Félagar í Félagi grunnskólakennara samþykktu nýgerðan kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga í atkvæðagreiðslu sem lauk klukkan tíu í gærmorgun. Á kjörskrá voru 5.170 og greiddu 3.610 atkvæði um samninginn eða 69,83%. Já sögðu 2.254 eða...

Félagar í Félagi grunnskólakennara samþykktu nýgerðan kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga í atkvæðagreiðslu sem lauk klukkan tíu í gærmorgun. Á kjörskrá voru 5.170 og greiddu 3.610 atkvæði um samninginn eða 69,83%. Já sögðu 2.254 eða 62,44%. Nei sögðu 1.161 eða 32,16%. Auðir seðlar voru 195.

Grunnskólakennarar felldu fyrr í vetur samning sem samninganefndirnar undirrituðu en skrifað var undir nýja samninginn sem nú hefur verið samþykktur 10. mars sl.

Kjarasamningurinn er afturvirkur og gildir frá 1. janúar síðastliðnum til 31. mars á næsta ári. Samkvæmt honum hækka launatöflur um 25 þúsund kr. á mánuði frá og með 1. janúar sl. í samræmi við hækkanir lífskjarasamninganna, skv. kynningu á vefsíðu Kennarasambandsins. Samið var um hækkun annaruppbóta sem greiddar eru 1. júní og 1. desember á þessu ári sem verða 96 þúsund krónur. Kveðið er á um að hagvaxtarauki verði virkur 1. maí næstkomandi, sem feli í sér 10.500 kr. launaauka. Ýmis ákvæði samningsins kveða á um aukinn sveigjanleika, s.s. við fjarvinnu sem og tíma til undirbúnings og úrvinnslu kennslu. Sérstökum innleiðingarhópi er falið að aðstoða við útfærslu þessa. Þá er í samið um að ef kennara er falið að sitja fundi sem fara umfram fjórar klukkustundir á viku skuli greiða yfirvinnu fyrir viðbótartímann. Í bókun er starfshópi falið að skoða núgildandi launatöflu þar sem bil á milli launaflokka hefur minnkað í kjölfar krónutöluhækkana. Á hann að skila tillögum fyrir 1. mars á næsta ári.