Dekur Nemendur í Grunnskóla Þórshafnar láta sér líða vel í skóla-spainu þar sem þeir gefa og þiggja dekur.
Dekur Nemendur í Grunnskóla Þórshafnar láta sér líða vel í skóla-spainu þar sem þeir gefa og þiggja dekur. — Morgunblaðið/Líney Sigurðardóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úr bæjarlífinu Líney Sigurðardóttir Þórshöfn Skóla-spa er fastur liður í skólastarfi á miðstigi í Grunnskólanum á Þórshöfn.

Úr bæjarlífinu

Líney Sigurðardóttir

Þórshöfn

Skóla-spa er fastur liður í skólastarfi á miðstigi í Grunnskólanum á Þórshöfn. Eins og nafnið gefur til kynna þá er um að ræða vísi að lítilli heilsulind, þar sem nemendur skiptast á að gefa og þiggja dekur og dúllerí. Útbúinn var lítill hjólavagn með ýmsu snyrti- og dekurdóti og fékk hann nafnið vellíðunarvagninn en það tengist einkunnarorðum skólans, sem eru virðing, virkni, vinsemd og vellíðan.

Einn föstudag í mánuði er vagninum rúllað inn í bekkjarstofuna og nemendurnir eru orðnir leiknir í að setja sjálfir upp þessa litlu heilsulind. Nokkrar stöðvar eru settar upp og fara nemendur á milli stöðva og skiptast á að gefa og þiggja dekur, nudd og notalegheit. Í boði er andlitshreinsun og nudd, handa- og naglastöð, fótabað með nuddi og fleira.

Tvær kennslustundir fara í dekrið og yfirmarkmiðið er að efla vináttu, tengsl og traust nemenda en veita jafnframt slökun, ró og vellíðan. Kertaljós, slökunartónlist og snarkandi „arineldur“ í sjónvarpinu koma í stað björtu flúorljósanna og dýnur eru á gólfinu. Nemendur fóru hægt af stað í fyrstu og einhverjir héldu sér aðeins til hlés í byrjun en núna eru allir virkir þátttakendur og óska ákveðið eftir sínum spa-tíma einn föstudag í mánuði. Markmiðinu er þá náð, skóla-spa orðið fast í sessi og nemendur vinna saman að vellíðan allra.

Lítill hugur er í smábátasjómönnum á Þórshöfn varðandi grásleppuvertíð, enn sem komið er, en veiðar má hefja á sunnudaginn (20. mars). Einn viðmælandi sagði útlitið svartara en í fyrra en þá var mikið veitt og almennt áhugaleysi er nú hjá kaupendum sem virðast eiga nægar birgðir frá síðustu vertíð. „Verð er líka almennt lágt, eftir því sem við heyrum og mikið óselt frá síðustu vertíð, svo flestir bíða rólegir og sjá hvernig málin þróast. Ég hef ekki heyrt um neinn ákveðinn hér á okkar svæði sem ætlar að hefja veiðar fljótlega. Það eru hins vegar allir að verða til og með nýfelld net, svo ef eitthvað glæðist þá erum við klárir,“ sagði Halldór R. Stefánsson á Þórshöfn.

Viðræður um sameiningu sveitarfélaganna Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps eru nú á lokasprettinum en gengið verður til kosninga um málið næsta laugardag, 26. mars.

Haldnir hafa verið margir kynningarfundir þar sem íbúum gafst færi á að ræða niðurstöður samstarfsnefndar um sameiningarmálin en síðasti kynningarfundurinn var haldinn nú í vikunni. Þar komu fram ýmis sjónarmið íbúa og var hægt að taka þátt í fundinum bæði rafrænt sem og í félagsheimilinu. Á fundinum var kynning á framtíðarsýn samstarfsnefndarinnar og forsendum fyrir sameiningartillögu hennar og síðan opnað á umræður og fyrirspurnir fundargesta. Sem fyrr komu m.a. fram vangaveltur um jarðeignir sveitarfélaganna og fyrirkomulag á rekstri þeirra en stofnaður verður jarðasjóður um eignirnar. Tekjur jarðasjóðs munu ganga alfarið inn í sveitarsjóð og um sjóðinn gilda afar strangar reglur og nokkuð flóknar, í þeim tilgangi að torvelda jarðasölu því almennt er skoðunin sú að það sé hagur byggðarlagsins að jarðirnar tilheyri því en verði ekki seldar. Ýmsar spurningar komu fram sem svarað var af bestu getu en stóra spurningin sem eftir stóð á fundinum var þessi: „Hvort leysum við verkefnin okkar betur í einu sameinuðu sveitarfélagi eða tveimur?“