[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
K ennarinn : Jæja, krakkar mínir. Eru nokkrar slettu-fréttir í dag? Nemandi 1: Já, ég heyrði unga konu í heita pottinum segja: „Ég skrifaði BA-ritgerðina mína um þetta, því ég hef slightly meiri áhuga á þessu, actually .

K ennarinn : Jæja, krakkar mínir. Eru nokkrar slettu-fréttir í dag?

Nemandi 1: Já, ég heyrði unga konu í heita pottinum segja: „Ég skrifaði BA-ritgerðina mína um þetta, því ég hef slightly meiri áhuga á þessu, actually . So far hef ég ekki fengið mörg comment .“

Nemandi 2 : Það var nú einn í pottinum sem var að tala um utanlandsferðina sína. Hann lýsti því svona: „Ég greindist með COVID á öðrum degi í ferðinni. Ég var basically groundaður á hótelinu það sem eftir var.“

Nemandi 3 : Ég heyrði vöðvatröll í tækjasalnum lýsa matreiðslunni hjá sér. Hann sagði orðrétt: „Þegar ég er að mealpreppa sweet potatoes , þá boila ég þá. Það er good shit .“

Nemandi 4 : Í búningsklefanum var einhver að tala um óvinsæla konu og sagði: „Þau randomly sögðu að hún væri disgusting .“

Nemandi 5 : Ég var nú bara að hlusta á útvarpið. Þar var einn sem sagði: „Við viljum sjá alvöru slag um formannssætið hjá KSÍ – Það downgreidar þetta aðeins að Vanda fái rússneska kosningu.“

Nemandi 6 : Einmitt, í íþróttafréttum var sagt: „Þeir hafa rípleisað þann sem komst ekki á mótið.“

Nemandi 7 : Ég heyrði þáttarstjórnanda á Rás 1 spyrja gestina: „Hvernig strýkur Zelenskyy ykkur sem leiðtogi?“ ( How does he strike you as a leader ?)

Nemandi 8 : Já, einn gestur á Rás 1 sagði líka: „Þetta var drop-off svæði, ef ég má sletta.“

Kennarinn : Þakka ykkur fyrir. Hver er þá niðurstaðan?

Nemendur (eftir stuttan vinnufund):

1. Berum virðingu fyrir móðurmálinu, það hefur ekkert með þjóðrembu að gera.

2. Við höfum enga þörf fyrir aktjúallí og beisikklí í íslensku.

3. Viðurkennum aldrei að það sé fínt að sletta. Leggjum okkur samt fram um að læra ensku og önnur tungumál.

4. Þegar við heyrum hvert annað sletta, þá skulum við leika okkur að því í sameiningu að finna í staðinn bestu íslensku orðin.

5. Það er mikilvægt að lesa fyrir börn á kvöldin, já, á hverju kvöldi.

6. Höfum upplestrarstund í skólastofunni á hverjum degi, já, hverjum degi (framhaldssögur og aðra texta). Það skapar umræðu.

7. Ræðum saman við eldhúsborðið heima.

8. Setjum sanngjarnar reglur um símanotkun og YouTube.

9. Tölum íslensku við innflytjendur og hjálpum þeim við námið. Og sýnum uppruna þeirra áhuga, spyrjum þá spurninga um það sem þeir vita meira um en við – þá fá þeir áhuga á okkur og málinu okkar.

10. Hvetjum krakka til að skrifa dagbók á hverju kvöldi.

Kennarinn : Kærar þakkir. Nú ráðlegg ég ykkur að fara með þetta beint á miðlana ykkar og deila því með vinum sem deili því síðan áfram. Þetta er svo einfalt. Þið getið með þessu móti sveigt íslenskuna af rangri braut án þess að beita einu einasta skammaryrði og án þess að það kosti samfélagið einn einasta eyri. Fræðingarnir hafa brugðist. Við kennararnir höfum brugðist. Foreldrarnir hafa brugðist. Ef einhverjir geta bjargað íslenskunni eruð það þið.

Baldur Hafstað hafstad.baldur@gmail.com

Höf.: Baldur Hafstað hafstad.baldur@gmail.com