[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Guðni Einarsson gudni@mbl.is Hafnarfjarðarbær hefur óskað eftir því að Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, sjái til þess að álagi vegna mikils fjölda flóttafólks verði dreift með jafnari hætti á sveitarfélögin.

Fréttaskýring

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Hafnarfjarðarbær hefur óskað eftir því að Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, sjái til þess að álagi vegna mikils fjölda flóttafólks verði dreift með jafnari hætti á sveitarfélögin. Þetta kom fram í bréfi Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra 17. mars.

Félagsmálaráðuneytið sendi sveitarfélögum erindi vegna móttöku flóttafólks 9. mars og leitaði eftir þátttöku þeirra í því verkefni.

Í bréfi Rósu segir að Hafnarfjarðarbær hafi verið með samning við Útlendingastofnun um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd frá 2015. Hann kveði á um að veita allt að 100 umsækjendum þjónustu og húsnæði. Nýlega fréttu bæjaryfirvöld að Útlendingastofnun hefði tekið á leigu tvö hótel í Hafnarfirði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Þar dvelja nú 102 en pláss er fyrir 150.

„Hafnarfjarðarbær gerir alvarlega athugasemd við það að ekkert samráð var haft við fulltrúa sveitarfélagsins við þessa ráðstöfun Útlendingastofnunar. Fullur skilningur er á því að staðan í málaflokknum er mjög erfið og fjöldi þeirra sem leita hér eftir alþjóðlegri vernd hefur aukist mikið síðustu mánuði,“ segir í bréfinu.

„Nú er svo komið (að) sveitarfélagið er komið að þolmörkum og innviðir, s.s. grunnskólar og leikskólar, standa ekki undir þeirri þjónustu sem sveitarfélagið vill veita þessum hópi,“ segir í bréfinu. Þá er þess getið að Hafnarfjörður sé eitt fimm sveitarfélaga sem hafa gert samning við félagsmálaráðuneytið um samræmda móttöku flóttafólks sem fengið hefur alþjóðlega vernd. Hann er þegar fullnýttur og meira til. „Þar sem Útlendingastofnun hefur án samráðs nú þegar fjölgað umsækjendum um meira en eitt hundrað í sveitarfélaginu má gera ráð fyrir að stóraukið álag verði í samræmdu móttökunni,“ skrifar Rósa.

Þá er vakin athygli á því að þessi staða var komin upp áður en móttaka flóttamanna frá Úkraínu hófst. Bæjarstjórinn segir að Hafnarfjarðarbær hafi fullan hug á að taka þátt í því, en það blasi við að fleiri sveitarfélög verði að koma að móttöku flóttafólks. Sveitarfélagið er reiðubúið að veita öðrum ráðgjöf og stuðning til að sinna málum flóttafólks sem allra best.

Mörg sveitarfélög verða með

„Mörg sveitarfélög eru þessa dagana að samþykkja að taka þátt í samræmdri móttöku flóttafólks í samvinnu við ríkisstjórnina,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjóri í Hveragerði. Hún segir mikilvægt að það liggi alveg ljóst fyrir hvað felst í þessari móttöku flóttafólksins og fyrir hvað ríkisstjórnin ætlar að greiða varðandi hana.

„Þetta þarf að vinna hratt því flóttafólkið er sumt hvert þegar komið, eins og til dæmis í mitt sveitarfélag. Við þurfum að fá fljótt svör frá ríkinu um hver borgar hvað,“ segir Aldís. Hún segir að sveitarfélögin geri ráð fyrir að fá greiðslur frá ríkinu fyrir móttöku flóttamanna, eins og var gert t.d. vegna samræmdrar móttöku flóttafólks frá Sýrlandi og fleiri. Ríkisstjórnin borgaði þá húsaleigu, framfærslu, skólakostnað barna og fleira. Aldís segir að nú sé verið að ræða úrbætur á þessum samningum. Kostnaður hafi reynst meiri en samningarnir gerðu ráð fyrir. Eins þurfi þeir líka að gilda til lengri tíma en hingað til.

Sveitarfélög sýna áhuga

Sveitarfélög hafa tekið vel í erindi félags- og vinnumarkaðsráðherra um að taka á móti flóttafólki frá Úkraínu og hafa sýnt verkefninu mikinn áhuga, að sögn ráðuneytisins.

Sveitarfélög hafa bæði sent inn formlegt svar og óskað eftir frekari upplýsingum. Fimm sveitarfélög eru með samning við ráðuneytið vegna móttöku flóttafólks. Auk þess hafa tíu sent formlega beiðni um frekari upplýsingar. Fyrirhugaður er fundur í næstu viku þar sem móttaka flóttafólks er kynnt betur fyrir sveitarfélögum.

Þrjú sveitarfélög eru með samning við Útlendingastofnun um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd en það er þörf á fleiri sveitarfélögum. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið er að taka yfir þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd og mun leita eftir fleiri samstarfssveitarfélögum í því verkefni, að sögn ráðuneytisins.