Kristinn Pétursson
Kristinn Pétursson
Eftir Kristin Pétursson: "Við verðum öll að sætta okkur við svipaðar skerðingar í því ástandi sem nú ríkir, hvort sem við heitum fjármagnseigendur eða aðrir eigendur."

Ísland er eyja í Atlantshafinu sem flytur inn stóran hluta neysluvara og hrávara. Einnig flytur Ísland út mikið af neysluvörum til annarra landa.

Tilgáta er hér að það sé að taki almennt um sex mánuði frá framleiðslu vöru á Íslandi, til útflutnings, þar til varan fæst greidd. Svipaðan tíma tekur einnig að selja vöru á Íslandi, frá því varan er keypt erlendis.

Almennt séð virðist mér því mismunur fyrir fyrirtæki á Íslandi og fyrirtæki almennt erlendis að „tímamismunur“ – að fá greitt/greiða vöru – sé um sex mánuðir. Þetta leiðir af sér að áhrif vaxta á rekstur fyrirtækja á Íslandi geti verið 1:6 eða um 600% meiri hérlendis um fjármögnun þessa sex mánaða biðtíma. Óþarfi er að fara að þræta um erlenda vexti í þessu sambandi, mismunurinn verður alltaf þessi 1:6.

Ástæðan fyrir þessari blaðagrein er að benda á það, að lítið hefur verið rætt um áhrif vaxta á þennan þátt atvinnurekstrar. Þetta er sérstaða íslenskra fyrirtækja – við erum á „skeri“ í Atlantshafinu – og það þarf að sigla með vörur langa leið í tilfelli A og B. Svona séríslensk atriði eru fleiri og þarf að meta þegar gerðar eru sviðsmyndir um áhrif af hækkun vaxta á Íslandi.

Íslensk fyrirtæki hafa svo gjarnan (því miður) lægra hlutfall eigin fjár en almennt erlendis. Skuldastaða er þá samsvarandi hærri og áhrif vaxta meiri að því leyti.

Almenningur á Íslandi er einnig með lægra hlutfall eigin fjár í íbúðum sínum/einbýlishúsum en víða erlendis.

Allt ber þetta að sama brunni. Hækkun vaxta í íslensku efnahagslífi kann að hafa 600% öflugri áhrif á rekstur fyrirtækja (pressu um verðhækkanir frá fyrirtækjum) og svo lífskjör almennings en almennt erlendis.

Hvað varðar umræðu um „neikvæða raunvexti“ þá eru í dag sérstakar aðstæður – styrjöld/hækkandi orkuverð/hækkandi flutningskostnaður/daglegar hækkanir á hrávörum og neysluvörum sem hækka verðlag og skerða afkomu fyrirtækja og lífskjör almennings.

Með tilvísun í „meðalhófsreglu“ má segja að fjármagnseigendur verði að sætta sig við að það tapa allir í svona stöðu. Hlutverk Seðlabankans er þá að reyna að gæta jafnvægis í peningamálum og varla neitt óeðlilegt við að Seðlabanki meti það rökrétt að „allir tapi svipað“ til að halda jafnvægi í efnahagsmálum.

Mér finnst rangt að fjalla um vaxtamál þannig að fjármagnseigendur séu „jafnari en aðrir“. Fjármagnseigendur á Íslandi fá hærri vexti en erlendis og þurfa tæplega enn hærri ávöxtun en það. Gengi krónunnar er einnig sterkt svo þarna eru bæði belti og axlabönd hvað varðar fjármagnseigendur. Við verðum öll að sætta okkur við einhverjar skerðingar í ríkjandi ástandi sem við vonum að lagist sem fyrst.

Seðlabanka Íslands tókst afskaplega vel að leiða okkur gegnum Covid-kreppuna og þar sannaðist árangur af því að lækka vexti og hvað áhrifin voru mikil. Þetta er eitt besta dæmi um árangur í kjarkmikilli stjórn peningamála á Íslandi.

Á sama hátt vona ég að Seðlabanki Íslands leiði okkur gegnum stjórn peningamála þannig að við komumst í gegnum sérstæðar ríkjandi aðstæður með sem minnstum skaða.

Höfundur starfar sem ráðgjafi í orkumálum. krp@simnet.is

Höf.: Kristin Pétursson