Juuminn! Lay Low og Sigga systir hvumsa.
Juuminn! Lay Low og Sigga systir hvumsa. — Morgunblaðið/Eggert
Ég er ofboðslega mikill áhugamaður um undrun. Það er að segja þegar fólk verður gáttað og virðist ekki vita hvort það er að koma eða fara.

Ég er ofboðslega mikill áhugamaður um undrun. Það er að segja þegar fólk verður gáttað og virðist ekki vita hvort það er að koma eða fara. Bretar eiga mergjað orð um þetta, „flabbergasted“, en ætli við hér í fásinninu myndum ekki láta okkur nægja að segja „hvumsa“.

Eðli málsins samkvæmt þóttist ég því hafa himin höndum tekið þegar kunngjört var í sjónvarpinu mínu að þær Ellenar- og Eyþórsdætur hefðu farið með sigur af hólmi í Söngvakeppninni 2022. Af svip þeirra að dæma bjuggust þær alls ekki við þeirri niðurstöðu enda að etja kappi við gríðarvinsæla hljómsveit með ofursvalt atriði sem teiknað var inn í tíðarandann.

Systurnar voru næstum því eins gáttaðar á svipinn og yfirmaður minn þegar ég tjáði honum á dögunum að ég væri á samskiptaforritinu WhatsApp. Svo mikið varð honum um þau óvæntu tíðindi að hann skrapp í hvíldarinnlögn til útlanda.

Eigi ég að vera alveg heiðarlegur þá missi ég sjaldan svefn yfir Júróvisjón en verð að viðurkenna að ég er mjög spenntur fyrir atriðinu í ár. Lagið er auðvitað ljómandi fínt en mest hlakka ég samt til að sjá hvernig sú hógværa kona Lay Low tekur sig út í glamúrsirkusnum sem senn fer í hönd enda leitun að óglysgjarnari og jarðbundnari Íslendingi. Gangi henni vel! Og þeim öllum!

Orri Páll Ormarsson

Höf.: Orri Páll Ormarsson