að stjórna umferð í Reykjavík, alvarlegur og festulegur á svip.

Gætinn og ráðsettur borgari leit við á ritstjórn Morgunblaðsins um miðjan mars 1942 með frásögn sem var þess verð að henni væri gaumur gefinn.

Ungur enskur hermaður var sum sé að stjórna umferð í Reykjavík, alvarlegur og festulegur á svip. „Þarna bar að íslenskan námsmann, hann gekk til Bretans, gretti sig og rak út úr sjer tunguna fyrir aftan hann, gekk fram hjá honum og í kringum hann og yppti öxlum um leið,“ sagði sá gætni og ráðsetti. „Að þessu loknu gekk hann yfir götuna, en þar stóðu nokkrir skólanemendur. Virtist mjer flestir þeirra láta þetta afskiftalaust, en einhverjir hlógu að afrekum fjelaga síns.“

Sögumanni þótti hermaðurinn taka þessari augljósu móðgun af reisn. „Þykjast þessir þroskalausu unglingar vera að sýna ást sína til föðurlandsins með þessu eða vanþóknun þess vegna? Eða hug sinn til setuliðsins? Eða kannske samúð með nazismanum? Eða er hjer um alstrípaðan og athugalausan strákskap að ræða? Það þykir mjer líklegast. Og svo eru menn að furða sig á að árekstrar verði milli landans og setuliðsmanna. Hver á sökina á þeim?“