Ferðir Alþjóðaflug Delta er um 35% af starfseminni. Verð gæti hækkað meira þar en innanlands.
Ferðir Alþjóðaflug Delta er um 35% af starfseminni. Verð gæti hækkað meira þar en innanlands.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Forstjóri bandaríska flugfélagsins Delta, Ed Bastian, segir í samtali við BBC í Bretlandi að hækkandi olíuverð í heiminum vegna stríðsins í Úkraínu gæti leitt til 10% hækkunar á flugfargjöldum.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Forstjóri bandaríska flugfélagsins Delta, Ed Bastian, segir í samtali við BBC í Bretlandi að hækkandi olíuverð í heiminum vegna stríðsins í Úkraínu gæti leitt til 10% hækkunar á flugfargjöldum.

Delta er eitt stærsta flugfélag heims en fyrir faraldurinn, árið 2019, flutti félagið 200 milljónir farþega. Það þýðir að félagið var á þeim tíma annað stærsta flugfélag í heimi þegar horft er til fjölda farþega.

Ekki hærra í 14 ár

Verð á olíu hefur ekki verið hærra í fjórtán ár. Segir Bastian að endanleg niðurstaða ráðist af því hvernig lendingin verður með olíuverðið.

Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins Play, sagði í samtali við Morgunblaðið fyrr í vikunni að félagið hygðist bregðast við ástandinu með því að leggja á sérstakt olíugjald líkt og margir stærstu keppinautar félagsins hefðu innleitt.

Eldsneytiskostnaður Play nam á síðasta ári um sex milljónum dala.

Á meðal flugfélaga sem sett hafa sérstakt olíugjald á flugmiða sína eru Emirates, Japan Airlines og AirAsia.

Endurspegla aðföng

Í skriflegu svari frá Icelandair segir að almennt sé ljóst að fargjöld muni til lengri tíma þurfa að endurspegla aðföng, þ.m.t. eldsneytisverð. „Icelandair hefur enn sem komið er ekki tekið ákvörðun um sérstaka hækkun fargjalda en ekki er ólíklegt að til þess muni koma á næstunni ef eldsneytisverð helst hátt,“ segir í svarinu.

Bastian segir í samtalinu við BBC að flugmiðahækkunin í innanlandsflugi í Bandaríkjunum gæti orðið um 25 dalir á hvern miða, sem jafngildir rúmum þrjú þúsund íslenskum krónum. Hann segir að það þýði á milli 5- 10% hækkun á farmiðaverði og bætir við að gjaldið fyrir alþjóðlegt flug gæti orðið lítið eitt hærra.

Alþjóðaflug Delta er um 35% af starfseminni.

Í grein BBC er einnig vitnað til forstjóra stærsta flugfélags Evrópu, Ryanair, Michaels O'Learys, en hann sagði nýlega að hækkun olíuverðs myndi leiða til „merkjanlega hærri“ fargjalda næsta sumar.

Mörg flugfélög reyna að verja sig gegn flökti í olíuverði með því að kaupa olíu fyrir fram. Easyjet og British Airway sögðu nýlega, eins og segir í frétt BBC, að þau hefðu gert það fyrir 60% af olíuþörf sinni á þessu ári.

Flökt á verði

Mikið flökt hefur verið á olíuverði á árinu. Í byrjun janúar var verð á tunnunni af Brent-hráolíu undir 80 bandaríkjadölum. Nýlega hækkaði það upp í um 130 dali á tunnu, þegar Bandaríkjamenn og Bretar sögðust ætla að hætta að kaupa olíu frá Rússlandi. Verðið er nú um 107 dalir á tunnu.

Óvissutímar
» Delta flutti 200 milljónir farþega árið 2019
» Play keypti olíu fyrir sex milljónir dala í fyrra
» Mörg flugfélög kaupa olíu fyrir fram
» Emirates, Japan Airlines og AirAsia líka með olíugjald
» Verð á Brent-hráolíutunnu er nú um 107 bandaríkjadalir