Eiríkur Jónsson fæddist 18. mars 1822 á Hoffelli í Nesjum, A-Skaft. Foreldrar hans voru Jón Bergsson, f. 1795, d.1852, og fyrri kona hans, Sigríður Eiríksdóttir eldri, f. 1800, d. 1847. Árið 1828 tók Jón prestsvígslu og fékk Einholt á Mýrum.
Eiríkur lauk prófi frá Bessastaðaskóla 1846, sigldi síðan til Kaupmannahafnar og settist þar að. Hann las guðfræði og síðar málfræði við háskólann en lauk ekki lokaprófi. Eiríkur var ritstjóri Skírnis, sem var helsta fréttaritið á sínum tíma, árin 1863-1872, 1875 og 1877-1887. Eftir að hann lét af því starfi, sendi hann Ísafold erlendar fréttir.
Eiríkur átti þátt í að gefa út Reykjabók og Hauksbók. Hann samdi Oldnordisk Ordbog fyrir tilstuðlan Hins konunglega norræna fornfræðafélags. Hún var íslensk-dönsk orðabók yfir fornmálið, kom út 1863 og var lengi eina bókin til að létta lestur fornsagnanna hjá Dönum.
Eiríkur var styrkþegi hjá Árnasafni og varaprófastur á Garði 1873-1899. Eiríkur missti ungur sjón á öðru auga af slysi í smiðju. Hann var hagmæltur.
Kona Eiríks var Jensine Petrine Jensen, f. 1836, d. 1900. Þau voru barnlaus.
Eiríkur lést 30. apríl 1899.