„Fyrst þegar ég heyrði Crazy Train þá var það kúl grúvið en síðan kom þessi vöruflutningalest í gervi gítars æðandi inn. Þetta var í fyrsta sinn sem ég heyrði rokklag og varð hræddur þegar gítarinn byrjaði.“ Þannig komst gítarséníið Steve Vai einu sinni að orði í sjónvarpsviðtali um þekktasta lagið sem Randy Rhoads gaf út.
Hann er ekki sá eini sem sótt hefur innblástur í leik Rhoads gegnum tíðina. Nefna má Dimebag Darrell og Kirk Hammett. Þá sagði Tom Morello úr Rage Against the Machine einu sinni: „Randy Rhoads er á vissan hátt Robert Johnson málmsins. Það liggur ekki margt eftir hann en það hefur haft gríðarleg áhrif.“
Tommy Aldridge, sem lék á trommur með bandi Ozzys, segir samvinnuna við Rhoads hafa verið hápunktinn á sínum ferli. „Að vinna með mönnum eins og Randy Rhoads er magnað, þeir rífa mann upp á hnakkadrambinu og lyfta manni upp á sitt plan.“