Guðmundur Eggert Óskarsson fæddist 29. apríl 1935. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð 8. febrúar 2022.

Foreldrar hans voru Óskar Eggertsson, lengst af bústjóri á Kópavogsbúinu, f. í Hjörsey í Mýrasýslu 1897, d. 1978, og Guðrún Einarsdóttir, húsfreyja frá Hjarðarnesi á Kjalarnesi, f. 1899, d. 1989. Guðmundur var yngstur fjögurra bræðra. Elstur var Magnús, f. 1927, d. 2019, kennari við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, svo Einar, f. 1930, d. 2016, trésmíðameistari, og loks tvíburarnir Jóhann Stefán, d. 1946, og Guðmundur Eggert.

Guðmundur var fæddur í Kópavogi. Faðir hans var bústjóri á Kópavogsbúinu við Hressingarhælið, sem var í fyrstu rekið af Kvenfélaginu Hringnum en síðar ríkinu, og ólst Guðmundur þar upp. Guðmundur var búfræðingur en starfaði alla sína tíð hjá Kópavogskaupstað, fyrst sem bílstjóri, síðar sem ármaður hjá Strætisvögnum Kópavogs og loks sem húsvörður í Digranesskóla. Guðmundur var einn af stofnendum Breiðabliks og lengi gjaldkeri félagsins.

Útför Guðmundar fór fram 17. febrúar 2022 frá Kópavogskirkju.

Guðmundi kynntist ég ungur, reyndar man ég varla eftir mér áður en kynni okkar hófust. Hann var stoð og stytta pabba míns á vinnustaðnum og alltaf kallaður „Guðmundur okkar“ í innsta hring, til aðgreiningar frá nöfnum hans. Þá var starfssvið hans býsna stórt, en hvergi skilgreint í neinni hvítbók. Til hægðarauka var hann titlaður ármaður, þar sem ábyrgð hans var jafnan mikil, hollustan og heilindin óvefengjanleg.

Þegar ég stofnaði fjölskyldu átti ég því láni að fagna að leigja íbúð í húsi Einars, bróður Guðmundar, í næsta húsi við Guðmund og móður þeirra bræðra. Þar sveif ljúfmennska og hógværð jafnan yfir vötnum. Síðustu árin var ég stundum í símasambandi við Guðmund og var þar eins og endranær, æðruleysið og rólyndið leyndi sér ekki þótt aldurinn færðist yfir hann.

Við kveðjum ljúfan samstarfsmann og granna með þökk í hjarta.

Jóhannes Hraunfjörð Karlsson og Ólöf Pétursdóttir.