Marey Stefanía Björgvinsdóttir fæddist á Skriðu í Breiðdal 19. júní 1939. Hún lést á Landakoti eftir stutt veikindi 8. febrúar 2022.

Marey var dóttir Björgvins Magnússonar bónda á Skriðu og síðar Höskuldsstaðaseli, f. 18. apríl 1903, d. 31. desember 1984, og Mareyjar Bjargar Guðlaugar Jónsdóttur, f. 23. mars 1906, d. 6. febrúar 1940. Fyrir áttu þau soninn Braga, f. 17. júní 1934, d. 1. apríl 2015. Marey var skírð við kistu móður sinnar. Hún upp á Skriðu og Höskuldsstaðaseli og bjó síðar og vann ýmis störf á Breiðdalsvík. Hún flutti til Reykjavíkur 2004.

Fyrri kona Björgvins hét Stefanía Sigurborg Hannesdóttir, f. 26. september 1901, d. 5. desember 1929, sem lést ung frá manni og börnum. Áttu þau tvö börn; Hannes, f. 12. nóvember 1925, d. 5. nóvember 2005, og Aðalbjörgu Sigrúnu (Lillu), f. 13. júní 1927, d. 17. janúar 2013.

Þriðja kona Björgvins hét Ragnheiður Hóseasdóttir, f. 3. júní 1921, d. 25. desember 2016. Börn þeirra eru Ingibjörg, f. 28. febrúar 1949, Björn, f. 24. september 1950, Baldur, f. 29. desember 1951, og Unnur, f. 17. júlí 1956.

Marey giftist Þórði Þorgrímssyni, f. 16. mars 1930, á sjómannadaginn 12. júní 1960. Börn þeirra eru: 1) Björgvin Heiðar, f. 25. nóvember 1966. Börn hans eru Marey Sif, f. 1995, og Sigþór Reynir, f. 1998. 2) Þórný, f. 10. febrúar 1973, gift Brynjari Ólafssyni, f. 1974, og börn þeirra eru Valdís, f. 2004, og Agnes, f. 2006.

Útför Mareyjar fór fram í Bústaðakirkju, í kyrrþey.

Marey, hinsta kveðja, svo endanleg og ennþá óraunveruleg. Minningarnar þyrlast að.

Það er óhætt að segja að heilladísirnar hafi ekki alltaf verið með Mareyju í liði. Henni var gefið nafn við kistulagningu móður sinnar, í Breiðdalnum, þar sem hún fæddist og ólst upp.

Þarna hafði pabbi hennar þegar misst fyrstu konu sína og Marey átti tvö stálpuð hálfsystkin og einn eldri bróður. Hún elst síðan upp á heimili pabba síns og Ragnheiðar konu hans, þar sem einnig voru eldri fjölskyldumeðlimir og eignast fjögur hálfsystkini í viðbót.

Það að missa mömmu sína strax í upphafi lífsins hlýtur að hafa áhrif á flest börn og sumum fannst Marey stundum hörð í lund, sem var þó ekki raunin, en sennilega hefur henni lærst að ekki þýddi að bera tilfinningar sínar á torg.

Marey lærði heimilisstörf í uppeldinu enda Höskuldsstaðasel talið mikið myndarheimili og síðar fór hún á Hússtjórnarskólann á Hallormsstað og bjó svo sannarlega að því.

Um tvítugt giftist hún móðurbróður mínum, honum Dodda, Þórði Þorgrímssyni, en afi hans og amma og fleira skyldfólk reisti tvíbýlishús á Breiðdalsvík sem varð fyrsta íbúðarhúsið þar.

Þegar þau Doddi giftu sig var þetta fjölskylduhús búið með sína lífdaga og Doddi byggði nýtt með Garðari bróður sínum. Þangað fluttu ungu hjónin, en einnig þeir sem eftir voru í gamla húsinu. Það voru Oddný tengdamamma Mareyjar, Þröstur yngsti bróðir Dodda, Geirlaug systir hans og fljótlega bættumst við Helena systir við, dætur Geirlaugar.

Þetta var því sjö manna heimili og kom það mestmegnis í hlut Mareyjar að sjá um okkur systur þegar mamma var í burtu í vinnu, oft um langan tíma í senn.

Þetta hefur kannski ekki verið með öllu auðvelt, hvorki fyrir hana né okkur systur, því þarna átti hún engin eigin börn og því þó nokkurt verkefni að fá tvö ung börn í hendurnar.

Þau Doddi voru mjög samstiga í að reka myndarlegt heimili og mér fannst Marey kunna allt og gera allt vel. Það var alltaf vel hugsað um allt á heimilinu, hún gat saumað og maturinn og kökurnar smökkuðust alltaf dásamlega og ekki þurfti neitt lítið til á mannmörgu heimili auk þess sem gestir voru ávallt velkomnir.

Þau eignuðust tvö börn, Björgvin og Þórnýju, þegar hún er um tveggja ára erum við mæðgur fluttar af heimilinu.

Marey var að verðleikum stolt af krökkunum sínum enda hafa þau erft myndarskap foreldranna og síðar komu ömmubörnin og gáfu lífinu lit. Hún var fyrst og fremst fjölskyldumanneskja og lét sig varða okkar hag og fylgdist vel með sínu fólki.

Þegar þau fluttu til borgarinnar átti ekki við þau að sitja iðjulaus, þvílíkt af handverki sem þau gerðu og í því voru þau samstiga og bæði fjölskylda og aðrir fengu að njóta. Þetta er því markverðara sem Marey þjáðist af liðagigt.

Þrátt fyrir slæma heilsu hennar vorum við fjölskyldan ekki viðbúin, eftir örstutt veikindi var hún farin.

Marey var máttarstólpi í fjölskyldunni og skilur eftir sig skarð sem ekki verður fyllt. Við mæðgur og okkar fólk þökkum henni af alhug samfylgdina og óskum henni góðrar ferðar í sumarlandið.

Minningin lifir áfram í hjörtum okkar.

Vilborg Ámundadóttir.