[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigrún Stefánsdóttir fæddist á Akureyri 19. mars 1947 og er næstelst í sex systkina hópi. Hún stundaði nám í Menntaskólanum á Akureyri og lauk stúdentsprófi úr máladeild árið 1967.

Sigrún Stefánsdóttir fæddist á Akureyri 19. mars 1947 og er næstelst í sex systkina hópi. Hún stundaði nám í Menntaskólanum á Akureyri og lauk stúdentsprófi úr máladeild árið 1967. Á þessum árum var hún í alls kyns störfum yfir sumartímann, vann í fiski, á saumastofu, í eldhúsi á hóteli, afgreiddi ís út um sjoppulúgu og margt fleira.

„Ég lærði ótrúlega mikið í gegnum þessi störf. En það mikilvægasta var að læra hvernig ég vildi ekki eyða ævinni en það var að flaka fisk, hreinsa orma og skera blóð úr flökum.“ Það gekk eftir. Sigrún fékk námsstyrk eftir stúdentspróf og notaði sumarhýruna úr frystihúsinu til þess að kaupa flugmiða til Arkansas í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Þar hóf hún háskólanám í blaðamennsku á meðan kynþáttaóeirðir í ríkinu náðu inn í fréttatíma Ríkisútvarpsins. Þegar heim var komið fór hún í Íþróttakennaraskólann til þess að láta gamlan draum rætast. Með kennararéttindin upp á vasann bankaði hún upp á hjá Morgunblaðinu og bað um vinnu. Þar með voru örlögin ráðin. Öll störf eftir það hafa á einn eða annan hátt tengst blaðamennsku og gera það enn.

„Ég festi ráð mitt og eignaðist eldri son minn á meðan ég vann á Mogganum. En málin þróuðust þannig að litla fjölskyldan fór til Noregs og þar fór ég í Norska blaðamannaskólann og vann samhliða á Verdens Gang. Síðan lá leiðin aftur heim til Akureyrar þar sem Björn maðurinn minn var ráðinn sem félagsmálastjóri og ég sem ritstjóri Íslendings, auk þess sem ég gekk með yngri son okkar. Ég var ritstjórinn, eini blaðamaðurinn, ljósmyndarinn og umbrotsmaðurinn á blaðinu. Við vorum þrjár konur sem rákum blaðið, ég og fjármálastjóri og dreifingarstjóri. Þetta kvennaveldi komst í fréttir.“

Frá Akureyri lá leiðin suður og Sigrún hóf störf hjá Sjónvarpinu. Þar byrjaði nýr ævintýrakafli en hún segir að starfið þar hafi verið ótrúlega áhugavert, krefjandi en fyrst og fremst gefandi. „Ég fékk mörg tækifæri í dagskrárgerð samhliða fréttamennskunni og kynntist frábæru fólki og þvældist út um allt bæði hér heima og erlendis í efnisöflun. Löngun í meiri menntun réð því þó að ég kvaddi þennan vinnustað í bili og hóf nám í Háskólanum í Minnesóta í Bandaríkjunum. Ég lauk BA-prófi í fjölmiðlafræði, MA-prófi og doktorsprófi frá sama skóla og útskrifaðist vorið 1987, árið sem ég varð fertug.“

Háskóli Íslands var á sama tíma að undirbúa kennslu í fjölmiðlafræði og var Sigrún ráðin til þess að koma því af stað. Námsbrautin var nefnd hagnýt fjölmiðlun og var eins árs diplómanám. „Þar uppgötvaði ég að kennsla á mjög vel við mig. Ég er enn að kenna sem stundakennari, núna við Háskólann á Akureyri og finnst það alltaf jafn gefandi. En ég er líka fædd með ævintýraþrá sem sér til þess að ég morkni ekki á sama blettinum. Þegar ég var búin að kenna í 10 ár í HÍ, seldi ég eigur mínar og lagðist í víking í Danmörku. Ég var fyrst í Árósum sem yfirmaður Endurmenntunarstofnunar norrænna blaðamanna en fór síðan til Kaupmannahafnar og var ráðin yfirmaður kynningarmála norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs. Á þessum árum kynntist ég Yngvari sem var menntaður í sama fagi og ég, blaðamennskunni. Við höfum hokrað saman nú í rúm tuttugu ár.“

Kaupmannahafnartíminn leið hratt og hugurinn fór að leita heim. Sigrún var ráðin sem dagskrárstjóri hjá Ríkisútvarpinu og var þar í rúmlega sjö ár. Fjármálakreppan setti sinn svip á starfið. Niðurskurður og hagræðingar voru stóru verkefnin en samt lýsir Sigrún þessum tíma sem mjög gefandi, enda gott starfsfólk og góður starfsandi.

„Síðasta alvöruvinnan mín var sem sviðsforseti hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri en þar hætti ég þegar ég varð sjötug. Þetta síðasta starfsár notaði ég til þess að ljúka námi í leiðsögumannaskólanum og nýt þess nú að sýna jafnöldrum mínum frá Bandaríkjunum Ísland og Grænland.

Persónulega er ég rík kona. Ég á yndislega syni, barnabörn og barnabarnabarn en þau búa öll á Akureyri. Ég á mörg áhugamál, finnst gaman að skrifa og er alæta á bækur. Rek saumastofu í eldhúsinu fyrir barnabörnin og þykir gaman að elda mat. Við Yngvar göngum mikið og njótum þess að kynnast nýjum stöðum á tveimur jafnfljótum. Við höfum t.d. gengið yfir England, farið í lengri bakpokaferðir á Ítalíu, í Noregi og Austurríki og erum enn að þökk sé góðri heilsu.“

Fjölskylda

Sambýlismaður Sigrúnar er Norðmaðurinn Yngvar Bjørshol, f. 17.10. 1950. Þau eru búsett í Aðalstræti á Akureyri.

Sigrún á tvo syni með Birni Þórleifssyni, f. 2.12. 1947, d. 17.1. 2003: 1) Þórleifur Stefán, f. 3.10. 1970, framkvæmdastjóri T Plús. Eiginkona hans er Rósa Mjöll Heimisdóttir sérkennari, f. 1.6. 1972. Börn þeirra eru Aron Örn, f. 9.8. 1992, Katla Þöll, f. 11.12. 1998, Þórey Edda, f. 23.8. 2000, og Björn Orri, f. 7.6. 2005. Aron Örn er kvæntur Brynju Reynisdóttur, f. 1.9. 1994, og barn þeirra er Bjarmi, f. 3.4. 2020; 2) Héðinn Svarfdal, f. 15.12. 1974, félagssálfræðingur hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands. Eiginkona hans er Elva Sturludóttir, f. 16.7. 1973, félagsráðgjafi. Synir þeirra eru Goði Svarfdal, f. 3.3. 2009, og Víkingur Svarfdal, f. 2.3. 2013. Stjúpdóttir Héðins er Sóldögg, f. 11.12. 1994. Börn Yngvars eru 1) Line Eliassen-Bjørshol, f. 21. 11. 1972, viðskiptafræðingur. Synir hennar með Jørgen Eliassen eru Alfred, f. 6.12. 1999, og Oliver; f. 21.5. 2002; 2) Espen Bjørshol, f. 11.3. 1976, tæknifræðingur. Sambýliskona hans er Monika Håkerud.

Systkini Sigrúnar eru 1) Þórarinn, f. 11.10. 1945, d. 19.5. 2010, stýrimaður; 2) Gunnhildur, f. 4.4. 1952, sjúkraliði; 3) Árni, f. 10.10. 1953, íþróttakennari; 4) Páll, f. 25.3. 1960, rafvirki; 5) Ólöf, f. 20.5. 1965, lyfjafræðingur.

Foreldrar Sigrúnar voru hjónin Petrína Soffía Þórarinsdóttir Eldjárn húsfreyja, f. 17.2. 1922, d. 9.7. 2003, og Stefán Svarfdal Árnason, fjármálafulltrúi RARIK, f. 14.4. 1920, d. 4.10. 2009.