Landeldi Laxinn verður alinn í stærri kerum en hér hafa sést.
Landeldi Laxinn verður alinn í stærri kerum en hér hafa sést. — Morgunblaðið/Eggert
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Unnið er af fullum þunga að undirbúningi nokkurra nýrra landeldisstöðva hér á landi.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Unnið er af fullum þunga að undirbúningi nokkurra nýrra landeldisstöðva hér á landi. Ef öll áform ganga eftir verður framleiðslugeta stöðva sem stunda landeldi á laxi og bleikju vel yfir 100 þúsund tonn á ári, jafnvel meira en talið er að sjóeldið geti annað, og hún kemst í gagnið smám saman á næstu átta árum. Samhliða uppbyggingu er hugað að nýtingu úrgangs. Meðal annars eru áform um stórfellda matjurtaræktun í gróðurhúsum innan stöðvanna með affallsvatni.

Forsvarsmenn helstu fiskeldisfyrirtækja landsins sögðu frá starfseminni á fræðsluráðstefnu Lax-inn í Hörpu í gær. Til þess að framleiða 100 þúsund tonn af laxi í landstöðvum þarf mörg hundruð starfsmenn, auk afleiddra starfa og starfa við uppbyggingu.

Landeldi í framkvæmdum

Landeldi (Deep Atlantic) er komið lengst í undirbúningi. Þar eru framkvæmdir hafnar á lóð við Þorlákshöfn. Seiði verða sett út í ker í stöðinni í næsta mánuði þótt stöðin sé enn í byggingu. Þau færast síðan í stærri ker þegar þau verða tilbúin. Fyrsta laxinum verður slátrað seinni hluta næsta árs. Stöðin á að byggjast upp í áföngum þangað til þar verður hægt að framleiða 33 þúsund tonn af laxi.

Samherji er að undirbúa mikla landeldisstöð í Auðlindagarðinum á Reykjanesi. Unnið er að undirbúningi samkvæmt áætlun en áformað er að hefja framkvæmdir á næsta ári og hefja slátrun á árinu 2026. Í fullbyggðri stöð verður hægt að framleiða 40 þúsund tonn af laxi. Samherji er með landeldi á nokkrum stöðum. Nú standa yfir framkvæmdir við stækkun Silfurstjörnunnar í Kelduhverfi en sú uppbygging er hugsuð til að reyna þær aðferðir sem notaðar verða á Reykjanesi.

GeoSalmo er með áform um að framleiða 20-24 þúsund tonn af laxi á lóð sem fyrirtækið hefur fengið við Þorlákshöfn. Byggt verður upp í áföngum. Undirbúningur stendur yfir.

Sameldi á laxi og matjurtum

Jens Þórðarson framkvæmdastjóri GeoSalmo sagði á fundinum að áformað væri að koma upp gróðurhúsum til að nýta næringarríkt affallsvatn úr endurnýtingakerfi seiðastöðvar til matjurtaræktunar. Vatni verður veitt úr kerunum beint inn í gróðurhús og munu plönturnar taka næringu sína úr vatninu. Þetta er kallað samræktun. Jens sagði að ekki væri búið að móta stefnuna um það hversu stórt gróðurhúsið yrði eða hvaða jurtir ætti að rækta. Jurtirnar væru hugsaðar fyrir innanlandsmarkað og eftir er að kanna hvað hentar best fyrir markaðinn. Jens nefndi kál, ber og kryddjurtir. Hann sagði að hægt yrði að markaðssetja graflax með kryddjurtum úr gróðurhúsinu!

Á fundinum ræddu stjórnendur landeldisfyrirtækjanna ýmsar hugmyndir um nýtingu úrgangs frá stöðvunum, meðal annars dauðfisk og slóg, auk laxamykju. Rætt var um áburðarframleiðslu til uppgræðslu, metan- og bíódísilframleiðslu og fleira. Auk þeirra stöðva sem nefndar hafa verið hér að framan áformar Matorka að stækka bleikjustöð sína í Grindavík og í Vestmannaeyjum eru áform um sjálfbært landeldi.