Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
„Það er ástæða til að gleðjast yfir þessum séríslenska sigri óskabarnsins á erlendri grundu því það er fátt sem kjarnar þjóðarsálina betur en Brennivín,“ segir Úlfar Árdal, framleiðslustjóri Brennivíns hjá Ölgerðinni.
Íslenskt brennivín hlaut sérstök verðlaun á International Wine & Spirit Competition á dögunum. Keppnin sú þykir ein sú virtasta í vínheimum og spannar saga hennar yfir fimmtíu ár. Það var sérstök útgáfa íslenska brennivínsins, Brennivín Special Cask, sem var verðlaunað, fékk gullverðlaun í sínum flokki og 95 punkta af 100 mögulegum. Alls kepptu 33 vörur í sama flokki ákavítis og endaði Brennivín efst. Í umsögn dómnefndar sagði að greina mætti bæði möndlur og kókoshnetur í bragði brennivínsins auk þess að það tónaði af peru, rúsínum og lofnarblómi.
„IWSC er ein virtasta vínkeppni heims og það er ánægjulegt að hljóta viðurkenningu sem þessa fyrir þá þróun sem hefur verið í gangi hjá okkur með Brennivín undanfarin ár,“ segir Úlfar.
„Eins og kunnugt er hefur Brennivín fylgt þjóðinni frá árinu 1935 þegar íslenska ríkið hóf framleiðslu þess og áfengisbanninu var aflétt að hluta. Brennivín hefur löngum verið meðal þekktustu vörumerkja þjóðarinnar og hefur verið sérstaklega ánægjulegt að upplifa uppgang vörumerkisins erlendis síðustu misseri þar sem gæðin hafa bæði verið að færa okkur viðurkenningar sem þessa ásamt vaxandi fjölda viðskiptavina og neytenda.“