Innrás rússneskra stjórnvalda í Úkraínu og miskunnarlausum hernaðaraðgerðum þeirra þar var harðlega mótmælt af fólki sem gekk frá Hallgrímskirkju að sendiráði Rússa í Reykjavík. Um 600 manns tóku þátt í mótmælagöngunni.
Innrás rússneskra stjórnvalda í Úkraínu og miskunnarlausum hernaðaraðgerðum þeirra þar var harðlega mótmælt af fólki sem gekk frá Hallgrímskirkju að sendiráði Rússa í Reykjavík. Um 600 manns tóku þátt í mótmælagöngunni. — Morgunblaðið/Óttar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stríðsrekstri Rússa í Úkraínu var mótmælt með fjölmennri andófsgöngu frá Hallgrímskirkju að sendiráði Rússlands.

Stríðsrekstri Rússa í Úkraínu var mótmælt með fjölmennri andófsgöngu frá Hallgrímskirkju að sendiráði Rússlands.

Systurnar Sigríður , Elísabet og Elín Eyþórsdætur (Sigga, Beta og Elín) sigruðu í undankeppni Evrósjón, söngvakeppni Ríkisútvarpsins, með laginu Með hækkandi sól. Þær báru sigurorð af Reykjavíkurdætrum, en óhætt er að segja að aðdáendur hinna síðarnefndu hafi tekið ósigrinum illa.

Ásdís Kristjánsdóttir hlaut afgerandi kosningu í 1. sæti á lista sjálfstæðismanna í Kópavogi, en keppinautur hennar um það sæti í prófkjörinu féll langt niður lista.

Sjálfstæðismenn í Rangárþingi ytra héldu einnig prófkjör, þar sem Ingvar Pétur Guðbjörnsson varð hlutskarpastur í baráttu um efsta sætið. Þingmaðurinn Ásmundur Friðriksson , sem keppti að sama marki, komst hins vegar ekki á blað um sex efstu sætin.

Fyrstu farfuglarnir eru farnir að tínast til landsins og líst ekkert á blikuna. Skúmurinn er kominn, nokkrar álftir, grágæsir og skógarþrestir, en lóan hefur enn ekki látið á sér kræla og lái henni hver sem vill á þessu nístingsvori.

· Rússar héldu áfram stórskotahríð á borgir í Úkraínu og er talið að þrjár milljónir manna hafi flúið landið á jafnmörgum vikum, en auk þess eru milljónir á vergangi innan landsins undan hernaði Rússa.

Búist er við um 300 flóttamönnum til landsins á næstunni, en þegar hafa 179 manns með úkraínskt ríkisfang óskað verndar hér á landi frá því innrásin hófst, margir með fyrri tengsl við Ísland.

Elkem hefur þurft að draga úr framleiðslu á kísilmálmi í verksmiðju sinni á Grundartanga vegna skertrar raforkuafhendingar Landsvirkjunar, sem aftur má rekja til bágrar stöðu í uppistöðulónum virkjana.

Hins vegar vantaði ekki ofankomuna í endalausum og ömurlegum veðrum , sem gengu yfir landið.

Heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytin, sem haft hafa aðstöðu í Skógarhlíð, þurfa að yfirgefa bygginguna vegna myglu .

Utanríkisráðherra greindi frá því að nýtt sendiráð yrði opnað í Varsjá í Póllandi í haust. Pólland hefur haft sendiráð á Íslandi frá 2013, en hér á landi búa hátt í 30 þúsund manns af pólsku bergi brotin, en í Póllandi er einnig mikið af fólki með tengsl við Ísland frá fyrri dvöl.

Harpa, tónlistarhöll alþýðunnar, var sektuð um milljón krónur vegna óþarfrar og ólögmætrar söfnunar á persónuupplýsingum við miðasölu á netinu. Harpa vildi bæði vita kennitölu og fæðingardag kaupenda.

· Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands tók á móti Katrínu Jakobsdóttur og öðrum kollegum þeirra frá Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjum, sem eru í svonefndum JEF-ríkjahópi. Þau fordæmdu innrásina í Úkraínu og lýstu þungum áhyggjum af stöðunni.

Hagstofan birti upplýsingar um lífskjör heimilanna, sem bentu til þess að ástandið væri bærilegt og raunar aldrei færri, sem áttu í erfiðleikum með að láta enda ná saman um mánaðamót.

Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri vekur athygli á því að hefja þurfi undirbúning vegna beislunar vindorku úti á sjó sem fyrst, því rannsóknir geti tekið allt að áratug áður en hefjast má handa við að setja upp vindmyllur undan landi.

Gert er ráð fyrir að húsnæði fyrir ósakhæft fólk verði tilbúið suður með sjó ekki síðar en snemma árs 2024, en senn verður kynnt frumvarp um vistun þess og aðbúnað.

Eliza Reid forsetafrú átti fund vestanhafs með Jill og Joe Biden , forsetahjónum Bandaríkjanna, og fór vel á með þeim. Forsetafrúin tók jafnframt þátt í hátíðinni Taste of Iceland í Washingtonborg, þar sem kynna mátti sér Ísland í mat, drykk og menningu.

· Dauðsföllum hefur fjölgað í elstu aldurshópum að undanförnu og er líklegt talið að kórónuveiran komi þar við sögu.

Frambjóðendur í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík vilja margir taka upp samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og telja útfærslu borgarstjóra á borgarlínunni fjarstæðukennda.

Ríkislögreglustjóri undirbýr mögulega þátttöku íslenskra lögregluþjóna í FRONTEX, landamæragæslustofnun Evrópu, sem hefur fjölgað mjög í liði sínu í Austur-Evrópu vegna innrásarinnar í Úkraínu.

Heilbrigðisráðherra svaraði fyrirspurn á Alþingi um undanþágur frá sóttvarnareglum, en samkvæmt svörunum voru engar undanþágur í gildi á Bessastöðum við afhendingu bókmenntaverðlauna í janúar, þvert á það sem haldið var fram þá.

Skáksambandið hyggst efna til veglegrar afmælishátðar vegna þess að 50 ár eru liðin frá „einvígi aldarinnar“ þegar Bandaríkjamaðurinn Bobby Fischer lagði rússneska heimsmeistarann Borís Spasskíj í miðjum frosthörkum kalda stríðsins fyrra.

Verkalýðsbaráttan náði nýjum hæðum þegar verkalýðshreyfingin logaði í illdeilum milli helstu forystumanna og hópa. Í aðsigi mun vera mótframboð gegn Drífu Snædal , forseta Alþýðusambands Íslands.

Ár er liðið frá því að eldgos hófst í Fagradalsfjalli, en það reyndist vera meðalstórt. Talið er að þar á svæðinu kunni að gjósa aftur á 20-25 ára fresti.

Ráðgert er að reisa tilraunahús úr hampsteypu , en hampræktendum hefur fjölgað mjög hér á landi. Hún hefur ekki áður verið notuð hér á landi og því ástæða til þess að kanna hvort hún stenst íslenska veðráttu.

·Um þrjú hundruð flóttamenn eru komnir til Íslands frá Úkraínu, en ekki hefur reynst vandalaust að finna þeim húsnæði og búist við að allt að 1.500 manns bætist við á næstu vikum og mánuðum.

Eitthvað mun hafa á því borið að flugfélög hafi neitað að skrá í flug úkraínsk börn án vegabréfa. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sagði að rætt hefði verið við þau vegna þessa, svo að fjölskyldur á flótta yrðu ekki á flæðiskeri á flugvöllum ytra.

Önnur fyrirhuguð gestakoma vakti þó ekki minni athygli, því greint var frá því að von væri á bandarísku poppstjörnunni Katy Perry til landsins í sumar til þess að gefa skemmtiferðaskipi nafn við Skarfabakka í Reykjavík.

Staðfest var að dauðsföllum vegna farsóttarinnar hefur fjölgað að undanförnu, en alls hefur nú 91 látist með Covid-19, þar af 54 frá áramótum.

Í Vík hafa menn verið í óðaönn við að flytja sand, sem þangað hefur fokið í vetur, aftur niður í fjöru, svo hann geti fokið aftur í þorpið næsta vetur.

Ráðstöfunartekjur á mann jukust um 7,5% á liðnu ári, en kaupmáttur jókst um 1,1%. Launagreiðslur hækkuðu um 155 milljarða króna frá 2020 til 2021, bæði vegna kauphækkana og minna atvinnuleysis.

Heimsfaraldurinn hefur haft mikil áhrif á biðlista eftir ýmsum skurðaðgerðum og er biðin nú orðin meiri en Landlæknir miðar við að hún megi mest vera.

Tap af alþjónustu Íslandspósts hefur numið um 6,6 milljörðum króna síðastliðin áramót, en á aðalfundi hans kom fram að rekstrarhagnaður hefði verið á síðasta ári, alls um 256 m.kr., en það gerðist þó aðeins vegna 560 m.kr. framlags frá Byggðastofnun.

Fjármálaráðherra ákvað að fela Bankasýslu ríkisins að selja það sem eftir stendur af hlut ríkisins í Íslandsbanka , alls um 65% hluta.

Prófkjör sjálfstæðismanna í Reykjavík hófst á föstudag og fór vel af stað. Í sama mund voru framsóknarmenn að tygja sig á fyrsta flokksþing sitt í fjögur ár.

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði frá máli Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á hendur SanteWines vegna netverslunar með vín.