Nú vomir yfir okkur staða sem enginn óskaði sér – gat jafnvel ekki ímyndað sér. Og krefur okkur um afstöðu sem er hafin yfir trúarkenningar, menningarlegan bakgrunn eða siðferðis-tilfinningarnar góðu, sem geta verið svo næmar fyrir sveiflum og brigðular í raun, þegar allt kemur til alls.
Hin persónulega og staðbunda vídd lífs okkar sem einstaklinga skiptir máli og að í hverju efni mætum við fólki á flótta á þeirra eigin forsendum. Rætur kristinnar menningar á Íslandi liggja aftur í sögunni til Kænugarðs þaðan sem landnámsmenn og víkingar báru erlenda strauma heimsmenningarinnar til landsins. Úkraínska þjóðin er öll sem ein í sárum, óbætanlegar menningarminjar um rúmlega þúsund ára sögu kristindóms í landinu eru í skotlínu átaka, mannfall er mikið og óbreyttir borgarar falla á hverjum degi. Við Íslendingar sem þjóð eigum ótalmargt svo innilega sameiginlegt með bræðrum og systrum í Úkraínu þar sem evrópsk og nútímaleg gildi hafa verið ríkjandi á síðustu árum. Því er það áskorun mín til okkar allra að taka þeim fagnandi og undirbúa starf safnaðanna þannig að kirkjan sem einn af hornsteinum íslenskrar menningar sé reiðubúin til að taka vel á móti þeim sem hingað leita.
... og þú fæddir mig
Aðstoð við flóttafólk er langtímaverkefni og því miður lítur út fyrir, með hverjum deginum sem líður, að vandamálið sem Evrópa mun takast á við í kjölfar þessa stríðs verði stærra en nokkur ímyndaði sér á fyrstu dögum innrásar Rússa. Áætlað er að yfir þrjár milljónir séu á flótta bæði innan og utan lands; fólk með djúpar rætur á svæðum þar sem ætlað var að ekki yrði barist, fólki, sem ætlaði sér hvergi því engu skipti hvaða stjórnvald ríkti þar, hefur nú verið skipað af stríðandi fylkingum að yfirgefa borgir og bæi þar sem íbúabyggðir, heimili fólks og almenningsgarðar, séu nú vígvöllur. Hvorki hinum fornu kirkjum fólksins eða hinum nýbyggðu eru grið gefin. Þau sár eru og verða djúp og munu seint gróa.Í kirkjum landsins kann að finnast hjartarými og næði til bæna og sálgæslu með fólki á flótta, hvaðan sem það flýr. Við gerum ekki upp á milli þeirra sem til okkar leita og berum öll ábyrgð á því að vera upplýst og styðjandi, hvert og eitt sem kristnar manneskjur fyrst og fremst. Megi prestar njóta þeirrar náðar að fræða og byggja safnaðarfólk sitt upp svo við getum öll tekið með einhverjum hætti á með þeim öllum sem róa að sama marki um þessar mundir. Að tilheyra hinni biðjandi og friðelskandi kirkju Krists hér í heimi kann að vera sumum huggun harmi gegn, þegar öll virðumst við ráðalaus og máttlítil.
Eina andsvarið við illskunni er kærleikur
Ágústínusi kirkjuföður eru eignuð fleyg orð sem kjarna þá hugsun sem við þurfum öll sem eitt að hafa í huga á ófriðartímum. Ubi Caritas Ibi Deus Est – en það má útleggja sem svo að hvar sem kærleikann er að finna í verki, þar sé Guð. Sá Guð er yfir kenningarmun kirkna og trúarbragða hafin. Það er sá kærleikans Guð sem hefur okkur birst í heimi og verið píndur og deyddur í herteknu landi. Það er sá Guð sem við játum í Jesú Kristi, sem upp reis og sigraði dauðann, lögmál heims og heljar. Á komandi vikum skulum við taka höndum saman, huga að hinum líðandi og biðja, með vonarljós páskanna fyrir hugskotssjónum. Við biðjum þess að friður og eining þess Guðsríkis sem er bæði hið innra og á meðal okkar, hvar sem kærleikans verk er unnið, megi verða líkn við þraut í heimi þar sem sundrung, ótti og örvænting blasir við. Það eina góða sem hlýst af illum verkum er að sameina marga um hið góða.
Að tilheyra er tákn samkenndar
Stundum er spurt – hvað er hið illa? Hver eru hin illu verk og hverju áorkar haturshugur? Hvaðeina sem sundrar, það sem særir og meiðir fólk. Það sem rífur tengsl þess á milli; það er græðgin, öfundin og afbrýðissemin sem tortryggir; hugarfar Kains sem vó bróður sinn. Þjóðardýrlingar Úkraínumanna eru m.a. hinir helgu bræður hl. Boris og hl. Gleb. Þeir mættu illu með góðu, mættu myrkri launráða og skammarlegum morðtilræðum með ljós eilífs lífs í hjarta. Af friðarhug. Það er hið illa sem sundurdreifir – og því, með kærleikans verk fyrir höndum, þá skulum við sem bræður og systur úkraínsku þjóðarinnar og saklauss almennings í Rússlandi líka, taka höndum saman og vera einhuga í því verkefni að taka í kærleika á móti öllum þeim sem hingað flýja hörmungar stríðs og skorts.
Höfundur er sóknarprestur á Staðastað. stadarstadur@gmail.com