Jafndægri' að vori er vonanna dagur,
veturinn hopar og kraftur hans dvín.
Bjartsýni glæðist því batnandi hagur
blasir við, framundan vordýrðin skín.
Röðullinn þráði á himninum hækkar,
hlýnar þá jörðin og grænkar um ból.
Lygnir og þornar er lægðunum fækkar,
lífríkið fagnandi brosir mót sól.
Veturinn óhemju erfiður reyndist,
ótíð með hvassviðri, frosti og snjó.
Kórónuveiran í kófinu leyndist,
kaldrifjuð skörðin í raðirnar hjó.
Víða í heiminum helkaldur garri
haturs og ofbeldis bítur og slær.
Stríðsógnin virtist þó vera svo fjarri,
víst okkur brá þegar færðist hún nær.
Grimmdin er mikil í sturluðum stríðum,
stórbokkahátturinn tekur öll völd.
Mennskunni' er fórnað í manngerðum hríðum,
myrkrið því ræður og sérhyggjan köld.
Saklausir borgarar bugast af ótta,
búa við ógnanir, kúgun og nauð.
Konur og börn eru farin á flótta
frá sínum heimkynnum, döpur og snauð.
Eiga samt vonina, viljann og trúna.
Vesturlönd álengdar fylgjast með því.
Aðgerðarleysið er nístandi núna,
neyðarlegt hlutleysið stríðinu í.
Lífið er oft í senn gleði og grátur,
gæfa og tjón eru samferða þar,
rétt eins og tvíburar harmur og hlátur,
heilindi' og fals mynda ógnvænlegt par.
Þjóðunum eystra við óskum Guðs friðar,
yfir þeim himneska vorbirtan sé,
leggi þær bræði og beiskju til hliðar,
berjist ei lengur en semji um hlé.
Lífið og gróandinn, vonin og vorið,
vitna um birtunnar farsælu leið.
Til hennar sækjum við þróttinn og þorið,
þrá eftir jöfnuði, úthald í neyð.
Áfram mót birtunni leið okkar liggur,
læknast þá meinin og þorna öll tár.
Myrkrið burt hörfar ef mannkynið þiggur
mildi og kærleik sem bindur um sár.
Þá munu friður og réttlæti ríkja,
réna þau átök sem nú eru hörð,
samhugur eflast en síngirni víkja,
sættir og velvilji blómgast á jörð.
Höfundur er hagyrðingur. olafurjohannsson59@gmail.com