„Allt hefur sinn tíma. Verzlun Haraldar Júlíussonar á Sauðárkróki, sem nú hefur starfað í rúma öld, lýkur nú brátt göngu sinni. Verzluninni verður lokað frá og með 31. mars nk. Fram að þeim tíma verða nær allar vörur í versluninni seldar með 50 prósent afslætti svo unnt er að gera þar góð kaup.“
Þetta tilkynna börn Bjarna Haraldssonar kaupmanns; Guðrún Ingibjörg, Helga og Lárus Ingi, á facebooksíðu verslunarinnar, auk starfsmanns hennar í dag, hinnar þýsku Kirsten, eða Kiki.
Bjarni Haraldsson lést 17. janúar síðastliðinn, á 92. aldursári, en hann hafði starfað í versluninni frá unga aldri og nánast fram á síðasta dag. Faðir hans, Haraldur Júlíusson, hóf verslunarrekstur árið 1919 í timburhúsi á sama stað við Aðalgötu og núverandi hús er, sem reist var um 1930. Þar var einnig bensínsala og umboð fyrir BP, síðar Olís, auk þess sem Bjarni stofnaði og rak eigið vöruflutningafyrirtæki um árabil. Um tíma var Byggðasafn Skagfirðinga í samstarfi við verslunina, enda er hún merkilegur minnisvarði um horfna verslunarhætti. „Eins og kunnugt er á verslunin sér fáa líka og þar fæst nánast allt milli himins og jarðar í anda Bjarna Har. Við vonumst til að sjá ykkur öll,“ segir enn fremur á síðu verslunarinnar.
Kiki stendur vaktina út þennan mánuð, frá kl. 12.30 til 17.30 mánudaga og miðvikudaga og kl. 13-18 þriðjudaga, fimmtudaga og föstudaga. bjb@mbl.is